Róbert Melax úrskurðaður gjaldþrota

Róbert Melax, fjárfestir og athafnarmaður hefur verið úrskurðaður gjaldþrota.
Róbert Melax, fjárfestir og athafnarmaður hefur verið úrskurðaður gjaldþrota.

Fjárfestirinn, Róbert Melax,  einn stofnenda Lyfju, hefur verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í dag.

Róbert átti um tíma stóran hlut í Íslandsbanka og sat um leið í stjórn bankans. Þá átti hann hlut í Saga fjárfestingabanka, átti Jarðafélagið Yztafell ehf og kom að Hanza hópnum svokallaða, sem byggði upp stórt fjölbýlishús í Akrahverfinu í Garðabæ.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er um verulega háar upphæðir að ræða, en skiptafundur hefur verið boðaður í september.

Róbert kom einnig að öðrum fasteignaverkefnum og var stór hluthafi í City Center Properties félaginu sem keypti átta stórar fasteignir í Osló og Bergen í Noregi. Í tilkynningu með þeim kaupum kom fram að félagið væri orðið eitt af 20 stærstu fasteignafyrirtækjum Noregs.

Róbert efnaðist vel á Lyfju, en apótekið var upphaflega stofnað árið 1996. Ásamt Róberti var Ingi Guðjónsson á bak við það, en Lyfja sameinaðist Lyfjabúðunum ehf árið 2000. Þær voru í eigu Jóhannesar Jónssonar í Bónus, Guðmundu Reykjalín viðskiptafræðings og þriggja lyfjafræðinga. Árið 2004 seldi Róbert allan hlut sinn til Haga, sem urðu í framhaldinu eigendur alls fyrirtækisins.

Um tíma var hann einnig aðaleigandi og stjórnarformaður Dags Group, en félagið átti meðal annars BT, Skífuna og Senu. Árið 2000 greiddi hann hæstu opinberu gjöld í Reykjanesumdæmi, eða rúma 21 milljón króna.

Róbert virðist hafa tapað töluverðum eignum í hruninu. Meðal annars var fasteignafélagið Hanza-hópurinn tekinn til gjaldþrotaskipta eftir að hafa verið eigandi að stórum verkefnum á Arnarneshæð í Garðabæ.

Róbert hefur undanfarin ár verið búsettur erlendis, en lögheimili hans er skráð í Afríku. Á síðasta ári óskaði hann eftir því að kaupa Ljósvetningabúð í Þingeyjarsveit, en hann hugðist byggja þar upp einhverskonar ferðaþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK