Skapar störf á Íslandi fyrir brottflutta

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Styrmir Kári

Í könnun Samtaka atvinnulífsins, sem kynnt var í dag, kom fram að búast mætti við 17.500 nýjum störfum hjá litlum og miðlungsstórum fyrirtækjum á næstu árum. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir í samtali við mbl.is að þótt spáin sé mjög jákvæð sé hún ekki óraunhæf og að nú þurfi að gera það að verkefni vinnumarkaðarins og stjórnvalda að sjá þessar væntingar verða að veruleika. Gangi það eftir sé möguleiki á að skapa störf fyrir þá sem áður hafi flutt frá Íslandi.

Þorsteinn segir þennan mikla kraft hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum vera mjög jákvæðan. Nú þegar megi sjá mikinn gang í fyrirtækjum með 10 til 50 starfsmenn, en að væntingar örfyrirtækja, sem hafa færri en 10 starfsmenn, bendi til þess að mikill gangur komi þar í ráðningar á næstu fimm árum.

Eftirlitskerfið getur reynst minni fyrirtækjum um megn

Rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja þarf þó að batna að mati Þorsteins, en hann segir að fyrst og fremst þurfi að horfa til þess að lækka vaxtastig og þannig kostnað fjármagns fyrir lítil fyrirtæki. Þá þurfi að auðvelda aðgengi að fjármagni, en mörg fyrirtæki telja þessar tvær ástæður vera helstu hindranir minni fyrirtækja í dag.

Þá segir Þorsteinn að fara þurfi yfir það eftirlitskerfi og opinberar kröfur sem í dag séu gerðar á minni fyrirtæki. Nefnir hann sem dæmi að mörg lítil fyrirtæki hafi ekki burði til að framfylgja þeim kröfum og eftirliti sem hið opinbera fer fram á. „Það þarf að hugsa með opnum huga hvernig mæta megi sömu gæðakröfum en með minni birgði,“ segir Þorsteinn.

Vaxtastigið hér á landi of hátt

Hann segir of hátt raunvaxtastig vera hér á landi miðað við stöðu hagkerfisins, bæði fyrir núverandi rekstur fyrirtækja og til nýrra fjárfestinga. „Það er alveg ljóst að vaxtastig hér er langt umfram það sem gerist í nágrannalöndunum. Við horfum á 0,5% vexti á evrusvæðinu á móti 6% hér,“ segir Þorsteinn og bendir á að þar þurfi Seðlabankinn að grípa inn í.

Aðspurður hvort hann telji að lækkað vaxtastig muni ekki ýta undir fjárfestingar og neyslu og þannig ýta undir verðbólgu segir Þorsteinn að ekki sé sjálfvirkni í því að þokkalegur hagvöxtur leiði til hækkandi verðbólgu.

Hann segir að þrátt fyrir fjölgun starfa og aukna fjárfestingu þá sé hægt að vinna gegn því með skynsemi á vinnumarkaði og aðhaldi í ríkisfjármálum. Hann segir þessa þætti þurfa að hjálpa peningastefnunni við aðhald á markaðinn þegar vel gengur. Hins vegar hafi reynslan verið að hér á landi hafi alltaf verið farið í öfuga átt, sem ýtt hafi undir þenslu og launaskrið.

Gæti skapað möguleika fyrir brottflutta að flytja aftur heim

Fram til ársins 2020 segir Þorsteinn að nauðsynlegt sé að skapa um 25 þúsund störf til að mæta náttúrulegri fjölgun á vinnumarkaði. Með það að leiðarljósi segir hann að sú vænta fjölgun sem könnunin sýni fram á geti farið langt með að koma til móts við þessa þörf og jafnvel þurrkað upp atvinnuleysið. Þó þurfi að horfa til þess að hér þurfi einnig að skapa fleiri störf, sé ætlunin að búa til ákjósanlegt umhverfi fyrir brottflutta Íslendinga til að flytja heim aftur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK