Fréttaskýring: Stöðugleikasáttmáli á sterum

Merkel og Sarkozy hafa haft ólíka sýn á það hvaða …
Merkel og Sarkozy hafa haft ólíka sýn á það hvaða leið skuli fara til að leysa skuldakreppu evrusvæðisins. reuteres

Að lokum voru það hagsmunir Þýskalands sem vógu þyngra en Frakklands. Á fundi Nicolasar Sarkozy Frakklandsforseta og Angelu Merkel Þýskalandskanslara í París í gær náðu leiðtogarnir samkomulagi um að aðildarríki evrusvæðisins innleiði ákvæði í stjórnarskrár sem kveði á um hámarkshalla í ríkisrekstri sem nemur 3% af landsframleiðslu. Viðkomandi stjórnvöld sem virða ekki reglur um halla á ríkisfjárlögum verði sjálfkrafa beitt refsiaðgerðum. Á þessari stundu er óljóst hvort hinn nýi sáttmáli nái til allra 27 aðildarríkja Evrópusambandsins.

Sameiginleg útgáfa evruskuldabréfa – nokkuð sem margir fjárfestar hafa bundið miklar vonir við sem lausn á skuldakreppu evrusvæðisins – virðist ekki vera á döfinni ef marka má ummæli Sarkozys og Merkels. „Evruskuldabréf eru engin lausn á kreppunni,“ sagði Sarkozy. Merkel hefur löngum haldið því fram að útgáfa slíkra skuldabréfa myndi draga úr þrýstingi á stjórnvöld að sýna aðhald í ríkisfjármálum.

Merkel féll hins vegar frá fyrri kröfu sinni um að veita Evrópudómstólnum virkar valdheimildir til að bregðast við með viðeigandi hætti gerðust aðildarríki brotleg á reglum um fjárlagahalla. Þess í stað mun dómstóllinn aðeins úrskurða um hvort stjórnarskrárákvæði aðildarríkjanna um hámarkshalla á ríkisrekstri sé í samræmi við kröfur hins nýja sáttmála sambandsins.

Það vekur sömuleiðis athygli að leiðtogarnir náðu samkomulagi um að í framtíðinni yrði þess ekki krafist, að einkaaðilar tækju að hluta til á sig tap, samhliða endurskipulagningu ríkisskulda líkt og raunin var með Grikkland fyrr á þessu ári. Merkel og Sarkozy munu leggja fram hugmyndir sínar á fundi leiðtogaráðs ESB næstkomandi fimmtudag.

Bandalag að þýskri forskrift

Ljóst er að með tillögunum vonast leiðtogar Frakklands og Þýskalands til, að hægt sé að endurvekja traust fjárfesta á evrusvæðinu og afstýra gjaldþroti Grikklands og hugsanlega Ítalíu. Komi aðrar og umfangsmeiri aðgerðir ekki til, er hins vegar ósennilegt að stefnusmiðum evrusvæðisins verði að ósk sinni.

Það mun taka mánuði að semja hinn nýja sáttmála um ríkisfjármál – og í kjölfarið mörg ár að fá hann samþykktan meðal aðildarríkjanna.

Ríkisfjármálabandalag að þýskri forskrift – þar sem öll aðildarríki myntbandalagsins skuldbinda sig samtímis til að sýna strangt aðhald í ríkisfjármálum og draga úr skuldum ríkisins – samfara sífellt versnandi hagvaxtarhorfum í álfunni mun óumflýjanlega leiða til samdráttar í heildareftirspurn og þar með auka líkur á viðvarandi efnahagslægð næstu árin.

Rétt eins og Wolfgang Münchau, pistlahöfundur Financial Times, bendir á, þá er með öðrum orðum verið að koma á fót stöðugleikasáttmála á sterum. Á þessari stundu er mikilvægast fyrir evrusvæðið að kynna til sögunnar aðgerðir sem eru líklegar til að stemma stigu við þeim bráðavanda sem myntbandalagið glímir við.

Þörf á umfangsmeiri aðgerðum

Slíkar aðgerðir þurfa að vera af tvennum toga: annars vegar að heimila Evrópska seðlabankanum að gerast lánveitandi til þrautavara og kaupa ríkisskuldabréf verst stöddu evruríkjanna og hins vegar að hefja undirbúningsvinnu að útgáfu evruskuldabréfa. Þjóðverjar standa eftir sem áður fast gegn öllum slíkum hugmyndum.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hin djúpstæða skuldakreppa evrusvæðisins á ekki rætur sínar að rekja til lausataka í ríkisfjármálum – slíkt átti aðeins við í tilfelli Grikklands. Spánn var með afgang á fjárlögum upp á 2% af landsframleiðslu árið 2006 og braut aldrei stöðugleika- og vaxtarsáttmála myntbandalagsins – ólíkt Þjóðverjum og Frökkum – og Ítalía hefur löngum haft frumjöfnuð á ríkissjóði.

Það má leiða að því líkur að ein helsta ástæða þess að allar björgunaraðgerðir ráðamanna evrusvæðisins hafa mistekist fram til þessa sé einmitt rangur skilningur á rót þeirra vandræða sem evrusvæðið glímir við um þessar mundir. Verði ekki viðhorfsbreyting í þeim efnum á næstunni er hætt við því að illa fari.

Ríkisfjármálabandalag

» Aðildarrríkjum evrusvæðisins gert að innleiða ákvæði í stjórnarskrá um hámarkshalla á ríkisrekstri.
» Leiðtogar Frakklands og Þýskalands útiloka útgáfu sameiginlegs evruskuldabréfs.
» Tillögurnar gagnrýndar fyrir að taka ekki á bráðavanda evrusvæðisins.
» Kreppan á ekki rætur sínar að rekja til lausataka í ríkisfjármálum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK