Ekki verður beðið eftir slitabúum

Slitabúin fara aftast í röðina komi þau ekki með raunhæfar …
Slitabúin fara aftast í röðina komi þau ekki með raunhæfar tillögur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Óraunhæfar hugmyndir slitabúa föllnu bankanna um undanþágu fyrir útgreiðslu til almennra kröfuhafa framhjá höftum verða ekki látnar standa í vegi fyrir því að brátt verði stigin skref til að losa um höft á íslensk fyrirtæki, lífeyrissjóði og heimili.

Ekki verður fallist á tillögur frá kröfuhöfum sem fela í sér að raungengi krónunnar þurfi að lækka og ganga ennfremur í berhögg við það grundvallaratriði að jafnræði allra sé tryggt undir höftum.

Þetta kom fram í ræðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á ráðstefnu til heiðurs Jónasi H. Haralz, hagfræðingi og fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Landsbankans í fyrradag, en um hana er fjallað í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.

Ræða Bjarna, sem bar heitið Fyrstu skrefin til afnáms hafta, markar tímamót. Þar gaf hann í fyrsta skipti til kynna þau þjóðhagslegu skilyrði sem þarf að hafa til hliðsjónar við veitingu undanþágna frá höftum.

Bjarni nefndi í ræðunni að „allir sem áhuga hafa á þessu máli og hafa reynt að skilja það til botns“ átti sig á því að einn vandasamasti þáttur þess sé að búa svo um hnútana að eftir afnám hafta muni gengi krónunnar endurspegla raunhagkerfið. „Þannig þarf greiðslujöfnuður að taka tillit til raungengismarkmiða.“

Ráðstafað til innlendra aðila

Með öðrum orðum mun íslenskt efnahagslíf ekki taka á sig meiri aðlögun en það hefur nú þegar gert. „Meginatriði í mínum huga er að við höfum þegar tekið út þá erfiðu en nauðsynlegu aðlögun sem efnahagslífið – heimilin og fyrirtækið – þurftu að fara í gegnum. [...] Raungengið lækkaði verulega og við þekkjum öll afleiðingarnar,“ sagði Bjarni, og bætti við: „Því segi ég: Við höfum þegar tekið á okkur verulegan skell og lausn á haftamálum þarf að taka mið af því.“ Ekki skipti aðeins máli í þeim efnum að þær lausnir séu efnahagslega raunhæfar heldur þurfi þær einnig að „uppfylla sanngjarnar samfélagslegar væntingar um að ekki sé von á nýrri kollsteypu“

Aðlögun íslenska þjóðarbúsins á síðustu árum – gríðarlegur samdráttur í fjárfestingu og innlendri eftirspurn samtímis þungri endurgreiðslubyrði erlendra lána – á sér nánast engin fordæmi hjá öðru ríki í kjölfar fjármálakreppu.

Á árunum 2009 til 2013 nam uppsafnaður undirliggjandi viðskiptaafgangur Íslands 380 milljörðum. Slíkur viðskiptaafgangur er fordæmalaus í hagsögu Íslands. Hefur þetta gerst í umhverfi þar sem innflutningur hefur verið í lágmarki og raungengið haldist 20-30% undir sögulegu meðaltali. Þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður tókst Seðlabankanum ekki að byggja upp neinn óskuldsettan gjaldeyrisforða að ráði. Rann gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins að mestu til afborgana og vaxtagreiðslna slitabúa föllnu bankanna.

Ljóst er að tillögur stjórnvalda að losun hafta taka mið af þessu. Ekki verði gengið lengra í að ráðstafa afgangi á viðskipajöfnuði einungis til erlendra kröfuhafa. Þess í stað verði gjaldeyrissköpunin nýtt til að skapa svigrúm til erlendra fjárfestinga innlendra aðila – sem hafa verið fastir undir höftum í sex ár.

Undanþágur og jafnræði

Bjarni sagðist gera þá kröfu að mikilvægum spurningum varðandi næstu skref yrði svarað á þessu ári. Þær lúta meðal annars að því hvort hægt sé að leysa málefni slitabúanna án beinnar aðkomu stjórnvalda. Ítrekaði hann að heildstæð lausn þyrfti að fást. „Um leið og þjóðarhagsmunir verða lagðir til grundvallar þarf að sama skapi [...] að virða lög, alþjóðlegar skuldbindingar og tryggja jafnræði.“

Þar horfa stjórnvöld til þess, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að ekki sé forsvaranlegt að veita undanþágur til erlendra kröfuhafa nema að því gefnu að hægt yrði að veita sambærilegar undanþágur fyrir aðra í hagkerfinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK