Fallið heldur áfram

Fallið hefur haldið áfram á flestum hlutabréfamörkuðum í Asíu í dag og í Sjanghaí hefur hlutabréfavísitalan lækkað meira á síðustu fjórum viðskiptadögum en undanfarin tuttugu ár. Tugþúsundir milljarða króna gufuðu upp á hlutabréfamörkuðum í gær.

Í Tókýó lækkaði Nikkei hlutabréfavísitalan um tæp 4% og stendur vísitalan í 17.806,70 stigum. Það er lægsta gildi hennar síðan um miðjan febrúar.

Í Sjanghaí nemur lækkunin í dag 7,63% en Hang Seng vísitalan í Hong Kong hefur hins vegar aðeins lækkað lítillega miðað við fallið í gær.

En það eru ekki bara hlutabréf sem hafa lækkað í verði því Bandaríkjadalur hefur ekki verið jafn veikur gagnvart jeni í sjö mánuði og heimsmarkaðsverð á olíu fór niður fyrir 40 Bandaríkjadali tunnan í New York í gærkvöldi. Er það í fyrsta skipti í sex ár sem lokaverð dagsins er undir 40 dölum á hráolíumarkaði í New York.

Búist er við að ríkisstjórn Xi Jinpings forseta bregðist við þessum miklu lækkunum á mörkuðum í Kína með vaxtalækkun. Jafnframt spá margir fjármálasérfræðingar því að dælt verði miklu fé inn í hagkerfið til að reyna þannig að hindra frekara verðfall næstu daga.

Margir hafa selt hlutabréf og keypt bandarísk ríkisskuldabréf. „Þetta er spurning um traust og þegar menn treysta ekki lengur ýta þeir á hnappinn selja,“ sagði Chris Weston, markaðssérfræðingur í Melbourne.

Mjög hefur dregið úr hagvexti í Kína síðustu mánuði, opinberlega er hann þó sagður verða um 7% á árinu. Stjórnvöld í Peking eru sökuð um að hafa ýtt undir verðbréfabólu.

Bætt við klukkan 7:15

Þegar viðskipti hófust í kauphöllum Evrópu klukkan 7 í morgun að íslenskum tíma hækkuðu helstu vísitölur álfunnar. Í Lundúnum hefur FTSE vísistalan hækkað um 1,3%, DAX í Frankfurrt hefur hækkað um 1,7% og CAC vísitalan í París hefur einnig hækkað um 1,7%. Þessar vísitölur lækkuðu allar töluvert í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK