Kyndir undir flótta fyrirtækja

Almar segir að fjárfesting hér á landi hafi ekki enn …
Almar segir að fjárfesting hér á landi hafi ekki enn náð sér á strik. mbl.is/Ómar

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að hár vaxtamunur á milli Íslands og nágrannaríkja okkar kyndi undir flótta fyrirtækja frá landinu. Mörg þeirra sjái sér hag í því að fara í lágvaxtaumhverfi og byggja upp starfsemi sína í auknum mæli þar.

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti sína um 0,5 prósentur í gær og eru því vextir á sjö daga bundnum innlánum 5,5%. Í samanburði við helstu viðskiptalönd Íslands eru stýrivextir hér með því hsæta sem gerist en Samtök iðnaðarins benda á að vextir hér á landi séu um 4-6% hærri en í nágrannalöndum okkar.

„Nú eru Seðlabankinn og stjórnvöld að velta fyrir sér leiðum til þess að passa upp á að erlendir fjárfestar nýti sér ekki þennan vaxtamun um of, sem er bara hið besta mál. Ég geri enga athugasemd við það,“ segir Almar í samtali við mbl.is.

„Sárgrætilegt“

Hins vegar sé aðeins verið að bregðast við afleiðingum hás vaxtamunar öðrum megin í jöfnunni. „Menn eru minna að velta fyrir sér hinu, sem eru fyrirtækin sem eru í alþjóðlegri starfsemi eða sprotafyrirtæki sem hyggja á útflutning. Þessi fyrirtæki fara, ef þau geta á annað borð, frekar í lágvaxtaumhverfi og byggja upp sína starfsemi þar með meiri hætti en áður. Þau fara kannski ekki alveg, en aukinn hluti starfseminnar færist úr landi,“ segir hann.

Hann bendir einnig á að fjölmörg íslensk fyrirtæki sem sinni ráðgjafaverkefnum eða verktöku erlendis fjármagni sig í gegnum íslenska bankakerfið og á íslenskum vöxtum, meðal annars vegna gjaldeyrishaftanna. Það þýði að samkeppnisumhverfi þeirra sé „mjög slæmt.

Þau byrja þá samkeppnina á því að þurfa að þola hærri vexti en keppinauturinn erlendis, óháð öðru. Það er auðvitað dýrt. Það er auðvitað eðlilegt að menn hugsi um afleiðingar þess að hér komi skammtímafjárfestar í stórum stíl og nýti sér vaxtamuninn. En þá finnst okkur sárgrætilegt að það sé ekki einnig hugsað um hinar afleiðingarnar, sem eru þær að þetta langvarandi vaxtamunarumhvrefi veldur því að tiltrúin á staðsetninguna Ísland verður minni,“ segir hann.

Fjárfesting ekki náð sér á strik

Hann segir að fullur skilningur sé á því að verkefni Seðlabankans sé að bregðast við því sem hann kallar innlenda eftirspurn. „Við getum ekki deilt um það per se. En hins vegar hlýtur að vera samhengi í umræðunni hvaða afleiðingar ákvarðanir þeirra hafa“

Bankinn sé nú að bregðast við vaxandi einkaneyslu, en á sama tíma hafi fjárfesting, sem er annar hluti innlendrar eftirspurnar, ekki náð sér á strik. „Það er alvarlegt mál. Seðlabankinn bregst við innlendri eftirspurn, en hann spyr ekkert sérstaklega hvort um sé að ræða einkaneyslu eða fjárfestingu. Tækin hans eru hins vegar þannig framsett að þau bitna miklu meira og fyrr á fjárfestingu heldur en neyslu. Vextir eru auðvitað grundvallarþáttur í öllum fjárfestingum og fari þeir hækkandi, þá minnkar það líkurnar á því að menn fjárfesti.

Seðlabankinn hefur ekkert endilega áhrif á erlenda ferðamanninn sem heldur áfram að fara út í búð og kaupa það sem hann vantar, að „neyta“ á Íslandi.“

Ekki endilega ýtt út í verðlagið

Að mati Almars kemur ákvörðun Seðlabankans ekki á óvart. Hann tekur aftur á móti fram að það sé sannarlega ekki sjálfgefið að launahækkunum í nýjum kjarasamningum verði ýtt út í verðlagið. Eins séu ýmsir óvissuþættir til staðar, svo sem olíuverð, sem gæti virkað til lækkunar á verðlagi, en ekki hækkunar.

Síðan eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif viðskiptabann Rússlands hafi á efnahaginn. Jafnan séu það ekki heppileg viðbrögð að hækka vexti og ýta undir styrkingu á gengi krónunnar á sama tíma og mikilvægar útflutningsgreinar eigi erfitt uppdráttar. Ekki megi heldur gleyma því að hærri vextir hækka kostnað fyrirtækja sem aftur geti leitt út í verðlagið.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK