Meta verðmæti stofnfjár sjóðsins

mbl.is/Jim Smart

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfu Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar um að dómkvaddir verði matsmenn til þess að meta verðmæti stofnfjár Sparisjóðs Vestmannaeyja við yfirtöku Landsbankans á sparisjóðnum í lok mars í fyrra.

Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin áttu stofnfé í sparisjóðnum. Þessir aðilar telja að verðmæti eigna og skuldbindinga sjóðsins hafi ekki verið rétt metið og hafi hallað verulega á þá sem stofnfjáreigendur, en Landsbankinn auðgast að sama skapi.

Fjármálaeftirlitið ákvað í lok mars 2015 að taka yfir rekstur, eignir og skuldbindingar Sparisjóðs Vestmannaeyja. Þá lá þegar fyrir samkomulag milli sparisjóðsins og Landsbankans um yfirtöku bankans á sjóðnum. Stofnfjáreigendur fengu sem endurgjald hlutabréf í bankanum. Í samkomulaginu var ákveðið tiltekið verðmæti alls stofnfjár og var það lagt til grundvallar í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Telja verðmatið of lágt

Stofnfjáreigendurnir telja hins vegar að verðmat bankans hafi verið of lágt þegar sparisjóðurinn var sameinaður Landsbankanum. Vilja þeir að forsendur fyrir ákvörðun endurgjaldsins verði endurmetnar.

Mótmæli Landsbankans byggðu nær eingöngu á þeirri lagareglu að mál til ógildingar á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skuli höfða innan þriggja mánaða. Sá frestur væri liðinn og því ljóst að matsbeiðendur geti ekki haft lögvarða hagsmuni af matsgerð, þeir geti ekki haft uppi kröfu á hendur bankanum og sönnunarfærslan sé bersýnilega tilgangslaus en matsgerðin ekki bersýnilega tilgangslaus.

Dómurinn féllst hins vegar ekki á það. Fram kemur í dóminum að  þær ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitið tók varðandi sparisjóðinn verði ekki felldar úr gildi úr því sem komið er. Hins vegar byggi ákvörðun endurgjalds fyrir stofnfjárbréf matsbeiðenda á samkomulagi sem gert var við bankann og Fjármálaeftirlitið ákvað að hrófla ekki við. Er matsgerðin því ekki bersýnilega tilgangslaus.

Þá sé ekki sýnt fram á að matsbeiðendur geti ekki átt lögvarinna hagsmuna að gæta. Þeir hafi ekki sannað kröfur sínar, en umbeðin matsgerð yrði hluti af sönnunarfærslu til stuðnings þessum kröfum.

Loks verði ekki fallist á að samningur Landsbankans og sparisjóðsins útiloki það að mats verði aflað.

Var öllum mótbárum bankans hafnað.       

Atriðin sem dómkvöddum matsmönnum er gert að meta:

1) Verðmæti alls stofnfjár Sparisjóðs Vestmannaeyja með hliðsjón af eignum og skuldbindingum sparisjóðsins, annars vegar miðað við 3. júlí 2015 og hins vegar miðað við 29. mars 2015.

2) Verðmæti yfirfæranlegs skattalegs taps Sparisjóðs Vestmannaeyja sem nýtist Landsbankanum við tekjuskattsútreikning bankans, annars vegar miðað við 3. júlí 2015 og hins vegar miðað við 29. mars 2015.

3) Verðmæti sem felst í samlegð Sparisjóðs Vestmannaeyja og Landsbankans og frekari viðskiptatækifærum sameinaðs félags, annars vegar miðað við 3. júlí 2015 og hins vegar miðað við 29. mars 2015.

4) Verðmæti stofnfjárhluta matsbeiðenda í Sparisjóði Vestmannaeyja miðað við niðurstöður úr matsliðum 1–3, annars vegar miðað við 3. júlí 2015 og hins vegar miðað við 29. mars 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK