Andy Warhol og giftingarhringir

Costco opnar í Kauptúni á næsta ári.
Costco opnar í Kauptúni á næsta ári.

Staðfest hefur verið að Costco opnar í Kauptúni 3 í Garðabæ á næsta ári. Verslunin er nokkurs konar blanda af búð og heildsölu og þurfa viðskiptavinir að vera í viðskiptaklúbb Costco til þess að fá að versla en aðild að honum kostar um sex til tíu þúsund krónur á ári í Bandaríkjunum.

Þá eru vörurnar yfirleitt í stærri pakkningum og þykir verslunin því henta sérstaklega vel fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Op­in­ber stefna fé­lags­ins er að hafa einungis 14 prósent álag á vörur.

Verslunin verður um 12 þúsund fermetrar að stærð og í þeim hluta Kauptúnsins sem nær frá versluninni Tekk og að Bón­us. Húsnæðið keypti Costco af bræðrunum Sig­urði Gísla og Jóni Pálma­sonum.

Stjórnað frá Bretlandi

Verslun Costco sem opnar á íslandi er á vegum breska Costco, sem er dótt­ur­fé­lag Costco Who­les­ale Corporati­on og nefn­ist Costco Who­les­ale United Kingdom Ltd. Vöru­úr­valið í breskum og bandarískum vöruhúsum Costco er með svipuðum hætti þótt evr­ópsk­ar vör­ur séu einnig í því breska. Ljóst er að úrvalið er í það minnsta fjölbreytt þar sem hægt er að festa kaup á allt frá giftingarhringum og ósviknum málverkum frá frægum listamönnum á borð við Andy Warhol að hversdagslegum matvælum.

Einn stærsti söluaðili áfengis

Fé­lagið rek­ur í dag um 670 vöru­hús í Banda­ríkj­un­um, Kan­ada, Mexí­kó, Bretlandi, Spáni, Kór­eu, Jap­an, Taív­an og Ástr­al­íu og er einnig einn stærsti söluaðili áfeng­is í heim­in­um, bæði í smá­sölu og heild­sölu.

Forsvarsmenn verslunarinnar skiluðu inn umsögn um áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar, er leggur til frjálsa sölu áfengis í matvöruverslunum. Í umsögninni segir að einkaaðilar eigi að sjá um sölu áfengis, en það sé hlutverk stjórnvalda að setja reglur þar um. Þá segir einnig að fé­lagið sé einn stærsti inn­flytj­andi franskra vína til Banda­ríkj­anna og hafi því nú þegar komið á viðskipta­sam­bönd­um sem gætu leitt til nýbreytni og aukið úr­val létt­vína sem og annarra áfengis­teg­unda.

Fjölorkustöð í Kauptún?

Fyrirtækið hefur þá einnig kannað hvort það gæti fengið und­anþágur fyr­ir inn­flutn­ingi á kjöti frá Banda­ríkj­un­um og hefur Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagt að ekki standi til að breyta lögum fyrir eitt fyrirtæki. Unn­ur Brá Kon­ráðsdótt­ir, formaður alls­herj­ar­nefnd­ar, hefur þá tekið í sama streng og Ragn­heiður, en þó bætt við að hún væri til í að sjá breyt­ing­ar á fyrr­nefnd­um regl­um fyr­ir öll fyr­ir­tæki.

Costco er þá jafnan með svokallaðar fjölorkustöðvar við vöruhúsin þar sem bensín, rafmagn og metan er selt. Ekki er búið að skila inn teikningum að stöðinni til bæjarins en Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hefur áður staðfest að viðræður um efnið hafi átt sér stað. Ekki náðist hins vegar í hann við vinnslu fréttarinnar og er því ekki ljóst hvar málið er statt í dag.

Störf skapast

Verslun Costco verður um 12 þúsund fermetrar að stærð og er því ljóst að nokkur fjöldi starfa mun skapast með komu fyrirtækisins til landsins. Costco hefur almennt verið talið góður vinnustaður þegar kem­ur að versl­un­um í Banda­ríkj­un­um og eru t.a.m. flest­ir starfs­menn sjúkra­tryggðir þar, öf­ugt við t.d. Walmart og fleiri versl­un­ar­keðjur. Sem dæmi eru lág­marks­laun hjá Costco um 11 Banda­ríkja­dal­ir á klukku­stund í Banda­ríkj­un­um, en al­menn lág­marks­laun í land­inu eru 7,25 dalir. Þá kom það einnig fram í könnun atvinnumiðlunarinnar Glassdoor ánægðustu starfsmennirnir, er störfuðu á sviði verslunar og þjónustu, störfuðu hjá Costco.

Fjölorkustöðvar eru jafnan við vöruhús Costco.
Fjölorkustöðvar eru jafnan við vöruhús Costco. AFP
Costco er einn stærsti söluaðili áfengis í heiminum í dag.
Costco er einn stærsti söluaðili áfengis í heiminum í dag. Skjáskot af heimasíðu Costco
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK