Uppselt nánast hvert kvöld alla daga ársins

Moulin Rouge c
Moulin Rouge c AFP

Rauða myllan í París - eða Moulin Rouge - fagnar 125 ára afmæli á morgun en staðurinn er einn frægasti kabarettstaður heimsins. Moulin Rouge var byggð árið 1889 af Joseph Oller sem fyrir átti annan kabarettstað í París, Paris Olympia. Staðurinn er í 18. hverfinu nálægt Montmartre. 

Kreppur og aðrar efnahagsþrengingar virðast snerta staðinn lítt því það er nánast alltaf uppselt á sýningar kvöldsins, alla daga ársins. Alls heimsækja um 600 þúsund gestir skemmtistaðinn heim á ári en starfsmennirnir eru 450 talsins. Veltan er um 65 milljónir evra á ári.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir níu árum kom fram að can can-dans fáklæddra dansmeyja staðarins hafi haft mesta aðdráttaraflið. Dansinn einkenndist af ögrandi hreyfingum, háum spörkum og vísvitandi glefsum í undirföt dansara, þótti það oft vera hápunktur sýningar þegar dansari dró upp pilsið sitt svo rétt glitti í undirföt hennar eða þegar dansari sparkaði höttum af karlkynsgestum staðarins, veitandi þeim nánast óhindrað útsýni á undirfatnað þeirra.

 Can can-dansinn á rætur að rekja til 1830 en vinsældir hans stórjukust á byrjunarárum Moulin Rouge þegar ung stúlka sem kölluð var La Goulue var fengin sem aðaldansari staðarins. La Goulue, sem í raun hét Louise Weber, fæddist árið 1866 í Norðaustur-Frakklandi en fluttist síðar meir til Parísar þar sem móðir hennar rak þvottahús. Fyrir þessa ungu fátæku stúlku, sem elskaði að dansa, var aðalskemmtunin að fá „lánuð dýr föt í fatahreinsuninni og þykjast vera stórstjarna á leiksviði“.

Þegar hún var orðin sextán lét hún drauminn loksins rætast, tók nokkra kjóla í "langtímaleigu" á þvottahúsinu og strauk að heiman til að dansa í danssölum Parísar. Hún öðlaðist fljótlega vinsældir fyrir hæfileika sína og ögrandi og gáskafulla framkomu. Til að mynda átti hún það til að taka glös af borðum gesta og drekka í botn við miklar vinsældir gesta.

Jacques Renaudin, vínsali í París, tók Weber undir sinn verndarvæng og hófu þau að dansa saman í Moulin Rouge. Stuttu síðar hætti Renaudin og Weber var ráðin sem aðaldansatriði Moulin Rouge og varð gríðarlega þekkt í París sem nokkurs konar tákn can can-dansins. Tekjur hennar voru gríðarlegar og staða hennar í félagslífi Parísar í hæstu hæðum. Myndlistarmaðurinn Henri de Toulouse-Lautrec gerði hana ódauðlega þegar hún varð hans aðalviðfangsefni um hríð.

Henri de Toulouse-Lautrec fæddist í Albi í Suður-Frakklandi árið 1864, sonur franskra aristókrata sem höfðu misst virðingu sína í samfélagi hefðarfólks. Tólf ára gamall fótbraut Toulouse-Lautrec sig á vinstri fæti og fjórtán ára gamall brotnaði hann á hægri fæti. Erfðagalli kom í veg fyrir að bein hans greru almennilega og stækkuðu fætur hans vart meir. Hann varð einungis 1,50 metrar á hæð, búkurinn var þó í eðlilegri stærð en fæturnir voru agnarsmáir. Þessi líkamlega fötlun gerði honum erfitt um vik að stunda eðlileg störf og helgaði hann sig því algerlega myndlistinni. Hann varð mikilvægur fyrir póstimpressjón- svo og art nouveau-listastefnurnar þegar hann skrásetti bóhemískan lífsstíl Moulin Rouge hvort heldur var í málverki, teikningu eða steinþrykki. Hann var kallaður „sál Montemartre-hverfisins“ þar sem Moulin Rouge, hóruhús og fleiri kabarettar voru. Eins og áður segir málaði hann oft Louise Weber og fleiri danskonur, gerði þær að lifandi goðsögnum í fjölbreyttu mannlífi Parísar rétt fyrir aldamótin 1900.

Þrátt fyrir gott gengi og ótrúlegan árangur Weber og Toulouse-Lautrec hlutu þau sorgleg örlög. Toulouse-Lautrec sýktist af sýfilis sem rakið er til stöðugra heimsókna hans á hóruhús. Hann kenndi myndlist en áfengissýkin sökkti honum neðar og neðar áður en hann lagðist inn á heilsuhæli skömmu fyrir dauða sinn árið 1901.

Louise Weber lagði nær allt sitt fé í að sviðsetja can can-kabarett sinn um allt land en sýningarnar gengu illa. Hörðustu aðdáendur hennar tóku þessum breytingum illa og brátt varð hún nærri gjaldþrota. Hún hvarf af opinberu sjónarsviði, þjáðist af miklu þunglyndi og áfengissýki. Síðast sást til hennar á götuhorni nálægt Moulin Rouge að selja hnetur og sígarettur, án þess þó að nokkur þekkt hana vegna offitu. Hún lést 1929 við mikla örbirgð.

Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Jean-Jacques Clerico, eigandi og afkomadi stofnanda Moulin Rouge sést hér …
Jean-Jacques Clerico, eigandi og afkomadi stofnanda Moulin Rouge sést hér með dönsurum í síðustu viku. AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Moulin Rouge
Moulin Rouge AFP
Jean-Jacques Clerico, eigandi Moulin Rouge
Jean-Jacques Clerico, eigandi Moulin Rouge AFP
Jean-Jacques Clerico
Jean-Jacques Clerico AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK