NTC tapar 30 milljónum

Svava Johansen, eigandi NTC-verslunarkeðjunnar.
Svava Johansen, eigandi NTC-verslunarkeðjunnar. mbl.is/Árni

Rúmlega þrjátíu milljóna króna tap var af rekstri tískukeðjunnar NTC á síðasta ári en fjögurra milljóna króna hagnaður varð af rekstrinum árið 2013. Keðjan er í eigu verslunarkonunnar Svövu Johansen.

Í nýbirtum ársreikningi félagsins kemur fram að tekjur af seldum vörum hafi numið tæpum 1,8 milljarði króna á síðasta ári. Kostnaðarverð seldra vara var 908 milljónir króna.

NTC starfrækir sextán eigin verslanir á höfuðborgarsvæðinu, saumastofu í Reykjavík, eigin fataframleiðslu erlendis og heildsölu sem selur fatnað til margra tískuvöruverslana á landsbyggðinni. Starfsmenn NTC voru 150 í árslok.

Einkahlutafélagið Sautján ehf. á 61,3 prósent hlut í NTC en Svava er skráð fyrir 38,7 prósentum.

Sautján keypti nýja hluti fyrir 150 milljónir

Sautján ehf. er alfarið í eigu Svövu og samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins varð rúmlega þriggja milljóna króna hagnaður af rekstri þess á síðasta ári.

Arður verður greiddur úr hvorugu félaginu vegna síðasta árs en arðgreiðslur úr Sautján ehf. fyrir árið 2013 námu 13,7 milljónum króna. 

Í ársreikningi Sautján er hlutur félagsins í NTC metinn á 195 milljónir króna á kostnaðarverði. 

Eigið fé NTC í árslok nam 77,5 milljónum króna að meðtöldu hlutafé að fjárhæð 134,5 milljónir króna. Í árslok 2014 var tekin ákvörðun um að hækka hlutafé félagsins með útgáfu nýrra hluta. Söluverð hlutafjársins til Sautján ehf. var 150 milljónir króna.

Eignir NTC, að meðtöldu 150 milljóna króna hlutafjárloforði, jukust nokkuð milli ára, eða úr 698 milljónum króna í 800 milljónir. Skuldir drógust þá saman úr 740 milljónum í 722 milljónir króna.

Skuldir Sautján ehf. jukust hins vegar verulega milli ára, eða úr 33 milljónum króna í 179 milljónir króna en meðal skulda er fyrrnefnt 150 milljóna króna hlutafjárloforð. Eignir jukust milli ára og námu 251 milljón króna samanborið við 101 milljón króna árið áður. Þa munaði mestu um aukinn eignarhlut í NTC. Árið 2013 var hann bókfærður á 45 milljónir króna en á árinu 2014 var hann metinn á 195 milljónir króna líkt og áður segir. Eigið fé var samkvæmt þessu jákvætt um 72 milljónir króna.

Sautján í Kringlunni er í eigu NTC.
Sautján í Kringlunni er í eigu NTC. Mynd/NTC
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK