Spá mun minni hagvexti en áður

Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði 1,9% í  ár og 2,7% á því næsta í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Í síðustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, sem birt var í byrjun nóvember sl., reiknaði Hagstofan með 2,5% hagvexti í ár, 2,9% á næsta ári og 2,7% árið 2015.

Spá Seðlabanka Íslands frá því í febrúar sl. hljóðar upp á 2,1% hagvöxt í ár, en 3,7%-3,9% á næstu tveimur árum. ASÍ spáir nú 1,9% hagvexti í ár en 2,8%-3,0% á næstu tveimur árum.

Aukning einkaneyslu verður minni í ár en í fyrra og fjárfesting dregst saman um 2,3%. Á næsta ári er gert ráð fyrir að einkaneysla taki betur við sér og verði 3% en að fjárfesting aukist um 16,9%. Samneysla stendur því sem næst í stað 2013 og 2014 en eykst hægt eftir það.

Vöxtur einkaneyslu og bati á vinnumarkaði var góður á fyrri helmingi 2012, en slakari á seinni hluta 2012.  Verðbólguhorfur eru stöðugar en viðskiptakjör hafa versnað. Fjárfesting eykst á spátímanum að árinu 2013 undanskildu.

Spá 4,2% verðbólgu í ár

Verðbólguhorfur fyrir árið 2013 eru stöðugar eftir að veiking íslensku krónunnar frá síðasta hausti fór að ganga til baka í nýliðnum febrúarmánuði. Spáð er að neysluverð verði 4,2% hærra 2013 en 2012 en að verðlag 2014 hækki um 3,4%. Góður afgangur er af utanríkisviðskiptum og ferðaþjónustan er í miklum vexti. Gert er ráð fyrir því að lágt raungengi krónunnar styðji áfram við þessa þætti.

„Horfur um hagvöxt hafa versnað nokkuð frá síðustu þjóðhagsspá. Fjárfesting reyndist minni en spáð var vegna tafa í stóriðjufjárfestingum og endurmati á íbúðafjárfestingu í þjóðhagsreikningum. Á sama tíma dró úr bata á vinnumarkaði, vöxtur einkaneyslu hægðist og viðskiptakjör versnuðu.

Talið er að hagvöxtur ársins 2012 hafi verið 1,6%, einkaneysla hafi aukist um 2,7%, fjárfesting um 4,4%, en samneysla stóð nánast í stað,“ segir í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Minni launahækkanir og minna greitt út af séreignasparnaði

Einkaneysla hefur aukist um 2,5%, en á árinu verður kaupmáttaraukning minni en síðustu tvö ár, aðallega vegna minni launahækkana, minni útgreiðslu séreignasparnaðar og minni bótagreiðslna, samkvæmt spá Hagstofu Íslands.

„Þá er fjárfestingarspáin eilítið svartsýnni en áður vegna minni stóriðjuframkvæmda og fjárfesting dregst saman um 2,3%. Samneysla verður nær óbreytt árið 2013.

Til jákvæðra þátta má telja vísbendingar um styrkingu vinnumarkaðar í upphafi árs og enn meiri vöxt ferðaþjónustu að undanförnu en áður hafði verið reiknað með,“ segir enn fremur í spá Hagstofu Íslands.

Landsframleiðsla og einkaneysla aukast meira 2014 með vaxandi kaupmætti og fjárfestingu, m.a. í stóriðju. Samneysla mun standa í stað, segir í spánni.

„Eftir 2014 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan vaxi u.þ.b. 2,8% á ári, drifin áfram af einkaneyslu og fjárfestingu. Einkaneysla eykst í kringum 3% árlega út spátímann en fjárfesting verður vaxandi að undanskildu árinu 2016 en þá fer stóriðju-fjárfesting að minnka. Samneysla vex lítið 2015, en eykst hægt eftir það,“ segir í spá Hagstofu Íslands.

Gengisáhrifin mikil á verðbólguþróun hér á landi

Undanfarin misseri hafa verið kaflaskipt þar sem gengi krónunnar hefur ýmist veikst eða styrkst, að því er fram kemur í nýrri þjóðhagsspá.

„Þannig styrktist gengið síðasta sumar en veiktist mikið frá síðasta hausti fram í febrúar í ár. Verðbólguhorfur höfðu því versnað í upphafi árs en styrking krónunnar frá í febrúar hefur bætt horfur og er því spáð að verðbólga verði 4,2% að meðaltali árið 2013 sem er svipað og spáð var í nóvember.

Verðlag ársins 2014 er talið verða 3,4% hærra en árið 2013 og verðbólga hjaðnar enn árið 2014 og nálgast þá verðbólgumarkmið Seðlabankans. Efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum hafa versnað og einnig hefur verð á helstu útflutningsvörum Íslands lækkað að undanförnu. Í spánni er gert ráð fyrir að viðskiptakjör Íslands verði nokkuð lakari en fyrr var spáð,“ segir enn fremur í spá Hagstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK