Arion banka gert að greiða 520 milljónir

Arion banki þarf að greiða þrotabúi eignarhaldsfélagsins Samsonar 127 milljónir króna, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þrotabúið krafðist þess að rift yrði 520 milljóna króna greiðslu, sem bankinn tók út af reikningi Samsonar í október 2008 skömmu áður en félagið var lýst gjaldþrota.

Kaupþing banki veitti Samsoni tæplega 4,3 milljarða króna lán í desember 2007. Var lánið veitt til greiðslu á eldra láni félagsins hjá bankanum sem hafði verið veitt til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands.

Sett voru að handveði hlutabréf í Landsbankanum að nafnvirði 239 milljónir króna. Tekið var fram að færi markaðsverðmæti  hlutabréfanna niður fyrir 130% af eftirstöðvum skuldanna yrðu skuldirnar greiddar niður eða lagðar fram nýjar tryggingar. 

Markaðsverðmæti hlutabréfa í Landsbankans náði hámarki sumarið 2007 en hóf að lækka frá þeim tíma. Í júní 2008 krafðist Kaupþing þess að Samson legði fram viðbótartryggingar og/eða greiddi niður skuldbindingar sínar vegna lækkunar á verðmæti trygginga. Samson eignarhaldsfélag brást við kröfu bankans með því að setja að veði hluti í Landsbankanum að nafnverði 52 milljónir til viðbótar.

Markaðsverðmæti hlutabréfa í Landsbankanum hélt áfram að lækka haustið 2008. Af þessum sökum krafðist Kaupþing þess með bréfi 2. október 2008, að Samson legði fram viðbótartryggingar og/eða greiddi niður skuldbindingar sínar.

Með tölvupósti frá starfsmanni Samsonar  6. október 2008 var bankanum veitt heimild til að taka veð í 35.963.935 hlutum í Landsbankanum til viðbótar. Þá var mælt fyrir um að selja skyldi alla innstæðu félagsins í peningamarkaðssjóðum og nota 370 milljónir til að greiða inn á vexti af láninu og 23 milljónir til að greiða yfirdráttarskuld.

Hæstiréttur segir, að ekkert liggi fyrir um að Kaupþing hafi notið heimildar samkvæmt samningi við Samson, til að ganga á innlánsreikninga félagsins til uppgjörs á skuldum þess, en af dómaframkvæmd Hæstaréttar leiddi að án slíkrar heimildar gæti bankinn ekki beitt skuldajöfnuði í þessu skyni. Var krafa  þrotabús Samsonar  um afhendingu fjárins því tekin til greina.  

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að féð sem deilt var um, sé enn varðveitt á   tveimur bankareikningum sem voru í eigu Samsonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK