Spá 4¼% hagvexti í ár

Raftæki hafa verið rifin út að undanförnu þannig að búast …
Raftæki hafa verið rifin út að undanförnu þannig að búast má við aukinni einkaneyslu. mbl.is/Óskarsson

Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði um 4¼% í ár samkvæmt nýbirtri spá Seðlabanka Íalands. Bankinn spáði því í nóvember að hagvöxturinn í ár næmi 3½%. Bankinn hefur lækkað hagvaxtarspá síða fyrir síðasta ár en fyrri spá hljóðaði upp á 2,9% hagvöxt.

Hagvöxtur var 0,5% á fyrstu þremur fjórðungum ársins í fyrra eða um 1 prósentu minni en spáð hafði verið í nóvember, að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í morgun. Matið á hagvexti ársins hefur því verið endurskoðað og er nú gert ráð fyrir 2% hagvexti á árinu í stað 2,9% í nóvember.

„Hins vegar er ekki útilokað að þetta reynist vanmat þegar gleggri upplýsingar liggja fyrir. Vísbendingar um meiri kraft í einkaneyslu hafa áður verið nefndar. Þessu til viðbótar benda t.d. upplýsingar frá byggingaraðilum til þess að umsvif í byggingariðnaði séu meiri en lesa má út úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar og mikill innflutningur á neysluvörum gæti bent til þess að birgðaaukning í innlendri smásölu sé vanmetin,“ segir í Peningamálum.

Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa lítið breyst: heldur hægir á hagvexti þegar dregur úr eftirspurnaráhrifum skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda og hægir á vexti fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Spáð er 2¾% hagvexti á hvoru ári fyrir sig. Burðarás hagvaxtarins verður sem fyrr innlend eftirspurn, einkum einkaaðila, sem talið er að vaxi um liðlega 4% á ári að meðaltali. Gangi spáin eftir verður hagvöxtur að meðaltali um 3% á ári á spátímanum sem er lítillega yfir meðalhagvexti síðustu þrjátíu ára og vel yfir spáðum meðalhagvexti í helstu viðskiptalöndum.

Minni einkaneysla í fyrra en spáð var

Hvað varðar hagvöxt og hagvaxtarspá fyrir síðasta ár hefur komið í ljós að einkaneysla var veikari en spáð var en fjárfesting jókst einnig minna en gert var ráð fyrir.

„Bráðabirgðamat Hagstofunnar á vexti einkaneyslu nam 0,7% frá fyrra ári á fjórðungnum sem virðist í litlu samræmi við vísbendingar á borð við greiðslukortaveltu og innflutning neysluvöru sem alla jafna gefa nokkuð góða mynd af þróun einkaneyslunnar.

Svipaða sögu má segja um fjárfestingu íbúðarhúsnæðis en tölur Hagstofunnar um 4,5% ársvöxt hennar á fjórðungnum komu á óvart í ljósi leiðandi vísbendinga og upplýsinga frá aðilum á byggingamarkaði. Þessi frávik skýra stóran hluta skekkjunnar í spánni fyrir hagvöxt á tímabilinu. Á móti þessu vó að þróun utanríkisviðskipta var heldur hagfelldari en spáð var,“ segir í Peningamálum.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar jókst einkaneyslan um 2,8% á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs. Vísbendingar um þróun einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi gefa til kynna að bætt hafi í vöxtinn á fjórðungnum og hún hafi vaxið um 3½% á árinu í heild sem er töluvert meiri vöxtur en árið 2013 en um ½ prósentu minni en spáð var í nóvember.

Horfur eru einnig á heldur minni vexti í ár en hann er samt sem áður kröftugur og verður drifinn áfram af vaxandi kaupmætti ráðstöfunartekna, bættri eiginfjárstöðu heimila og skuldalækkunaraðgerðum stjórnvalda.

Heldur hægir á vexti einkaneyslu á næsta ári og er því spáð að hún aukist um u.þ.b. 3% á ári á næstu tveimur árum sem er svipað og í nóvemberspá Seðlabankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK