Erfiðast að halda sér á jörðinni

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain vanilla.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain vanilla. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Plain vanilla er á meðal þeirra fyrirtækja landsins sem er að stækka hraðast  og hefur starfsmönnum þar fjölgað um tvo á viku síðan leikurinn QuizUp kom út í nóvember á síðasta ári. Fyrirtækið er að stórum hluta í eigu erlendra fjárfesta, en þrátt fyrir það segir stofnandi þess, Þorsteinn Baldur Friðriksson, að fyrirtækið eigi heima á Íslandi. Hann horfir yfir farinn veg, það sem tókst og það sem auðvelt er að gagnrýna í baksýnisspeglinum. Hann segir að erfiðasta verkefnið hingað til hafi verið að halda sér á jörðinni í gegnum allar breytingarnar. Í viðtali við mbl.is ræðir Þorsteinn um drauminn að verða leikari, stofnun tveggja fyrirtækja, ævintýralegan uppgang Plain Vanilla og áform um að fara á One direction tónleika.

22 milljón notendur

Flestir tölvuleikir sem koma út fyrir snjallsíma og spjaldtölvur og ná einhverjum vinsældum taka út mestan hlut vaxtarins á fyrstu vikunum eða jafnvel fyrstu dögunum. Eftir það er oft mikið fall niður og fljótlega er leikurinn dottinn út af helstu vinsældarlistum. QuizUp leikurinn virðist aftur á móti hafa komist nokkuð ágætlega í gegnum þetta ferli, en í dag er heildarfjöldi spilenda leiksins orðinn um 22 milljónir og um 60-70 þúsund notendur bætast við daglega.

Leikurinn kom fyrst út fyrir iOs kerfi Apple, en fyrr á þessu ári bættist Android stýrikerfið við. Þorsteinn segir að í dag séu nýskráningar nokkuð jafnar milli stýrikerfanna og að hlutfall Android hækki stöðugt.

Leikjagrunnur frekar en leikur

Þorsteinn segir helstu ástæðu þess að leikurinn haldi svona vel velli vera þá að hann sé í raun ekki bara leikur heldur leikjagrunnur þar sem nýju efni er alltaf bætt við. Þannig hafi spurningar í grunninum þrefaldast frá útgáfu og hægt er að keppa í mun fleiri málefnum en áður. Þetta bjóði fólki upp á möguleikanna að tengjast í gegnum sérhæfðari áhugasvið en áður, en samfélagshluti QuizUp er það sem Þorsteinn sér sem einn helsta vaxtarbrodd þess.

Upp á síðkastið hafa bæst við nokkur tungumál í leiknum og þá er verið að skoða að bæta við fleiri stýrikerfum, eins og fyrir Windows phone. Þetta hefur gefið fólki tækifæri á að spila í rauntíma við annað fólk allsstaðar í heiminum, óháð tungumáli, stýrikerfi eða staðsetningu. Þannig getur einstaklingur í Brasilíu spilað leikinn á portúgölsku við annan aðila í Bandaríkjunum á ensku.

Breytingar á næstunni

Á næstunni er horft til frekari breytinga. „Það eru spennandi hlutir sem verða kynntir vonandi sem fyrst og verða algjörlega nýir,“ segir hann. Þetta helgast meðal annars af því að ekki var hægt að sjá öll vandamál fram í tímann.  „Þegar við gáfum upp leikinn upphaflega var mikið af ákvörðunum ekki teknar mjög vísindalega. Margt sem við hefðum gert öðruvísi eftir á að hyggja.“ Þannig segist hann meðal annars sjá fyrir sér breytingar á stigatöflum. „Stór hluti í stækkunaráformum okkar var að fólk vildi verða hátt sett í sinni borg, fylki eða landi. Þetta er ekki hægt lengur, því ef nýr notandi kemur inn byrjar hann kannski í 10.000.000 sæti,“ segir Þorsteinn. Hann segir þó að breytingarnar verði gerðar í sátt við þá sem hafi spilað lengi og unnið sér inn mikið af stigum. „Mesta breytingin verður samt hjá samfélagshlutanum,“ bætir hann við og segir það munu koma í ljós.

Kynntust í gegnum QuizUp

Upphaflega hugmyndin með leiknum var að sögn Þorsteins að tengja saman fólk með sömu áhugamál, jafnvel þótt um mjög þröngt áhugasvið væri að ræða. Hann segir að besta dæmið um þetta hafi komið í ljós nýlega þegar kona í Bandaríkjunum sendi þeim bréf og þakkaði leiknum fyrir að hún hafi hitt lífsförunaut sinn eftir að hafa spilað við hann í leiknum. Þau eru trúlofuð og skiluðu þau persónulegu þakklæti til Þorsteins og QuizUp teymisins.

Það er frítt að sækja og spila leikinn og reglulega koma upp efasemdir um verðmæti fyrirtækisins miðað við takmarkaðar tekjur. Þorsteinn segir reyndar að nú þegar séu töluverðar tekjur farnar að streyma inn í gegnum auglýsendur sem kaupa ákveðna málaflokka, t.d. Coca Cola sem auglýsir í heimsmeistaramóts spurningaleiknum. Þorsteinn segir að þetta sé vaxandi markaður og þá horfi fyrirtækið líka til þess að fara út í vörusölu, ekki ósvipað því sem Angry birds leikurinn hafi gert. Nú þegar sé merkið orðið nokkuð þekkt í Bandaríkjunum og víðar og þannig sé hægt að selja hluti sem tengist því.

Erfitt að halda sér á jörðinni

Í gegnum alla þessa uppbyggingu segir Þorsteinn að eitt erfiðasta verkefnið hafi verið að halda sér á jörðinni. „Bæði breytingar á fyrirtækinu og á mínu lífi hafa verið svo örar að það er alveg ákveðin áskorun að halda fókus og fara ekki í einhverja vitleysu,“ segir hann. Það sem helst spili þar inn í sé það mikla áreiti sem verði með vinsældum í Bandaríkjunum. Þá skiptir að hans sögn öllu máli að missa ekki fókusinn, enda sé það slæmt í markaðsumhverfi þar sem þúsundir fyrirtækja séu í sama rekstri og samkeppnin gífurleg. „Það er alltaf möguleiki á að svona breytingar stígi manni til höfuðs og að fólk fari í endalausar veislur og ferðalög,“ segir hann og bætir við: „Það er pínu áskorun, þegar maður er nýbúinn að vera í þeirri stöðu að þurfa að vera á hnjánum og biðja um pening og fjármagn þegar að hlutverkin snúist svona hratt við.“

Leiklistarreynslan verið ómetanleg

Þorsteinn er uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur, en ættaður frá Vestfjörðum og bjó í nokkur ár á Ísafirði. Hann fór í Melaskóla, seinna Hagaskóla og fór þaðan í Menntaskólann í Reykjavík. Á menntaskólaárunum fékk hann leiklistarbakteríuna og segist jafnvel hafa stefnt á leiklistarnám í einhvern tíma. Þannig hafi hann t.d. verið í aðalhlutverki í uppfærslu Herranætur, leikfélags skólans og langað að leika meira seinna.

„Sú reynsla hefur verið mér fullkomlega ómetanleg,“ segir Þorsteinn um leiklistina, en hann telur hana hafa spilað stóra rullu í góðu gengi við að sækja fjármagn erlendis. „Ég fer alltaf í ákveðið hlutverk, ég er ekki ég heldur Thor Fridriksson, sem er pínu þreytandi manneskja því hann er svo rosalega ýktur,“ segir hann og hlær. En öll umgjörðin kringum leiklistina hefur líka hjálpað og segist hann gera öndunaræfingar fyrir stóra fundi. Með þessum leik hafi hann náð að vera sannfærandi, en hann segir það nauðsynlegt þegar komi að kynningum á verkefnum í Bandaríkjunum.

Stofnaði Hive og var markaðsstjóri BT

Eftir menntaskólann fór Þorsteinn að vinna hjá BT og varð fljótlega markaðsstjóri þar. Tveimur árum seinna fór hann í viðskiptafræði í HR og vann svo í smá tíma hjá Vodafone. Honum gafst svo tækifæri til að vera með í að stofna netþjónustufyrirtækið Hive með nokkrum öðrum, sem og hann gerði. Þremur árum síðar var fyrirtækið selt, en Þorsteinn tók þá að starfa sem fjölmiðlamaður hjá RÚV áður en hann flutti til Englands og fór í MBA nám við Oxford.

„Sá tími opnaði augu mín algjörlega og fékk mig til að vilja stofna fyrirtæki sem væri ekki bara á íslandi heldur á alþjóðlegum vettvangi,“ segir hann. Þegar hann kom heim var öll byltingin með smartsíma og spjaldtölvur að eiga sér stað og þá ákvað hann að stofna fyrirtækið Plain vanilla. Hann safnaði saman nokkrum einstaklingum til að vinna að leiknum Moogies, sem gekk að lokum mjög illa. Þorsteinn segir að það hafi munað mjög litlu að hann hætti þá, en að lokum tók hann nýtt skref og hóf framleiðslu á QuizUp.

Ævintýrið sem fylgir þekkja flestir, en Þorsteinn fór ásamt tveimur forriturum til Kísildals í Bandaríkjunum þar sem þeir eyddu þremur mánuðum og fór hann á fundi með fjölda fjárfestingasjóða og stórlaxa í tæknigeiranum. Að lokum skilaði það því að nokkrir sjóðir settu 1,2 milljón dala í fyrirtækið og hann gat ráðið fleiri starfsmenn á Íslandi.

Á leið á One direction tónleika

Ljóst er að öll uppbyggingin hefur tekið mikið af tíma Þorsteins undanfarin tvö ár, en hann var t.a.m. að kynna nýjar tungumálaútgáfur í síðustu viku í Suður-Ameríku. Aðspurður hvort hann hafi tíma fyrir einhver áhugamál segir Þorsteinn að stutta svarið sé nei. Hann segist hafa gaman að ýmsu, en að það sé enginn tími í það. „Ég reyni í staðinn að eyða mínum frítíma með börnunum, ég er ekki í sambandi, en hef börnin mín. Reyni að gera þann tíma sem eftirminnilegastan,“ segir hann.

Þorsteinn á tvö börn, Ingunni, 9 ára og Gunnar Friðrik, 5 ára. Um helgina ætlaði hann einmitt að láta langþráðan draum dótturinnar rætast, en þau ætla saman á One direction tónleika í París. „Ég ætla ekki að vinna neitt heldur njóta Harry og hinna gulldrengjanna,“ segir hann, þrátt fyrir að stjórnarfundur fyrirtækisins sé haldinn í næstu viku.

Ætla að vera áfram á Íslandi

Oft hefur verið rætt um að erfitt sé fyrir frumkvöðla- og tæknifyrirtæki að byggja sig upp á Íslandi. Aðspurður um stöðuna hér á landi og hvort horft sé til þess að flytja starfsemina segir Þorsteinn að gott sé að byggja upp fyrirtæki hér.  „Munum alls ekki flytja, QuizUp verður á Íslandi,“ segir hann, en á sínum tíma ráðlögðu erlendir aðilar þeim að flytja því það væri algjör vitleysa að vera á Íslandi. Hann segist aftur á móti sjá fullt af kostum.

„Ísland er heppið að vera með mikið af hæfileikaríku fólki,“ segir hann, en tekur fram að auðvitað sé ekki djúpt á því og mikil eftirspurn geti breytt markaðinum frekar hratt. Hann segir þó skort á tæknimenntuðu starfsfólki ekki vera bara vandamál hér. Plain vanilla búi þó að því að vera vinsæll og þekktur vinnustaður í dag og að fólk sæki mikið um þær stöður sem verði til. „Það væri mun erfiðara fyrir fyrirtækið að vera t.d. í Kísildal þar sem samkeppnin er við Google, Microsoft og Apple,“ segir hann.

Nýflutt á Laugaveg 77

Fyrirtækið flutti nýlega á Laugaveg 77 þar sem Landsbankinn var áður til húsa. Fyrirtækið er með hluta af þriðju hæðinni, næstum alla fjórðu hæðina og alla fimmtu hæðina. Á efstu hæð  verður helmingur hæðarinnar notaður sem kaffihús, samverustaður og með allskonar skemmtilegum græjum.

Sitja enn á talsverðum sjóði

Plain vanilla vakti mikla athygli seint á síðasta ári þegar tilkynnt var um 22 milljóna dala fjármögnun (2,5 milljarða króna) frá þekktum fjárfestingasjóðum í Bandaríkjunum. Þar á undan var fyrirtækið búið að safna um 6 milljónum dala og því samanlagt í tæplega 30 milljónum dala. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvernig félagið standi í dag eftir allan þróunarkostnaðinn meðan tekjur eru enn að koma inn í takmörkuðum mæli. „Við erum talsvert langt frá því að klára það [innsk. blaðam. fjármagnið],“ segir Þorsteinn og tekur fram að þeir sitji á talsverðum sjóði til að keyra áfram á. Það muni koma að góðum notum ef farið verði í hraða stækkun aftur á komandi misserum, sem hann gerir ráð fyrir.

Þorsteinn var sjálfur eini stofnandi fyrirtækisins en í gegnum hlutafjáraukningar hefur hans hlutur minnkað töluvert. Hann segir þó að þetta sé töluvert ólíkt því sem gerist hér heima, en í Bandaríkjunum sé mikil hefð fyrir áhættufjárfestingum og segir hann að sjóðir sem fjárfesti í svona verkefnum vilji t.d. að stofnendur eigi alltaf góðan hlut áfram í fyrirtækjunum. Þótt hann vilji ekki gefa nákvæman hlut sinn í Plain Vanilla játar hann því að hlutur sinn sé á bilinu 10-25%.

Gott að að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi

Plain Vanilla er eitt af þeim sprotafyrirtækjum sem hafa skotist hratt upp stjörnuhimininn í öllu því mikla starfi sem unnið hefur verið með frumkvöðlafyrirtæki hér á landi. Þorsteinn segir að sögur um árangur séu alltaf mikilvægar í þessu sambandi og vonar hann að saga þeirra muni hjálpa öðrum fyrirtækjum að taka af skarið.

Á ráðstefnum og málþingum um nýsköpunarmál hefur þó mikið verið rætt um þær hindranir sem standi íslenskum sprotafyrirtækjum fyrir dyrum. Þorsteinn er ekki alveg sammála þessu og segir að þrátt fyrir höft og margskonar hindranir sé gott að stofna fyrirtæki á Íslandi og vera með starfsemi hér.  „Stundum skipta ýmis stuðningsverkefni og gjaldeyrishöft máli og það þarf að laga það á margan hátt, en ef þetta er góð og kraftmikil hugmynd þá er þetta ekki stærsta hindrunin í að ná árangri,“ segir hann og bendir á að í Bandaríkjunum þekkist t.d. ekki styrkjaumhverfi. Þá dregur hann úr meintum erfiðleikum fyrirtækja að starfa með Seðlabankanum í haftaumhverfi. Seðlabankinn er ekki skrímsli, það gengur alveg að ræða við hann og auðvitað eru allir í á endanum að vinna að sömu markmiðum,“ segir Þorsteinn.

Fyrirtækið er nýlega flutt á Laugaveg 77.
Fyrirtækið er nýlega flutt á Laugaveg 77. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Á efstu hæðinni er unnið að nýju skrifstofurými og stóru …
Á efstu hæðinni er unnið að nýju skrifstofurými og stóru kaffihúsi og afþreyingaaðstöðu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Þorsteinn segir að unnið sé að stórum breytingum á leiknum …
Þorsteinn segir að unnið sé að stórum breytingum á leiknum sem komi út á árinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Spurningaleikurinn QuizUp hefur notið mikilla vinsælda.
Spurningaleikurinn QuizUp hefur notið mikilla vinsælda. mynd/Plain Vanilla
Árið 2012 gaf Plain Vanilla út leikinn Moogies, en hann …
Árið 2012 gaf Plain Vanilla út leikinn Moogies, en hann gekk heldur illa og var Þorsteinn við það að hætta ævintýrinu þá. Hann ákvað þó að halda áfram og QuizUp fæddist. Mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK