Vilja enn höfuðstöðvar á Austurhöfn

Afstöðumynd sem sýnir staðsetningu höfuðstöðvanna.
Afstöðumynd sem sýnir staðsetningu höfuðstöðvanna. Mynd/Landsbankinn

Það er ennþá niðurstaða bankaráðs Landsbankans að besti kosturinn varðandi húsnæðisvanda bankans sé að flytja í nýja byggingu á Austurhöfn. Ráðgjafar hafa yfirfarið fyrri útreikninga bankaráðs og var þetta einnig niðurstaða þeirra.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ávarpi Tryggva Pálssonar, formanns bankaráðs, frá aðalfundi Landsbankans í gær.

Áður en næstu skref verða tekin þarf hins vegar að liggja fyrir að stærsti hluthafinn, þ.e. íslenska ríkið, setji sig ekki upp á móti slíkum áformum, sagði Tryggvi.

„Bankaráðið hefur fjallað um valkosti fyrir nýjar höfuðstöðvar allt frá árinu 2010 og var það niðurstaðan á liðnu ári að hagkvæmast væri fyrir Landsbankann að byggja nýjar höfuðstöðvar á lóð bankans í Austurhöfninni, hér fyrir sunnan Hörpuna,“ segir í ávarpi Tryggva.

Tryggvi Pálsson formaður bankaráðs Landsbankans.
Tryggvi Pálsson formaður bankaráðs Landsbankans. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ráðgjafar sammála

„Sú ákvörðun mætti talsverðri andstöðu í þjóðfélaginu eins og vill verða um stórar byggingarframkvæmdir. Bankaráðið vildi taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu og lét ráðgjafa yfirfara fyrri útreikninga og skoða nokkrar nýjar staðsetningar.“

„Niðurstaðan var sú sama og fyrr að spara mætti hundruð milljóna á hverju ári með flutningi í nýja byggingu og að Austurhöfnin væri besti kosturinn.“

Í ávarpinu eru talin upp nokkur rök fyrir þessari niðurstöðu; Lóðin sé vel staðsett, skipulag liggi fyrir og hægt sé að hefja framkvæmdir. Þá sé bæði möguleiki á samnýtingu bílastæða og möguleiki á leigu á fleiri bílastæðum í nágrenninu. Að lokum verði ekki þörf á að reka sérstakt miðbæjarútibú.

„Með því að færa starfsemina í hentugra húsnæði skapast tækifæri til þess að stórbæta vinnuaðstöðuna, fækka fermetrum undir starfsemina til mikilla muna og spara um leið verulegar fjárhæðir í rekstri bankans,“ sagði Tryggvi.

Ekki verður þörf fyrir sérstakt miðbæjarútibú með nýjum höfuðstöðvum segir …
Ekki verður þörf fyrir sérstakt miðbæjarútibú með nýjum höfuðstöðvum segir formaður bankaráðs Landsbankans. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Viðskiptavinir borga“

Áform Landsbankans um byggingu nýrra höfuðstöðva við Austurhöfn vöktu mikla athygli síðasta sumar. 

Meðal þeirra sem létu í sér heyra vegna málsins voru Elliði Vign­is­son, bæj­ar­stjóri í Vest­manna­eyj­um, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Elín Hirst, þingkona Sjálfstæðisflokksins, Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. 

Sagði Frosti að bygg­ing nýrra höfuðstöðva Lands­bank­ans við hafn­ar­bakk­ann í Reykja­vík á dýrri bygg­ing­ar­lóð myndi koma niður á vaxta­kjör­um viðskipta­vina sem borga alltaf svona fram­kvæmd­ir að lok­um. „Mér líst mjög illa á þetta og hef varað við þessu í lang­an tíma,“ sagði Frosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK