Ágreiningur milli Vodafone og Tals

Ágreiningur er milli fjarskiptafélagsins Tal og Vodafone vegna reikninga. Vodafone …
Ágreiningur er milli fjarskiptafélagsins Tal og Vodafone vegna reikninga. Vodafone sagði samningi milli félaganna upp vegna vanskila en Tal segir uppsögnina ólögmæta. Heiðar Kristjánsson

Í síðustu viku gaf Tal frá sér tilkynningu þess efnis að fyrirtækið hefði fært öll heildsöluviðskipti sín yfir til Símans og þar með hætt samstarfi við Vodafone, en Tal hafði áður verið í viðskiptum við bæði félög. Tal segir í tilkynningunni að með þessu hafi félagið gert reksturinn stöðugri og hagkvæmari. Samkvæmt heimildum mbl.is er forsaga málsins sú að í september sagði Vodafone upp samningnum við Tal vegna ítrekaðra vanskila. Viktor Ólason, forstjóri Tals, staðfesti í samtali við mbl.is að uppi hefði verið ágreiningur um reikninga milli félaganna, en sagði riftun samningsins vera ólögmæta.

Ágreiningsreikningar milli félaganna

Í fyrra reyndu félögin að sameinast þegar Tal vildi kaupa 10% hlut í Vodafone með hlutabréfum í Tal. Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna félaganna á þeim forsendum að Tal væri mikilvægur samkeppnisaðili við stóru símafélögin. Viktor segir að síðan þá hafi ákveðinn kuldi verið í samskiptum þeirra.

„Ein af helstu ástæðunum fyrir því að við erum að færa okkur er ágreiningur um reikninga,“ segir Viktor, en hann tiltekur að rekstraröryggi félagsins hafi verið ógnað með þeirri stöðu. Hann segir einnig hagræðingu í því að vera með alla þjónustuna á einum stað. „Þetta er sem nemur 4 til 5% af heildarviðskiptum okkar á milli. Við lítum svo á að þetta hafi verið ólögmæt riftun, þeir hafa verið að reyna að bregða fyrir okkur fæti,“ segir Viktor.

Tal tapað 193 milljónum á 2 árum

Rekstur Tals hefur síðustu ár ekki gengið sem skyldi. Árið 2010 var tapið um 100 milljónir og á síðasta ári 93 milljónir. Viktor segir að síðan þá hafi orðið umskipti og að 6 mánaða uppgjörið lofi góðu. „Við erum búin að snúa þessari stöðu okkar í hag, þrátt fyrir niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar um lúkningartekjurnar. Þá breytum við um viðskiptamódel og Tal er tiltölulega lítið félag og getur hreyft sig hratt.“

Í skýringum með ársreikningi síðasta árs kemur fram að aðstæður félagsins gefi til kynna töluverða óvissu um rekstrarhæfi fyrirtækisins næstu 12 mánuði sem geti hugsanlega haft þær afleiðingar að félagið geti ekki selt eignir sínar og greitt skuldir við eðlileg rekstrarskilyrði. Viktor segir þetta vera almenna klausu frá endurskoðendum þegar félög eru með neikvætt eigið fé sem mörg félög séu með í dag. 

Lífeyrissjóðirnir stórir eigendur Tals

Tal er að mestu í eigu framtakssjóðsins Auður 1, sem Auður Capital rekur. Er sjóðurinn 95% hluthafi í fyrirtækinu sem það keypti árið 2010. Kaupverðið var rúmlega 500 milljónir, en auk þess lagði sjóðurinn félaginu til um 80 milljónir. Samtals kom því sjóðurinn með tæplega 600 milljónir þegar Tal var keypt. Á síðustu tveimur árum hefur tap félagsins verið um 200 milljónir og eigið fé er neikvætt um 169 milljónir. Aðspurður hvort nauðsynlegt sé fyrir eigendur að leggja félaginu til meira fé segir Viktor svo ekki vera og bendir á að mikil umskipti séu hjá félaginu og að skuldir séu ekki miklar miðað við veltu.

Um 20 fjárfestar koma að framtakssjóðnum Auði 1. Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Auði Capital, staðfesti í samtali við mbl.is að þar á meðal væru lífeyrissjóðirnir mjög stórir. Ekki er þó gefið upp hvaða lífeyrissjóðir standa á bak við sjóðinn, en eignir hans eru meðal annars Ölgerðin, Já og Securitas. Arna sagði, líkt og Viktor, að miklar breytingar hefðu orðið hjá Tali á síðustu misserum, en að sjóðurinn ætlaði sér ekki að selja hlut sinn, heldur væri horft á þetta sem langtímafjárfestingu. Sagði hún jafnframt að í stóru samhengi væru skuldir félagsins ekki miklar og að sjóðurinn hefði ekki áhyggjur af stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK