Vinna að undirbúningi stjórnsýslunnar

Ragnheiður Elín Árnadóttir fundaði með Tord André Lien, orku- og …
Ragnheiður Elín Árnadóttir fundaði með Tord André Lien, orku- og olíumálaráðherra Noregs. Mynd/Atvinnuvegaráðuneytið

„Þessi sýning er annar tveggja stærstu viðburða í þessum geira í heiminum og þarna gafst færi á að hitta mjög marga aðila og kynna sér það helsta sem þarna er að gerast,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem um helgina heimsótti olíuráðstefnuna ONS í Stavangri í Noregi. 

Á ráðstefnunni fluttu margir helstu áhrifamenn í olíuiðnaðinum erindi og Ragnheiður fundaði svo meðal annars með orku- og olíumálaráðherra Noregs, Tord André Lien. 

„Norðmennirnir hafa veitt okkur ómetanlega aðstoð við undirbúning stjórnsýslunnar. Við erum svolítið að taka upp þeirra kerfi og þeir eru mjög áhugasamir um að leggja okkur lið. Svo eru þeir náttúrulega aðilar að þessum þremur leyfum sem hafa verið veitt. Þeir ákváðu að taka þátt í þeim öllum samkvæmt heimild í samningi frá árinu 1981 um svæðið,“ segir Ragnheiður. 

Leit hefst sennilega á næsta ári

Á síðasta degi þingsins í vor lagði Ragnheiður fram frumvarp um heimild til stofnunar ríkisolíufélags til kynningar. Hún ætlar svo að leggja frumvarpið aftur fram í haust. „Fyrirtækið yrði að norskri fyrirmynd. Ekki er um vinnslufyrirtæki að ræða heldur að fyrirmynd Petoro sem sér um leyfisveitingar og ýmsa umsýslu í þessum málaflokki í Noregi.

Við hittum fulltrúa Petoro og fleiri stofnana sem eru að vinna að þessum málum í norsku stjórnsýslunni og var mjög gagnlegt að hitta þetta fólk augliti til auglits og sjá hversu ríkur samstarfsvilji er til þessa verkefnis af þeirra hálfu,“ segir Ragnheiður. 

Þrjú leyfi til olíuleitar og vinnslu voru veitt í janúar á þessu ári. Ragnheiður býst við því að endurvarpsmælingar hefjist á næsta ári og að leyfishafar hafi sagt að um 4-6 ár séu þar til hægt verði að bora eftir olíu, sé hana að finna á svæðinu. 

„Við höfum því tímann fyrir okkur í þessum undirbúningi hvað stjórnsýsluna varðar og þetta frumvarp sem ég legg fram er heimildarlög. Við stofnum ekki fyrirtæki þar til við erum búin að sjá hvernig þessi mál þróast. 

En það er mikilvægt að við séum tilbúin. Þetta er nýtt fyrir okkur og hér þurfum við að læra. Með okkur á ráðstefnunni voru fulltrúar frá ráðuneytinu og frá orkustofnun. Þeir eru í góðu samstarfi við erlendu stofnanirnar, og hafa fulltrúar þaðan farið í nokkrar vikur í læri hjá norskum kollegum sínum. Þessi undirbúningur er því allur í farvegi.“

Skiptar skoðanir á framtíð olíunnar

Á ráðstefnunni lýstu sumir yfir áhyggjum yfir minnkandi fjárfestingu í olíuiðnaðinum í Noregi. Ragnheiður segir menn hafa verið misbjartsýna. „Einhverjir höfðu ákveðnar áhyggjur af ástandinu og sögðu að það þurfi að auka fjárfestingar. En hvað sem fólki finnst um olíu og gas samanborið við endurnýtanlega orku, þá gera allar spár ráð fyrir því að við verðum áfram með þennan orkugjafa til áratuga þannig að það er mikilvægt að halda áfram fjárfestingu í þessum iðnaði.“ 

„Í stóra samhenginu er gas til að mynda mun betri orkugjafi en kol að mörgu leyti. Það væri því gott að geta byrjað á því að fasa út kolin sem orkugjafa.“

Ragnheiður segir erindin á ráðstefnunni hafa verið mörg en að eitt hafi staðið upp úr, og hafi það ekki verið erindi sérfræðings í olíugeiranum. „Erindi Elon Musk, stofnanda Tesla var frábært. Það var mikið fjallað um mikilvægi nýsköpunar og samvinnu á ráðstefnunni og hélt Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, líka frábært erindi um það. 

Umhverfis- og öryggismálin ekki síst mikilvæg

Ragnheiður segir ráðuneytið leggja mikla áherslu á öryggis- og umhverfismál, og hafi það ekki síst verið tilefni heimsóknarinnar.

„Við lítum til Norðmanna þegar kemur að umhverfismálum og hvernig þeim hefur tekist að vinna olíuna með sem allra minnstu raski á umhverfi. Þeir fara eftir ströngustu alþjóðlegu reglunum á því sviði.

Þetta á einnig við þegar kemur sem kemur að öryggismálum. Norðmenn eru með sérstaka stofnun í því, Petroleumstilsynet (PTIL). Fulltrúar þeirra komu meðal annars hingað í vor og héldu fyrirlestur fyrir þær stofnanir hér á landi sem koma að ferlinu og við viljum taka upp svipaða löggjöf þar sem hún gerir mestu kröfurnar og stenst strangasta samanburðinn,“ segir Ragnheiður að lokum. 

Mynd/Øyvind Hagen
Frá undirritun leyfisveitingar til olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu.
Frá undirritun leyfisveitingar til olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu. mbl.is/Styrmir Kári
Mynd af Drekasvæðinu sem var kortlagt í fyrra.
Mynd af Drekasvæðinu sem var kortlagt í fyrra. Mynd/Hafrannsóknarstofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK