Flókið að viðhalda höftum

Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund
Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund mbl.is/Árni Sæberg

Lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s segir í að með því að stoppa í götin á gjaldeyrishöftunum hafi íslensk stjórnvöld aukið trúverðugleika þess að þeim muni á endanum takast að losa um höftin í smáum skrefum án þess að missa tökin. Engu að síður segir Moody´s að afléttingin sé enn skammt á veg komin og að viðhald haftanna án þess að setja  fjármála- og gjaldeyrisstöðugleika í hættu sé ögrandi viðfangsefni.

Moody´s sendi frá sér í gær umsögn um endurgreiðslur á lánunum sem tekin voru hjá AGS og Norðurlöndunum og breytingar á lögum um gjaldeyrishöft. Moody´s segir í umsögn sinni að forskotið sem tekið var á endurgreiðslur lánanna í síðustu viku hafi jákvæð áhrif á horfur lánshæfismats ríkissjóðs, þó að aðgerðin ein og sér dugi ekki til að breytingar verði gerðar á matinu. Moody´s segir að aðgerðin  mýki endurgreiðsluferilinn sem framundan er og spari stjórnvöldum og Seðlabankanum stórfé í vaxtagreiðslur, eða um það bil 10 milljörðum króna. Um þetta er fjallað í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

 Endurgreiðslan nemur 20% þeirra lána sem tekin voru hjá AGS og Norðurlöndunum, og  nær til gjalddaga sem falla á árinu 2013 í tilfelli AGS-lána, og til gjalddaga sem falla á árunum  2014, 2015 og að hluta árið 2016 í tilfelli Norðurlandanna. Moody´s segir að endurgreiðslan bæti erlenda skuldastöðu Íslands um 7,2% af VLF og skuldir ríkissjóðs um 2,7% af VLF og sé því mjög jákvæð aðgerð.

Höftin ögrandi viðfangsefni

Álit Moody´s á þessum aðgerðum kemur svo sem ekki á óvart, segir Greining Íslandsbanka. Meiri athygli vekur hversu jákvæðum augum lánshæfismatsfyrirtækið lítur breytingarnar á lögum um gjaldeyrishöft á einni nóttu í byrjun síðustu viku, en aðgerðin hefur valdið nokkrum styr.

Eftir breytingarnar voru afborganir og verðbætur af höfuðstól skuldabréfa (íbúðabréfa (HFF) og sambærilegra skuldabréfa) ekki lengur undanþegnar höftunum, auk þess sem undanþágur þrotabúa gömlu bankanna frá höftunum eru afnumdar, þá bæði vegna greiðslna í krónum og gjaldeyri. Moody´s segir aðgerðina endurspegla vel hversu flókið ferli það er að viðhalda gjaldeyrishöftum en telur engu að síður að aðgerðin hafi verið nauðsynleg.

Í umsögn Moody´s segir að með því að stoppa í götin á höftunum hafi íslensk stjórnvöld aukið trúverðugleika þess að þeim muni á endanum takast að losa um höftin í smáum skrefum án þess að missa tökin. Engu að síður segir Moody´s að afléttingin sé enn skammt á veg komin og að viðhald haftanna án þess að setja  fjármála- og gjaldeyrisstöðugleika í hættu sé ögrandi viðfangsefni, segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK