Umskipti í rekstri Árvakurs

Jákvæð umskipti urðu í rekstri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, í fyrra eftir mikið tap undanfarinna ára.

Heildartekjur ársins 2011 voru 3.011 m.kr. og jukust um 360 m.kr., eða 13,6%, frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður var 40,4 m.kr. en var neikvæður um 97,4 m.kr. árið 2010. Heildartap ársins er 205 m.kr. en tap ársins 2010 nam 330 m.kr. Eigið fé í árslok var 481 m.kr. Eiginfjárhlutfall í árslok var 24%

Óskar Magnússon útgefandi segir að rekstrarhagnaður ársins 2011 fyrir afskriftir og vexti (ebitda) hjá samstæðu Árvakurs hf. hafi verið í samræmi við áætlanir, 40,4 milljónir króna.

„Félagið hefur náð miklum árangri undanfarin ár í að bæta rekstrarafkomuna en hún var á þennan mælikvarða neikvæð um 575 milljónir króna árið 2008, neikvæð um 486 milljónir króna árið 2009, neikvæð um 97 milljónir króna árið 2010 og svo loks jákvæð um 40 milljónir króna á árinu 2011. Áætlanir ársins 2012 gera ráð fyrir 70 milljóna króna rekstrarhagnaði og er reksturinn á áætlun það sem af er árinu,“ segir Óskar.

Rúmur hálfur milljarður í hlutafjáraukningu

Fjárhagsleg endurskipulagning hefur farið fram að undanförnu. Hlutafé í Þórsmörk ehf., móðurfélagi Árvakurs hf., hefur verið aukið verulega, nú síðast um 540 milljónir króna og er nú 1.221 milljón króna. Hefur þeim fjármunum verið varið til að mæta rekstrartapi Árvakurs og til þess að minnka skuldabyrði félagsins. Áhrif þessa koma ekki öll fram í ársreikningnum, sem nú er birtur, en í efnahagsreikningnum kemur fram að skuldir hafa minnkað um 944 milljónir króna og eignir um 920 milljónir króna.

Sú endurskipulagning sem fram hefur farið byggist á breyttum forsendum frá því að félaginu var forðað frá gjaldþroti árið 2009, svo og á almennum ráðstöfunum sem Íslandsbanki stendur nú fyrir við endurskipulagningu fyrirtækja. Í samkomulaginu við bankann segir nánar:

„Nýir eigendur tóku við Árvakri og Landsprenti og rekstri þeirra á árinu 2009 eftir að bankinn hafði staðið fyrir söluferli á félögunum. Í því ferli var stuðst við áætlanir fyrri stjórnenda og eigenda ásamt ályktunum bankans. Ljóst er að þær forsendur hafa ekki gengið eftir eins og ráð var fyrir gert og hafa aðilar því orðið sammála um að ganga til samkomulags svo sem nánar greinir hér að neðan í samræmi við almennar ráðstafanir sem bankinn stendur nú fyrir við endurskipulagningu fjölmargra atvinnufyrirtækja.“

Nýir hluthafar hafa nú bæst í hluthafahóp Þórsmerkur og þar með Árvakurs. Er þar um að ræða útgerðarfélagið Þingey ehf. á Höfn í Hornafirði sem er eigandi að 50 milljóna króna hlutafé.

Áfram mikið aðhald

„Við gerum okkur grein fyrir því að áfram þarf að gæta strangasta aðhalds í rekstri Árvakurs þótt verulega hafi snúist til betri vegar á þeim tíma sem nýir hluthafar hafa rekið félagið. Í þeim efnum eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Námsmenn tóku fagnandi tilboði um áskrift og Mogga-iPad en auk þess hafa fjölmargir áskrifendur bæst við frá því átak hófst um síðustu áramót. Samtals hefur þeim fjölgað um hátt á þriðja þúsund. Þá er forysta mbl.is ótvíræð í hópi vefmiðla og miklir framtíðarmöguleikar á þeim vettvangi,“ segir Óskar Magnússon útgefandi.

Upplýsingum um stjórn, hluthafa og forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hluthafahópinn skipa hefur verið skilað til Fjölmiðlanefndar. Þá hefur ársreikningi Árvakurs hf. verið skilað til Ríkisskattstjóra.

Umtalsvert nýtt hlutafé

„Íslandsbanki hafði umsjón með opnu söluferli Árvakurs eftir að fyrri eigendur ákváðu að selja hlut sinn í félaginu. Söluferlið var fyrsta opna söluferlið sem bankinn stóð fyrir eftir haustið 2008 og með því var lögð ákveðin lína í þeim efnum hér á landi. Aðilar gerðu sér grein fyrir því á þeim tíma að mikilvægar forsendur sem lagðar voru til grundvallar þyrftu að ganga eftir og að gera mætti ráð fyrir að til endurskoðunar samningsins kæmi. Þeirri endurskoðun er nú lokið með því að hluthafar hafa lagt fram umtalsvert nýtt hlutafé eða samtals 1,2 milljarða króna. Íslandsbanki hefur á þeim grundvelli farið með félagið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu í samræmi við þær almennu reglur sem bankinn hefur sett sér,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK