Skilur á milli í evrópskum bílaiðnaði og sala minnkar

Nýir bílar á leið gegnum framleiðslulínuna.
Nýir bílar á leið gegnum framleiðslulínuna.

Bílasala í Evrópu hrapaði í fyrra og hefur ekki verið minni í 17 ár. 8,2% færri bílar voru skráðir nýir á götuna í Evrópusambandinu í fyrra en árið 2011. Salan í desember í Evrópu dróst saman fimmtánda mánuðinn í röð og dróst saman um 16,2% miðað við desember 2011. Bílasala í álfunni hefur dregist saman um 25% frá árinu 2007 og ekkert útlit er fyrir umskipti.

Þetta ástand hefur reynst mörgum bílaframleiðendum í Evrópu þungt í skauti, en þó ekki öllum og er farið að tala um tvær stéttir í því sambandi. Annars vegar eru BMW, Daimler og Volkswagen, sem græða á tá og fingri, hins vegar keppinautar á borð við Opel, Peugeot, Ford og Fiat, sem berjast fyrir lífi sínu í Evrópu.

Verksmiðjum lokað

Verksmiðjur þeirra nýtast oft ekki nema til hálfs. Ford ætlar að loka tveimur bílaverksmiðjum í Bretlandi og einni í Belgíu, Peugeot ætlar að loka verksmiðju í grennd við París og Opel í Belgíu. Opel er í eigu General Motors, sem hefur náð sér vel á strik eftir gjaldþrot, en salan í Evrópu féll um tæp 16%.

Það er ekki lítið í húfi. Bílaiðnaðurinn í Evrópu veitir 12 milljónum manna atvinnu.

Ekki tapa þó allir. VW, Daimler og BMW vex fiskur um hrygg og selja fleiri bíla en nokkru sinni þrátt fyrir lítil viðskipti í Evrópu. Suðurkóreski bílaframleiðandinn Hyundai-Kia hefur einnig rutt sér til rúms í Evrópu. Sala bifreiða undir merkinu Hyundai jókst um 9,4% og Kia um 14,6% í Evrópu í fyrra.

Ástæðurnar fyrir ástandinu í Evrópu eru ýmsar. Syðst í álfunni hefur efnahagsástandið augljóslega sitt að segja. Í fréttaskýringu í vikublaðinu Der Spiegeler einnig bent á að Evrópubúar séu margir hrjáðir af bílaþreytu. Í þeirra augum sé bíllinn ekki lengur stöðutákn, heldur farartæki til þess að komast á milli staða og hægt að leigja eftir þörfum.

Evrópa sker sig frá

Í þessum efnum sker Evrópa sig frá flestum öðrum löndum heims. Í Kína, Indlandi, Rússlandi, Brasilíu og mörgum öðrum löndum vex eftirspurnin eftir bílum. Í fyrra voru tæplega 70 milljónir bíla seldar í heiminum, að því er kemur fram í Der Spiegel. 2020 er búist við að salan verði komin upp í 90 milljónir.

Sergio Marchionne, yfirmaður Fiat, skammar Volkswagen fyrir að valda „blóðbaði“ meðal keppinautanna með afsláttartilboðum. Hann vildi helst slá Fiat, Peugeot og Opel saman til að bjóða VW byrginn, en fær ekki undirtektir. Iðnaðarráðherra Frakklands, Arnaud Montebourg, segir að barist verði til síðasta blóðdropa um störf í bílaiðnaði.

Ráðamenn Volkswagen, sem framleiðir einkabílana Volkswagen, Audi, Porsche, Seat, Skoda, Bentley, Lamborghini og Bugatti auk þungaflutningabíla undir merkjum Man, Sacnia og Volkswagen, fara með gát og vilja síst að fyrirtækið fái orð á sig fyrir að valta yfir keppinautana. „Það versta sem getur komið fyrir þann sem nýtur velgengni er að verða hataður,“ hefur Der Spiegel eftir Martin Winterkorn, yfirmanni Volkswagen.

Þetta er ugglaust ástæðan fyrir því að Volkswagen lagði ekki inn kvörtun við Evrópusambandið þegar frönsk stjórnvöld gengust í ábyrgð fyrir sjö milljarða evra láni til Peugeot þótt ugglaust hefði mátt færa rök að því að um óleyfilega ríkisaðstoð hefði verið að ræða.

Styrkur VW

Volkswagen hefur aldrei selt fleiri bíla í heiminum en í fyrra. Fyrirtækið tilkynnti í janúar að 2012 hefði það selt 9,07 milljónir bíla og salan aukist um 11% milli ára. VW stefnir að því að fara fram úr Toyota og vera orðið helsti bílaframleiðandi heims 2018. Markmið Daimler er að verða helsti framleiðandi lúxusbíla í heiminum fyrir lok þessa áratugar. Ástæðan fyrir sterkri stöðu VW er að langt er síðan þeir komu sér fyrir á uppgangsmörkuðunum, ekki bara með sölukerfi, heldur einnig með því að flytja framleiðsluna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK