Útboð á 25-28% hlut í N1

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1.
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1.

Með skráningu N1 fyrir lok ársins verður 25%-28% hlutur í félaginu settur í útboð. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins, segir í samtali við mbl.is að almenningi gefist kostur á að taka þátt í útboði nú í desember, en þá verður seldur 10% hlutur á verðbilinu 100 þúsund til 10 milljónir. Eggert gerir ráð fyrir að með því náist breiður eigendahópur.

„Við höldum að þetta sé mjög vænlegur hlutur fyrir stóran hóp einstaklinga. Þetta er félag sem er í tiltölulega vel skilgreindum rekstri og það átta sig allir á því hvað við gerum og í hverju reksturinn felst,“ segir Eggert. Í B hluta útboðsins verður 15%-18% hlutur boðinn út, en lágmarkshlutur verður þá 10 milljónir.

Skráning fyrir lok ársins

Fyrir utan Framtakssjóðinn og Íslandsbanka, sem eru stærstu hluthafar félagsins, eru lífeyrissjóðirnir í öllum efstu sætum eigendalistans. Aðspurður hvort hann geri ráð fyrir að lífeyrissjóðir verði áfram stórir eigendur eða hvort aðrir stórir fjárfestar sýni fyrirtækinu áhuga segist hann ekki geta spáð fyrir um það. Hann geri þó áfram ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir eigi góðan hlut í félaginu.

Kynningarfundir fyrir fjárfesta verða haldnir í lok nóvember og byrjun desember, en í byrjun desember verður einnig haldinn stór opinn fundur fyrir almenning. Eggert segir að skráningin muni fara fram fyrir lok árs, en að ekki sé enn komin lokadagsetning á það.

Annar ársfjórðungur slæmur, en sá þriðji góður

Eggert segir að þriðji ársfjórðungur hafi komið vel út, en að árið í heild væri enn undir væntingum. „Annar ársfjórðungur var okkur erfiður, sérstaklega apríl. Þá fengum við mjög vonda þróun olíuverðs og gengis sem gaf okkur nokkuð högg. Við töluðum um það þegar við kynntum annan ársfjórðunginn að þetta væru nokkuð sérstakar aðstæður og ég held að það sjáist núna á þriðja ársfjórðunginum. Hann er betri en var í fyrra.“

Eggerts segist búast við að hagnaður félagsins fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði verði á bilinu 2,2 til 2,3 milljarðar þegar ekki sé tekið tillit til einskiptikostnaðar vegna sölunnar á Bílanausti og skráningar á markað. „Við sjáum ekki annað en að það markmið muni nást þegar við gerum árið upp,“ segir hann.

Á árshlutauppgjörsfundi í dag kom fram að handbært fé félagsins hefði aukist um tæpa tvo milljarða frá sama tíma í fyrra. Að sama skapi hefðu skuldir lækkað nokkuð. Eggert segir að þrátt fyrir betri stöðu hafi engar sérstakar fjárfestingar verið tilkynntar. „Það er ljóst að dreifikerfið okkar er fjárfestingafrekt, en það eru engar sérstakar fjárfestingar sem liggja fyrir,“ segir hann.

Kauptilboð í húsnæði Bílanausts

N1 keypti nýtt vöruhús í fyrra að Klettagörðum í Reykjavík. Stuttu seinna var það selt til eignarhaldsfélags, en er áfram í leigu olíufélagsins. Um leið losaði N1 sig við tvö önnur lagerhúsnæði upp á Ártúnshöfða. Aðspurður hvort fleiri sölur séu í vændum segir Eggert að komið sé staðfest kauptilboð í eign félagsins að Bíldshöfða, þar sem Bílanaust er til húsa. Sagði hann að nokkrir fyrirvarar væru á tilboðinu og að unnið væri í málinu. Hann gat aftur á móti ekki gefið upp hvort verðmæti tilboðsins yrði gefið upp fyrir skráningu. Að öðru leiti sagði hann að ekki væri áform uppi um frekari sölu að svo stöddu.

Greiða allavega 50% hagnaðar í arð

Á stjórnarfundi félagsins, sem einnig var haldinn í dag, samþykkti stjórnin að horft verði til þess að arðgreiðslur til lengri tíma litið verði allavega 50% af hagnaði. Eggert segir að stjórn muni beina þessu til aðalfundar þegar ársreikningur liggur fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK