Jón dró framboð sitt til baka

Jón Sigurðsson, einn eigenda GAMMA og fyrrverandi forstjóri FL Group.
Jón Sigurðsson, einn eigenda GAMMA og fyrrverandi forstjóri FL Group. mbl.is/Rax

Jón Sigurðsson, einn eigenda fjármálafyrirtækisins GAMMA og fyrrverandi forstjóri FL Group, dró framboð sitt til stjórnar N1 til baka. Hann segir að ástæðan sé sú að Kauphöllin hafi tilkynnt félaginu á þriðjudaginn að hún hefði efasemdir um hæfi Jóns til að gegna stjórnarstörfum í skráðu félagi.

Í opnu bréfi til stjórnarformanns N1 segir hann að í bréfi Kauphallarinnar hafi jafnframt komið fram að verði hann kjörinn muni Kauphöllin íhuga ráðstafanir til að koma þessum efasemdum sínum á framfæri við markaðsila, eða eftir atvikum, setja bréf félagsins á athugunarlista.

„Í ljósi þessa, og með hagsmuni N1 að leiðarljósi, hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka,“ segir hann í bréfinu.

Hann segist ekki vera sáttur við afstöðu og framgöngu Kauphallarinnar í málinu. Það sé mat hans og lögmanna hans að Kauphöllin hafi hvorki lagalega né samningsbundna heimild til að beita sér á þann hátt sem hún hefur nú gert gagnvart félaginu og honum.

Í bréfinu kemur fram að athugasemdir Kauphallarinnar snúi einkum að þremur áminningum sem hún hafi veitt FL Group/Stoðum á þeim tíma þegar Jón var forstjóri félagsins.

Tvær áminningar fjölluðu um skráningu nýrra hluta í félaginu í kjölfar hlutafjárhækkunar sem fór fram í desembermánuði árið 2007. Þá fjallaði ein athugasemdin um hvenær upplýsingaskylda hefði orðið virk gagnvart markaði vegna sölu félagsins á eignarhlutum í bankanum Commerzbank í janúarmánuði 2008.

Ágreiningur milli FL Group og Kauphallarinnar

„Það liggur fyrir að ágreiningur var um það milli FL Group/Stoða og Kauphallarinnar á sínum tíma hvort félagið hefði gerst brotlegt við reglur Kauphallarinnar vegna framangreindra mála.

Um fyrri málin tvö áttu sér stað umfangsmikil bréfaskipti milli Kauphallarinnar og félagsins þar sem skoðanaskipti fóru fram um hvort reglur Kauphallarinnar hefðu verið brotnar. Félagið mótmælti því að svo hefði verið og taldi sig hafa farið að lögum og reglum, en Kauphöllin tók athugasemdir félagsins ekki til greina. Engin eftirmál urðu vegna þessara mála af hálfu opinberra eftirlitsaðila,“ segir hann.

Jón segir að síðasta tilvikið hafi varðað birtingu ársreiknings vegna ársins 2008, sem Kauphöllin taldi að hefði verið of sein. „Óvissan var slík hjá félaginu á fyrri hluta árs 2009 að það var einfaldlega ógerlegt að birta ársreikning fyrir lok apríl árið 2009, eins og reglur kauphallarinnar gerðu ráð fyrir,“ segir hann.

Jón segist hafa komið þessum sjónarmiðum á framfæri við Kauphöllina en hún hafi hins vegar neitað að taka þau til skoðunar þar sem málið snúi eingöngu að samskiptum hennar og N1. „Sú afstaða vekur furðu þar sem málið varðar mína persónu,“ segir hann.

Margrét áfram stjórnarformaður

Ný stjórn N1 var kjörin á aðalfundi félagsins í gær. Hana skipa Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður, Helgi Magnússon, varaformaður stjórnar, Guðmundur Arnar Óskarsson og Kristín Guðmundsdóttir.

Varastjórnarmenn eru Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, og Kristján Ágústsson, starfsmaður Framtakssjóðs Íslands.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir jafnframt að ný stjórn muni taka ákvörðun um hvernig brugðist verði við afturköllun framboðs Jóns á næsta stjórnarfundi.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK