Ólögleg gisting undir smásjá RSK

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. mbl.is/Kristinn

Starfsmenn ríkisskattstjóra munu fara vettvangsferðir og skoða aðila sem bjóða upp á gistiþjónustu sem ekki hefur verið greidd af skattar og önnur gjöld og telst ólögleg. Þetta segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri í samtali við mbl.is, en embættið mun einnig vinna sérstaklega að því að stemma stigum við svartri atvinnustarfsemi. Tveir til fjórir starfsmenn verða ráðnir til að framfylgja vettvangsathugunum.

Heimild til að loka starfsstöðvum

„Það var lagabreyting sem var gerð á síðasta degi þingsins sem hefur þann tilgang að stemma stigum við svartri atvinnustarfsemi. Þar er meðal annars styttur sá tími sem menn eru áætlaðir, til að hægt sé að taka þá af skrá í virðisaukaskatti. Svo var heimild fyrir ríkisskattstjóra til að loka starfsstöð þegar launagreiðandi tilkynnir ekki um starfsmenn inn á launagreiðendaskrá,“ segir Skúli. 

Hann segir að þessar heimildir eigi að gagnast til að vinna gegn svartri starfsemi en dugi ekki gegn einstaklingum sem leigja út eigin íbúðir. Skúli segir að embættið sé aftur á móti einnig að undirbúa að ráðast sérstaklega gegn þeirri ferðaþjónustu í sumar sem ekki er gefin upp til skatts og sé minni í sniðum. Á hann þar sérstaklega við ólöglega gistiþjónustu sem ekki er greiddur af skattur.

Tveir til fjórir starfsmenn í vettvangsathuganir

„Við höfum verið í átaki og förum í nýtt átak í sumar með SA og ASÍ. Þar mun reyna á aðila í ferðaþjónustu og öðrum greinum. Þar verða skattskil skoðuð og hvort staðið hafi verið skil á lögbundnum greiðslum til lífeyrissjóða,“ segir Skúli.

Segir hann að þetta eftirlit verði hert sérstaklega nú í sumar og að tveir til fjórir starfsmenn verði ráðnir til að fara í vettvangsathuganir. Skúli segir að sektir liggi við skattalagabrotum, en ef sakir séu miklar geti brot endað með ákæru frá þar til bærra yfirvöldum.

Mikið hefur verið rætt um ólöglega starfsemi í þessari grein, en í frétt mbl.is frá því síðasta haust kemur fram að um 90% þeirra sem bjóði herbergi til útleigu í heimahúsum hafi ekki leyfi og þar af leiðandi greiði litla sem enga skatta af atvinnustarfseminni.

Mikið er um ólöglega gistingu í miðbæ Reykjavíkur.
Mikið er um ólöglega gistingu í miðbæ Reykjavíkur. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK