„Stórfelld vanræksla“ Seðlabanka

Lögmennirnir Reimar Pétursson (lengst ti hægri), Steinar Þór Guðgeirsson og …
Lögmennirnir Reimar Pétursson (lengst ti hægri), Steinar Þór Guðgeirsson og Ástríður Gísladóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Eggert

Reimar Pétursson, lögmaður Ursus sem er félag í eigu Heiðars Guðjónssonar, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að Seðlabanki Íslands hafi gerst sekur um stórfellda vanrækslu með því að kæra félagið til Sérstaks saksóknara árið 2010 vegna gruns um brot á lögum um gjaldeyrishöft. Á sama tíma ætlaði Ursus að kaupa ráðandi hlut í tryggingafélaginu Sjóvá. Þau kaup gengu ekki eftir.

„Auðvitað var þetta stórfelld vanræksla. Það er ótrúlegt að sérfræðistjórnvald leggi til grundvallar rangar lögskýringar í málinu sem eru send til lögreglu. Það má heita þannig að þetta sé ásetningsbrot. Rangur skilningur stjórnvalds á lögum hlýtur að vera meiriháttar og stórfelld vanræksla,“ sagði Reimar.

Hann bætti við að atriði sem lögmenn Seðlabanka Íslands hafi borið fyrir sig sem eigi að koma í veg fyrir bótaskyldu standist ekki.

Aðalmeðferð í máli Heiðars gegn Seðlabanka Íslands og Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) þar sem hann krefst um tveggja milljarða í skaðabætur auk vaxta vegna þess að kaup hans á tryggingafélaginu Sjóvá gengu ekki upp, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Frétt mbl.is: Már: „Mikil vonbrigði“

Heiðar Guðjónsson, fjárfestir, bar vitni í morgun.
Heiðar Guðjónsson, fjárfestir, bar vitni í morgun. mbl.is/Eggert

Skjölin lágu til undirritunar

Að sögn Reimars var rannsókn gjaldeyriseftirlitsins á Ursus eina ástæðan fyrir því að samningar um kaupin hafi ekki gengið upp. „Það er ljóst að allur framburður vitna gefur til kynna að þangað til þetta gjaldeyriseftirlitsmál kom upp var þetta mál að sigla í farsæla höfn og skjölin lágu til undirritunar,“ sagði hann og bætti við að þessi eina ástæða, þ.e. rannsókn gjaldeyriseftirlitsins, hafi verið ólögmæt. Vísaði hann þar í niðurstöðu ríkissaksóknara í málinu en hann komst að þeirri niðurstöðu að rannsókn málsins yrði hætt.

Enginn bindandi samningur

Ástríður Gísladóttir og Steinar Guðgeirsson fara með málið fyrir hönd Seðlabanka Íslands og Eignasafns Seðlabanka Íslands.

Ástríður sagði engan vafa liggja á því að allir hafi litið svo á að bindandi samningur um kaupin hafi ekki verið gerður.

„Það var hann [Heiðar] og meðfjárfestar hans sem sögðu sig frá þessu ferli. Hafi verið kominn bindandi samningur á þessum tíma kom stefnandi í veg fyrir að hægt væri að efna hann með því að hætta við að kaupa hlutina,“ sagði hún.

Steinar og Ástríður í dómsalnum.
Steinar og Ástríður í dómsalnum. mbl.is/Eggert

Getur höfðað annað mál

Ástríður bætti við að málið snúist ekki um mistök í lagasetningu. „Það kemur þessu máli ekki neitt við. Ef stefnandi telur að á sér hafi verið brotið með eftirliti og kæru þá er honum í lófa lagið að höfða slíkt mál og krefjast bóta,“ greindi hún frá. „Það var ekki búið að taka ákvörðun af hálfu stefndu hvort samningum yrði hafnað eða ekki þegar fjárfestahópurinn tilkynnti þessa ákvörðun sína. Það er ekkert að finna um þessi grundvallarmálsatvik í stefnu málsins.“

Dómur verður kveðinn upp í málinu 8. apríl næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK