Rafrænir gjaldmiðlar slá í gegn

Rafræni gjaldmiðillinn Bitcoin er nú á allra vörum en ekki er ýkja langt síðan aðeins örfáir tækninördar og spákaupmenn könnuðust við gjaldmiðilinn. Hróður hans hefur aukist mjög á undanförnum mánuðum og eru æ fleiri fyrirtæki sem sjá sér hag í því að taka við honum. Fyrsti hraðbankinn fyrir Bitcoin var settur upp í Vancouver í Kanada í októbermánuði í fyrra og þá herma heimildir að stórfyrirtæki á borð við Apple og Google séu að gaumgæfa gjaldmiðilinn og þau tækifæri sem í honum felast.

Gengi Bitcoin hefur verið afar sveiflukennt en þó á uppleið frá ársbyrjun 2013. Þá kostaði eitt Bitcoin um þrettán Bandaríkjadali. Hæst fór gengið í rúma 1.200 Bandaríkjadali í byrjun desembermánaðar í fyrra en nú er það í kringum 550 dali. Það hríðféll í seinustu viku eftir að Mt. Gox-kauphöllin lokaði fyrir öll viðskipti með gjaldmiðilinn. Hér má fylgjast með gengisþróuninni.

Bað viðskiptavini sína afsökunar

Mark Karpeles, eigandi Mt. Gox, sem var um tíma ein stærsta kauphöllin fyrir Bitcoin, hefur óskað eftir því að félagið hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið hefur tapað næstum hálfum milljarði Bandaríkjdala vegna „tæknilegra örðugleika“, eins og hann orðaði það á blaðamannafundi í Tókyó, höfuðborg Japans, í gær.

„Við höfum tapað Bitcoin vegna veikleika í kerfinu. Okkur þykir það mjög leitt,“ sagði hann.

Hann sagði sig jafnframt úr stjórn Bitcoin-Foundation, sjálfseignarstofnunar sem sér til þess að gjaldmiðillinn fylgi upphaflegri forskrift sinni.

Lögfræðingur félagsins sagði að 750 þúsundum Bitcoins í eigu viðskiptavina hefði verið stolið og 100 þúsundum Bitcoins í eigu félagsins sjálfs. Allt í allt er það metið á 477 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir 53,8 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Gætu gripið til aðgerða

Fyrr í vikunni hætti vefurinn allri starfsemi og lokaði á öll viðskipti með Bitcoin. Erfiðleikarnir leiddu til mikils gengisfalls gjaldmiðilsins og vöktu jafnframt ýmsar spurningar um öryggi hans. Á sínum tíma fóru 80% af öllum viðskiptum með Bitcoin í gegnum kauphöllina en skuggi féll fljótt á frægðarsól hennar. 

Taro Aso, fjármálaráðherra Japans, sagði í kjölfarið að japönsk stjórnvöld gætu hugsanlega gripið til aðgerða til að stemma stigu við frekari útbreiðslu miðilsins. „Ég hef alltaf talið að slíkir gjaldmiðlar [rafrænir gjaldmiðlar] myndu ekki endast lengi,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir honum. „Ég tel að þeir muni einhvern tímann hrynja í verði.“ 

Hann sagði jafnframt að lögreglan væri nú að rannsaka afdrif Mt. Gox-kauphallarinnar. „Við munum vinna hratt úr málinu. Þetta er ekki gjaldmiðill sem allir kannast við,“ sagði hann.

Ekki auðvelt að hafa eftirlit með Bitcoin 

Janet Yellen, nýr bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, sagði í vikunni að seðlabankinn hefði engin völd til að hafa eftirlit með Bitcoin eða stýra honum. „Það er ekki auðvelt að setja reglur um gjaldmiðilinn því hann er einkum notaður utan bankakerfisins og það er enginn miðlægur aðili á bak við hann eins og hjá venjulegum pappírsgjaldmiðlum,“ sagði hún, að því er fram kemur í frétt AFP.

Hún benti þó á að bandaríska þingið gæti samið lög sem myndu ná utan um Bitcoin.

Fyrsta verslunin í heiminum sem selur Bitcoin var opnuð í Hong Kong í gærmorgun. Vonir framkvæmdastjórans, Kens Lo, standa til þess að búðin muni auka vinsældir rafrænna gjaldmiðla í Asíu. „Það er enginn skortur á eftirspurn,“ sagði hann við AFP. „Það sem við viljum gera er einfaldlega að gera fólki kleift að eignast Bitcoin á auðveldan hátt,“ bætti hann við. 

Hann gerði lítið úr vandræðum Mt. Gox og benti á að það væri aðeins „lítið mál“ í stóra samhenginu.

Seint á síðasta ári meinaði Seðlabanki Kína bönkum að veita þjónustu og selja vörur sem tengjast gjaldmiðlinum. Kommúnistaríkið Víetnam hefur að sama skapi bannað bönkum að nota gjaldmiðilinn en stjórnvöld þar í landi segja að Bitcoin sé ekki lögmætur gjaldmiðill.

En hvað er Bitcoin?

Bitcoin lýtur ekki miðstýrðri stjórn. Hann er óháður afskiptum stjórnmálamanna, sem geta ekki haft áhrif á gengi hans, heldur ræðst það eftir framboði og eftirspurn á frjálsum markaði. Enginn seðlabanki er á bak við myntina, viðskipti með hana eru án opinbers eftirlits og skiptir gjaldmiðillinn aðeins um hendur rafrænt, svo nokkur dæmi séu tekin.

Bitcoin var fyrst kynnt til sögunnar árið 2009 af einstaklingi eða hópi fólks sem notaði dulnefnið Satoshi Nakamoto. Það er algerlega á huldu hver - eða hverjir - Nakamoto er en markmið höfundarins var að koma á gjaldmiðli sem væri bæði ódýrt og einfalt að nota og væri heldur ekki stjórnað miðlægt af til dæmis seðlabanka. 

Til að byggja upp verðmæti gjaldmiðils þarf að vera fyrir hendi eftirspurn og eign á bak við hann. Það vandamál var leyst með því að gera notendum kleift að leysa erfið dulkóðunarvandamál og fá að launum ákveðið magn myntar. Þetta kallast að stunda námugröft og krefst öflugs tæknibúnaðar og ódýrrar orku. Með þessum hætti fjölgar Bitcoinunum smátt og smátt, eftir því sem þau eru unnin úr dulkóðanum, en nær hámarki í 21 milljón Bitcoin.

Lýtur miklu eftirliti 

Margir sem lýst hafa efasemdum sínum yfir rafræna gjaldmiðlinum benda á að ekkert regluverk sé til staðar um notkun Bitcoin og að viðskipti séu stunduð án opinbers eftirlits. Í viðtali við viðskiptablað Morgunblaðsins í sumar sagði Sveinn Valfells, eðlisfræðingur og mikill áhugamaður um gjaldmiðilinn, að Bitcoin lyti í raun miklu eftirliti sem væri meira en margir seðlabankar þyrftu að lúta. 

„Bitcoin-fyrirtæki þurfa náttúrlega að uppfylla helstu lög sem varða viðskiptin, til dæmis lög um peningaþvætti, neytendavernd og persónuvernd. Rekjanleiki er betri en með viðskipti í reiðufé, færsluskráin er opin þó að notendanöfn séu dulkóðuð. Hvað útgáfuna varðar geta allir haft eftirlit með myntinni. Um er að ræða dreifðan hugbúnað sem er opinn og læsilegur öllum og má því segja að þúsundir ef ekki tugþúsundir manna um allan heim hafi eftirlit með myntinni og fylgist með því að hún fylgi upphaflegri forskrift. 

Það mætti ímynda sér seðlabanka sem væri gert að starfa eftir fyrirframákveðnum reglum og hafa opið og gagnsætt bókhald gagnvart öllum sem nota og eiga gjaldmiðilinn. Þannig er Bitcoin,“ sagði hann meðal annars.

Rafmyntir líta dagsins ljós

Nokkur fjöldi aukamynta sem byggjast á svipuðum grunni og Bitcoin hafa litið dagsins ljós á undanförnum misserum. Vert er að nefna rafmyntina auroracoin en eins og mbl.is hefur greint frá munu allir Íslendingar fá gefins hluti af heildarfjármagni hennar von bráðar. 

Forsvarsmaður nýju myntarinnar, sem hefur ekki enn komið fram undir nafni, hefur sagt að stefnt sé að því að 50% af heildarupphæð gjaldmiðilsins verði úthlutað til allra Íslendinga. Það nemur 31,8 einingum á hvern einstakling sem er eldri en átján ára. Veltan með gjaldmiðilinn hefur aukist gríðarlega að undanförnu sem og sjálft gengið. 

Hinn 18. febrúar síðastliðinn var sagt frá því að miðað við marksvirði miðilsins þann dag væri ljóst að verðmæti hvers hlutar sem hver og einn Íslendingur fengi úthlutaðan væri um 9.500 krónur. Miðað við gengi auroracoin í gærkvöldi er ljóst að verðmæti hvers hlutar er komið upp í rúmar 63 þúsund krónur. Þó ber að taka það fram að gengið er mjög sveiflukennt og breytist afar reglulega, en hefur hins vegar hækkað ört upp á síðkastið.  

Er miðillinn þriðji verðmætasti rafmiðill í heiminum ef marka má upptalningu Coin Market Cap.

Peningasvindl og brot á lögum? 

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur hins vegar gagnrýnt auroracoin og sagt að ýmislegt bendi til þess að hér sé um að ræða peningasvindl og brot á lögum. „Auroracoin verður varla meira en ólögleg jaðarmynt hér á landi – en ef almenningur lætur blekkjast til að nota Auroracoin í verulegum mæli gæti það dugað til að skapa mikinn gróða fyrir forsprakkana,“ segir hann í pistli á vefsíðu sinni.

Þá hefur Seðlabanki Íslands sagt að óheimilt sé að eiga gjaldeyrisviðskipti með Bitcoin samkvæmt íslenskum lögum um gjaldeyrismál. Í skriflegu svari bankans við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að í lögum um gjaldeyrismál sé kveðið á um almennar takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum milli landa. 

„Ekki verður séð að ákvæði laganna sem undanþiggja vöru- og þjónustuviðskipti frá áðurnefndum takmörkunum eigi við um viðskipti með Bitcoin eða að aðrar undanþágur frá takmörkunum laganna eigi við um slík viðskipti,“ segir í svari Seðlabankans. 

„Þetta er afkimastarfsemi sem er viðurkennd innan takmarkaðs hóps,“ sagði Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri hjá Seðlabankanum, í samtali við mbl.is um umfang viðskipta með rafræna gjaldmiðla hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK