Kaupmáttur aukist um 30% frá 2010

Kaupmáttur hefur aukist hratt á liðnum árum.
Kaupmáttur hefur aukist hratt á liðnum árum. mbl.is/Árni Sæberg

Í ljósi þess að stöðugleiki ríkir og verðbólga er lítil teljast launabreytingar síðustu missera miklar. Launavísitala hækkaði um 0,5% milli apríl og maí og nam árshækkunin í maí 13,3%.

Hvort tveggja veldur því að kaupmáttur hefur einnig aukist verulega, eða um 11,4% frá maí 2015. Launahækkanir vegna kjarasamninga hafa verið miklar og svo virðist vera eitthvert launaskrið í gangi þar sem launavísitalan hækkar nokkuð stöðugt frá mánuði til mánaðar.

Hagfræðideild Landsbankans fer yfir launaþróunin í nýjustu Hagsjánni og bendir á að kaupmáttur launa sé nú meiri en hann hefur nokkurn tíma verið áður.

Kaupmáttur launavísitölu náði hámarki í ágúst 2007 en svo dró aftur úr honum og náði hann ekki sama stigi fyrr en í nóvember 2014 og hefur hann aukist um 12% síðan þá. Kaupmáttur náði tímabundnu lágmarki í maí 2010 og hefur aukist um 30% frá þeim tíma. Kaupmáttur hefur aukist nokkuð stöðugt frá því 2010, en aukningin frá því í ársbyrjun 2015 er sérstaklega hröð og sú langmesta frá aldamótum.

Svigrúm til hækkana 

Merki svo mikilla launahækkana eru illgreinanleg í núverandi verðbólgustigi og hefur verðbólga haldist lág þrátt fyrir miklar launahækkanir. Þar koma t.d. til ytri skilyrði eins og lækkun hrávöruverðs og einnig styrking krónunnar. En innlendir þættir skipta líka máli, líkt og hagfræðideildin bendir á.

Þrátt fyrir um 12% hækkun launavístölu milli ára á 1. ársfjórðungi 2015 hækkaði opinber þjónusta einungis um 3,5% og önnur þjónusta um 2,3%. Alls var framlag þjónustu til ársverðbólgu 0,7 prósentustig. Svo virðist því sem atvinnurekendur hafi haft svigrúm til að hækka laun án þess að þurfa að velta hækkunum út í verðlagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK