Ofurkonan sem verður kannski rekin

Örlög Marissu Mayer eru óráðin.
Örlög Marissu Mayer eru óráðin. AFP

Marissa Mayer, forstjóri Yahoo, hefur verið milli tannana á fólki á meðan hlutabréf fyrirtækisins hríðfalla. Mbl skoðaði þessa áhugaverðu konu sem ætlar m.a. að taka sér tveggja vikna frí þegar hún eignast tvíbura síðar í mánuðinum en lengdi samt almennt fæðingarorlof hjá fyrirtækinu. Hún var einu sinni í sambandi með stofnanda Google og er afrekskona á marga vegu.

Mayer er fædd árið 1975 og er menntaður hugbúnaðarverkfræðingur með sérhæfingu í gervigreind. Hún hefur verið forstjóri Yahoo frá 2012 en áður var hún m.a. talskona og framkvæmdastjóri hjá Google. Árið 2013 varð hún fyrsta konan til þess að komast í fyrsta sæti á lista Fortune yfir 40 áhrifamestu einstaklingana undir fertugu og á þessu ári var hún valin áttunda áhrifamesta konan í viðskiptum af Forbes.

Skátar og krulla

Mayer tók þátt flestum félagsstörfum sem hægt er að láta sér detta í hug sem barn og unglingur. Hún var í skátunum, æfði ballett og spilaði á píanó. Þá var hún í krulluliði Wausau West menntaskólans, formaður ræðuliðs skólans og í klappstýruliðinu. 

Hún hóf upphaflega nám í taugaskurðlækningum við Stanford háskólann en skipti síðar um námsgrein. Í háskólanum var hún áfram öflug í félagsstörfum og dansaði m.a. í uppfærslu skólans af Hnotubrjótinum, var í ræðuliðinu og sjálfboðaliði á sjúkrahúsum og í skólum þar sem hún sá um tölvukennslu.

Hún útskrifaðist með láði og fékk svokallaða heiðurs doktorsgráðu frá Illinois Institute of Technology skólanum fyrir vinnu sína á sviði tölvutækni. Mayer á einnig nokkur einkaleyfi fyrir ýmiss konar hugbúnaði sem hún hefur hannað.

Stórt verkefni

Eftir útskrift biðu hennar fjórtán starfstilboð. Hún hóf störf hjá Google árið 1999 og var tuttugasti starfsmaður fyrirtækisins en jafnframt fyrsti kvenkyns verkfræðingurinn sem þar starfaði. Hún starfaði lengi hjá Google, eða allt þar til hún tók við forstjórastöðunni hjá Yahoo fyrir þremur árum.

Yahoo stóð ekki vel þegar Mayer tók við en hennar beið stórt verkefni; að snúa rekstrinum við og töldu flestir ráðninguna mjög skynsamlegt skref.

Eins og staðan er í dag er ljóst að það hefur ekki alveg gengið eftir og hefur Yahoo hægt og rólega orðið undir í samkeppninni við aðra tæknirisa á borð við Google og Facebook.

Mayer hefur þó gert ýmsar breytingar á rekstrinum. Á fyrstu tveimur árunum tók Yahoo yfir 41 sprotafyrirtæki, skar nokkrar vörur niður og kom öðrum á rétt ról. Stærsta yfirtakan var á Tumblr sem Yahoo keypti á milljarð Bandaríkjadala.

Stuttu eftir að hún tók til starfa tók hún upp nýtt kerfi innan fyrirtækisins er kallast PB&J þar sem kvörtunum og athugasemdum starfsmanna er safnað saman. Ef athugasemd fær yfir fimmtíu atkvæði annarra starfsmanna er hún tekin til sérstakrar skoðunar.

Umdeilt fæðingarorlof

Í febrúar 2013 stóð hún þá einnig fyrir annarri og umdeildari breytingu en þá var starfsmönnum bannað að vinna alfarið heima hjá sér. Í apríl sama ár breytti hún reglum fyrirtækisins um fæðingarorlof og lengdi það og hækkaði greiðslur til nýbakaðra foreldra. 

Þrátt fyrir þetta aukna svigrúm fyrir aðra starfsmenn hefur Meyer sjálf ekki tekið sér mikið frí í kringum barneignir. Sama dag og hún tók við forstjórastöðunni tilkynnti hún að hún væri ólétt. Hún vann heiman frá sér undir lok meðgöngunnar en sneri aftur til vinnu skömmu eftir fæðingu. Hún lét setja upp barnaherbergi við hlið skrifstofu sinnar og gat því haldið haldið áfram störfum.

Síðar í þessum mánuði á hún von á sínu öðru og þriðja barni; eineggja tvíburastúlkum. Hún ætlar einungis að taka sér tveggja vikna fæðingarorlof og fyrir þá ákvörðun hefur hún hlotið töluverða gagnrýni frá mæðrum víða um heim. Aðrir vilja hins vegar meina að hún sé að gera það sem þurfi til í karllægu starfsumhverfi.

Nú hafa margir bent á að Yahoo sé endanlega að skrölta í sundur. Þremur árum eftir að Mayer tók við. Fyrirtækið hefur ekki skapað neina nýja spennandi vöru, tekjuvöxtur er ekki til staðar og hlutabréf hrynja. Sem dæmi um hversu óspennandi ungu kynslóðinni þykir Yahoo vera er að Snapchat fjarlægði fyrirtækið nýlega úr Discover þjónustunni. Snapchat segir Yahoo ekki höfða til síns markhóps.

Þá hafa nokkrir lykilstarfsmenn hætt störfum á árinu og hlutabréf fyrirtækisins hafa fallið um tæp 34 prósent það sem af er ári.

Hætt við upphaflega planið

Yahoo er stór hluthafi í Alibaba netrisanum, sem hefur átt góðu gengi að fagna og hafa margir spáð því að fyrirtækinu verði skipt upp. Mayer viðraði sjálf hugmyndir um að koma 15% hlut Yahoo í Alibaba í annað nýtt fyrirtæki, Aabaco, til þess að hluthafar gætu hagnast á Alibaba.

Þetta er hins vegar ekki lengur planið og þá fyrst og fremst vegna skattamála, þar sem Yahoo og þar með með hluthafar, hefðu þurft að greiða skatt af hlutnum við uppskiptinguna. Reikningurinn hefði hljóðað upp á um tíu milljarða dollara.

Gæti stórgrætt á uppsögn

Stjórnin hefur fundað stíft um framhaldið á síðustu dögum og hafa margir spáð því að Mayer verði látin fara. Líkt og mbl hefur áður greint frá myndi hún ekki ganga tómhent frá fyrirtækinu þar sem hún er með risastóran starfslokasamning.

Ef hún verður rek­in vegna sölu á fyr­ir­tæk­inu á hún rétt á 110 millj­óna doll­ara starfs­loka­greiðslu, eða sem jafn­gild­ir 14,4 millj­örðum ís­lenskra króna. Greiðslan tek­ur þó að hluta mið af hluta­bréfa­verði og gæti upp­hæðin lækkað ef gengið fell­ur meira. 

Ef stjórn­in hins veg­ar rek­ur hana bara, án þess að selja fyr­ir­tækið í leiðinni, á hún rétt á 25,8 millj­óna doll­ara greiðslu, eða sem jafn­gild­ir um 3,4 millj­örðum króna. Sú greiðsla er einnig háð hluta­bréfa­verði.

Óráðin örlög

Eftir miklar vangaveltur á síðustu dögum kom loksins tilkynning frá stjórn Yahoo í gær sem sagði að allur grunnrekstur yrði að líkum settur í eina og sjálfstæða einingu. Aðskilinn frá öðru og þ.m.t. Alibaba hlutnum. 

Þetta hljómar eins og fyrri hugmyndin, þar sem Alibaba og Yahoo verða aðskildar einingar, en er það í rauninni ekki. Samanlagður hlutur Yahoo í Alibaba og japanska Yahoo nemur 38 milljörðum dollara. Grunnrekstur Yahoo er hins vegar metinn á 31 milljarð og því mun verðminni.

Þar sem Yahoo er starfandi eining sem væri látin fara, öfugt við Alibaba, yrði aðskilnaðurinn líklega ekki skattskyldur og sleppur fyrirtækið við skattgreiðsluna en með nánast sömu útkomu.

Að sögn stjórnarmanns Yahoo stendur ekki til að selja fyrirtækið eins og er og eru örlög Mayer ennþá óráðin. 

Mayer giftist lögmanninum Zachary Bogue í desember 2009.
Mayer giftist lögmanninum Zachary Bogue í desember 2009.
Marissa var fyrsti kvenkyns verkfræðingurinn hjá Google.
Marissa var fyrsti kvenkyns verkfræðingurinn hjá Google.
Marissa sat fyrir á forsíðu Vogue tölublaðs sem fjallaði um …
Marissa sat fyrir á forsíðu Vogue tölublaðs sem fjallaði um konur á framabrautinni.
Yahoo hefur ekki gengið vel.
Yahoo hefur ekki gengið vel. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK