Lufthansa mun fjölga ferðum sínum til Íslands

Reuters

Flugfélagið Lufthansa hefur ákveðið að bæta við flugferðum til Íslands. Á næsta ári munu þeir bæta við ferðum frá Berlín tvisvar í viku og verða þá sex flug á viku frá Þýskalandi og hingað heim. Tvö flug frá Hamborg, tvö frá Düsseldorf og nú tvö frá Berlín.

Aage Dunhaupt, sem er einn af yfirmönnum í deild almannatengsla hjá fyrirtækinu, hitti blaðamann Morgunblaðsins á Hótel Borg í gær.

„Í júní verður opnaður nýr flugvöllur í Berlín sem nefnist Willy Brandt International Airport. Þótt Berlín sé pólitíska höfuðborgin þá eru Frankfurt og München höfuðborgir viðskipta í Þýskalandi. Í Berlín eru stóru fyrirtækin yfirleitt ekki með neitt annað en útibú. Vestrið stýrir ennþá viðskiptunum. Þannig að það er ekki eins mikil umferð í gegnum flugvelli Berlínar. En Berlín er vinsæl á meðal ferðamanna. Borgin er þriðja vinsælasta í heimi fyrir hverskonar ráðstefnur þannig að við erum að auka mjög flug í gegnum hana.

Við erum búnir að búa til nýtt konsept til að notast við í Berlín. Við höfum lækkað kostnaðinn um 30%. Við gerðum það með nýjum samningum við flugáhafnir og við fljúgum svona ping-pong. Það er strax flogið til baka og þannig spörum við gistikostnað fyrir áhöfnina. Svo erum við með Airbus A320 vélar sem eru sparneytnari. Ef þetta Berlínar-konsept virkar munum við væntanlega gera það sama í öllum okkar flugum. Þjónusta við farþega mun ekki minnka með þessu. Þannig munu þeir sem fljúga til Íslands með okkur fá fría smárétti, drykki og jafnvel bjórinn er ókeypis. Samt verður flugfarið ódýrt en miðaverð er frá 15.700 krónum aðra leiðina með flugvallarskatti.

Þjóðverjar hafa mikið sótt á norðurslóðir í fríum sínum þannig að við bindum vonir við að þetta verði farsælt. Engir ferðast eins mikið og Þjóðverjar og þótt hægt sé að komast í mun ódýrari ferðir suður á bóginn, heillast þeir af náttúrufegurð norðursins.“

Lufthansa er stærsta flugfélag Evrópu og á 100% í Austrian Airlines, Swiss Airlines og BMI. Flugfloti þeirra er 700 vélar og þar af eru 420 merktar Lufthansa en hinar dótturfélögunum. „Á árinu 2010 flugum við með 90 milljónir farþega til meira en 200 áfangastaða í 90 löndum,“ segir Dunhaupt stoltur en hann er hér í stuttu fríi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK