Úthlutunarmál WOW aftur í hérað

Skrifstofur WOW air.
Skrifstofur WOW air. mbl.is/Rósa Braga

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli WOW Air vegna úthlutunar afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli og lagt fyrir dóminn að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá dómi máli flugfélagsins gegn Isavia, Icelandair og Samkeppniseftirlitinu vegna vanreifunar. WOW air hafði krafist þess að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 27. febrúar yrðu felldir úr gildi.

WOW hafði beint erindi til Samkeppniseftirlitsins og kvartað yfir fyrirkomulagi Isavia við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli vegna flugs til Bandaríkjanna árið 2014 og lauk Samkeppniseftirlitið málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með ákvörðun, þar sem tilgreindum fyrirmælum var beint til Isvaia þess efnis að WOW yrði gert kleift að hefja flug til Bandaríkjanna í samkeppni við aðra flugrekendur.

Isavia og Icelandair skutu hvor fyrir sitt leyti þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi ákvörðunina úr gildi með tveimur úrskurðum sínum.

Með hinum kærða úrskurði var máli WOW sem fyrr greinir vísað frá dómi með skírskotun til þess að málatilbúnaður WOW uppfyllti ekki áskilnaði 25. gr. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Fyrir Hæstarétti höfðu Isavia og Icelandair meðal annars uppi kröfur um frávísun málsins frá héraðsdómi sem studdar voru margvíslegum rökum. Bar Icelandair því meðal annars við að þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði fellt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi væri Samkeppniseftirlitið ekki réttur aðili til að beina kröfum að um ógildingu úrskurðarins, heldur bæri réttarfarslega nauðsyn til aðildar áfrýjunarnefndarinnar að málinu.
Hæstiréttur hafnaði því með vísan til þess að áfrýjunarnefndin gegndi hlutverki úrskurðarnefndar á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar og hefði ekki þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn málsins sem leitt gætu til aðildar hennar að því.

Þá byggðu Isavia og Icelandair á því að ekki væru uppfyllt skilyrði 18. gr. laga nr. 91/1991 til að stefna þeim saman í máli til ógildingar ákvarðana áfrýjunarnefndar samkeppnismála, né heldur skilyrði 19. gr. sömu laga til að sækja þá saman í málinu, auk þess sem WOW hefði ekki verið aðili að málunum fyrir áfrýjunarnefndinni og gæti því ekki átt aðild að dómsmáli til ógildingar úrskurða nefndarinnar.

Hæstiréttur vísaði til þess að í dómaframkvæmd réttarins hefði verið litið svo á að óhjákvæmilegt væri að beina kröfu um ógildingu úrskurðar æðra stjórnvalds að þeim sem átt hefðu aðild að máli á málskotsstigi, enda ættu þeir verulegra, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Þar sem svo hagaði til um Isavia og Icelandair yrði málinu ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að þeim væri stefnt saman til að þola dóm í málinu.

Þá taldi rétturinn einnig að virtri dómaframkvæmd sinni að ekki væri fortakslaust skilyrði samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005 að sá, sem höfðaði mál til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, þyrfti að hafa átt aðild að málinu fyrir henni.

Loks hélt Isavia því fram að málatilbúnaður WOW væri í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en Hæstiréttur hafnaði því með skírskotun til þess að þótt lýsing málsatvika í stefnu væri ekki að öllu leyti svo skýr sem skyldi væri samhengi þeirra við málsástæður WOW eigi að síður nægjanlega ljóst og fullnægði áskilnaði laga nr. 91/1991.

Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Frétt mbl.is: WOW air kærir frávísun til Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK