Nóbelsverðlaunin í hagfræði til Frakklands

Jean Tirole
Jean Tirole AFP

Franski hagfræðingurinn Jean Tirole hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár fyrir kenningar sínar um samkeppnismál og eftirlit á markaði. 

Tirole, sem er 61 árs, starfar sem prófessor í Toulouse. Með kenningum sínum hefur hann haft mikil áhrif á regluverk hins opinbera meðal annars varðandi einokun og yfirráð stórra fyrirtækja á mörkuðum.

Bókmenntaverðlaun Nóbels fóru einnig til Frakklands í ár en þau hlaut Patrick Modiano í síðustu viku.

Á ferli sínum hefur Jean Tirole lagt áherslu á leikjafræði og samhengið á milli fyrirtækja og markaða. Nóbelsverðlaunanefndin bar mikið lof á störf Tirole og segir hann einn áhrifamesta hagfræðing vorra tíma, einkum greiningu hans á stórfyrirtækjum, valdi markaðarins og regluverksins.

Samkvæmt AFP-fréttastofunni hefur lengi verið rætt um prófessorinn, sem starfar við hagfræðiháskólann í Toulouse (TSE), sem mögulegan nóbelsverðlaunahafa í hagfræði en flestir þeirra sem hafa hlotið þann heiður eru bandarískir.

Tirole segir að verlaunin komi sér á óvart en hann sé mjög sáttur við að hljóta þau. Hann segist ekki hafa átt von á þessu en sé kannski ekki dómbær á eigin ágæti.

Tirole fæddist í Troyes 9. ágúst 1953. Hann nam verkfræði og stærðfræði í París og lauk doktorsnámi við  Massachusetts Institute of Technology þar sem hann var prófessor í átta ár. Hann hefur ritað ellefu bækur, þar á meðal um kenningar sínar á áhrifum markaðarins á fyrirtæki. Tirole er vel þekktur innan hagfræðinnar en hann er heiðursdoktor við sjö háskóla víðsvegar um heiminn. Hann hefur fengið ótal viðurkenningar fyrir störf sín en kenningar hans hafa markað tímamót varðandi stöðu fyrirtækja í samkeppnisumhverfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK