25% hækkun á innanlandsflugi

Verð á innanlandsflugi hækkaði mili mánaða.
Verð á innanlandsflugi hækkaði mili mánaða. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Flugfargjöld til útlanda lækka um rúm sex prósent milli mánaða en á móti hækkuðu flugfargjöld innanlands um 25,3 prósent. Verðlag í maí hækkaði alls um 0,42 prósent. Verð á hráolíu á alþjóðamörkuðum er nú nálægt 50 bandaríkjadölum á tunnuna og hefur olíuverð hækkað samfellt undanfarna mánuði. Það kæmi því ekki á óvart ef eldsneytisverð hér innanlands myndi hækka frekar á komandi mánuðum, segir Greiningardeild Arion banka.

Hagstofa Íslands birti nýjar tölur um vísitölu neysluverðs í morgun og líkt og fram hefur komið voru verðhækkanir nokkuð yfir spám helstu greiningaraðila. 

Frétt mbl.is: Verðlag hækkar umfram spár

Greiningardeildin segir það ekki koma á óvart að húsnæðisverð haldi áfram að hækka. Hækkun annarra liða megi hins vegar túlka sem vísbendingu um að verslun sé að velta launahækkunum út í verðlag og gæti það skýrt hækkun matarkörfunnar.

Einnig séu merki um vaxandi eftirspurn í hagkerfinu samhliða hraðri kaupmáttaraukningu og gæti það staðið að baki hækkun á verðlagi tómstundavara. Þá skýrist hækkun á gistiþjónustu af árstíðarbundnum ferðamannastraumi til landsins.

Mesta hækkun frá 2011

Verðlagshækkun í maí, sem nemur 0,42%, er mesta hækkun frá því árið 2011 þegar miklar launahækkanir voru í spilunum vegna nýafstaðinna kjarasamninga það árið.

Greiningardeild Arion bendir á að þegar litið er á verðlagsþróun í maí undanfarin ár megi sjá að hækkanir hafi farið vaxandi milli ára. Hækkanir eru nú miklar í flestum undirliðum verðlagsvísitölunnar og má því velta fyrir sér hvort launahækkanir og vaxandi eftirspurn í hagkerfinu hafi nú meiri áhrif til hækkunar verðlags en undanfarna mánuði.

Ýmsir þjónustuliðir hækka, s.s. hótel og veitingar, og einnig eru dvínandi áhrif af lækkun innfluttra vara. Eldsneytisverð hækkar áfram og einnig hækka ýmsar matvörur.

„Ef áhrif af lækkun innfluttra vara gefa eftir á næstu mánuðum og innlendir liðir halda áfram að hækka má búast við hækkandi verðbólgu á síðasta fjórðungi ársins,“ segir Greiningardeild Arion.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK