Langri einokun á símanúmerum hætt

Nú verður loksins möguleg samkeppni á markaði um upplýsingar um …
Nú verður loksins möguleg samkeppni á markaði um upplýsingar um símanúmer landsmanna. mbl.is/Golli

Áætlaðar eru miklar breytingar til að tryggja samkeppni á markaði fyrir upplýsingar um símanúmer einstaklinga. Póst- og fjarskiptastofnun hefur í hyggju að tryggja aðgang samkeppnisaðila að áreiðanlegum upplýsingum um símanúmer sem skráð verða í framtíðinni hjá símafyrirtækjum.

Nú hefur Já einokun á markaðinum og mun þetta tryggja að mögulegt verði fyrir önnur fyrirtæki að veita sambærilega þjónustu í samkeppni við Já. Annarsvegar verður aðilum sem áhuga hafa á að fara á þennan markað tryggður aðgangur að áreiðanlegum og nauðsynlegum gögnum til að veita þjónustuna í samkeppni við Já sem og að þriggja stafa símanúmer Já, 118, verður tekið úr notkun fyrr en áætlað var, til að tryggja eðlilega samkeppni. 

Alþjónustukvöð hefur verið á Já um skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár, bæði prentaða og vefútgáfu, upplýsingaþjónustu um símanúmer og varðveislu gagnagrunns fyrir alla áskrifendur á Íslandi sem og kvöð um aðgang að þeim gagnagrunni. Síðasta atriðið var fellt úr gildi af úrskurðarnefnd Póst- og fjarskiptastofnunar en áður var mögulegt fyrir önnur fyrirtæki að kaupa uppflettingu af Já, vildu þeir veita þessa þjónustu. Það var hinsvegar dýrt og verður ekki lengur með þeim hætti. 

Miðlun ætlar sér í samkeppni við Já

„Þetta er vinna sem fór fram fyrir tíu árum hjá nágrannalöndum okkar, nú er loksins verið að tryggja samkeppnisstöðu hér á landi,“ segir Andri Árnason framkvæmdastjóri Miðlunar sem hefur barist árum saman fyrir því að geta veitt upplýsingar um símanúmer einstaklinga og þar með keppt við þjónustuna 118 sem rekin er af Já. Miðlun fagnar því niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar og telur hana mikla framför. Þá segir Andri að stofnunin sé einnig að tryggja það að allir sem vilja keppa á þessum markaði sitji við sama borð. „Nú verða allir með fjögurra stafa númer sem vilja vera á þessum markaði, númerið 118 verður tekið af Já fyrr en notkunarrétturinn segir til um.“

Miðlun rekur nú einnig mál er varðar aðgengi að upplýsingum sem skráðar hafa verið í gagnagrunn Já hjá Samkeppniseftirlitinu. „Við erum sannfærð um að Samkeppniseftirlitið úrskurði neytendum í hag og að Miðlun geti hafið samkeppni við 118 innan fárra mánaða. Þar með væri áratuga langri einokunarsögu lokið,“ segir í yfirlýsingu frá Miðlun.

Símafyrirtæki munu veita upplýsingarnar

Að sögn Björns Geirssonar, forstöðumanns Póst- og fjarskiptastofnunar, mun ábyrgðin fara á símafyrirtækin um að halda utan um grunnupplýsingar um sína viðskiptavini. „Hvert og eitt fjarskiptafyrirtæki skal vera í stakk búið að halda utan um grunnupplýsingar. Þeim hefur verið skylt að halda utan um grunnupplýsingarnar en með samningi sínum við Já hafa þau að sumu leyti yfirfært þjónustuna þangað og Já sér mikið um að breyta og uppfæra upplýsingarnar eins og t.d. þegar fólk breytir um starfsheiti. Því eru upplýsingar fjarskiptafyrirtækjanna ekki alltaf þær réttu,“ segir Björn, en nú verður breyting þar á, en símafyrirtækjunum mun þó vera heimilt að gera samning við aðila sem sér um að uppfæra upplýsingarnar en sá aðili yrði að uppfæra upplýsingar símafyrirtækisins.

„Grundvallarbreytingin felst því í því að fjarskiptafyrirtækjunum verður skylt að halda utan um sínar upplýsingar og veita þær öðrum sem áhuga hafa á að starfa á þessum markaði.“

Póst- og fjarskiptastofnun áskildi sér rétt á að afturkalla númerið 118 ef kvaðir Já yrðu breyttar. „Við erum að afnema kvaðirnar með upplýsingaþjónustu um símanúmer, rafræna símaskrá og að halda utan um gagnagrunn símanúmera. Því erum við að afturkalla númerið fyrr en ella,“ segir Björn.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK