Tekur ekki undir „dómsdagsspár“

„Reykjavíkurborg er líkt og önnur yfirvöld að bregðast við mjög …
„Reykjavíkurborg er líkt og önnur yfirvöld að bregðast við mjög hraðri breytingu á stöðu mála og hefur þurft að ganga í gegnum krappa lærdómskúrfu í þeim efnum,“ segir ferðamálastjóri. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ferðamálastjóri segist ekki geta tekið undir „dómsdagsspár“ um mögulega hnignun ferðaþjónustu í Reykjavík vegna svokallaðs massatúrisma sem talað hefur verið um. Hún segir að kröpp lærdómskúrfa hafi beðið þeirra sem starfa við málaflokkinn og telur að horfa þurfi raunsætt á þá stöðu að ferðaþjónustan sé komin til að vera.

Varnaðarorð Clive Stacey, eiganda ferðaskrifstofunnar Discover the World sem hefur lengi verið í fararbroddi í skipulagningu Íslandsferða frá Bretlandi, hafa öðlast nýja vængi undanfarið en í fyrrasumar gagnrýndi hann Íslendinga fyrir skipulagsleysi og það að stunda „massatúrisma af verstu gerð.“ Þá sagðist þýski hót­el­mó­gúll­inn Klaus Ortlieb, sem rekur hótelið Hlemmur Square, á dögunum hafa áhyggjur af því að borgaryfirvöld væru ekki að reyna halda í það sem laðaði ferðamenn hingað til lands til að byrja með.

Bregðast við örum breytingum

„Reykjavíkurborg er líkt og önnur yfirvöld að bregðast við mjög örri breytingu á stöðu ferðaþjónustunnar og hefur þurft að ganga í gegnum krappa lærdómskúrfu í þeim efnum,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri. „Mér sýnist að þau hafi verið að bregðast við með ýmsum hætti og t.d. með ákvæðum um hámark á ákveðna atvinnustarfsemi á ákveðnum svæðum og með því að hvetja til að starfsemi dreifist víðar,“ segir hún. „Þjónustustarfsemi sem tengist ferðaþjónustu skapar tækifæri fyrir nærþjónustu við íbúa utan miðborgar. Íbúar Vesturbæjar sjá þessa stað í t.d. tekstri kaffihúss og hefur athafnasvæði miðborgarinnar færst út á Granda þar sem mjög skemmtileg starfsemi er rekin. Ferðaþjónustan hefur vissulega áhrif á þróun íslensks samfélags og það þarf að vinna mörg verkefni sem sumum verður aldrei hægt að loka,“ segir Ólöf.

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri mbl.is/Frikki

Áfjáðari í að leysa verkefnin

Ólöf segir Clive Stacey hafa mikið vit á ferðaþjónustu og að alltaf sé gott að hlusta á reynslumikla hagsmunaaðila í greininni. Hins vegar eigi hún erfitt með að taka undir þeim sem sterkustu lýsingarnar nota.

„Vegna þess að ég vil meina að ferðaþjónustan hafi fært okkur sem samfélagi meira jákvætt en neikvætt. Hún hefur líka fært okkur verkefni og það má kannski segja að við þurfum að vera áfjáðari í að leysa þau og fjármagna.“

Ólöf bendir á að ferðaþjónustan sé atvinnugrein og þurfi sem slík aðhald og umgjörð. „Þegar hún vex eins og reynslan sýnir er bersýnilegt að ferðaþjónustuaðilar, en ekki síður þeir sem eiga að gæta almannahagsmuna og tryggja rétta umgjörð atvinnugreinarinnar, hafi það á hreinu að það sé í rauninni til stefna og að unnið sé skilmerkilega eftir henni. Slíkt kostar peninga og þessi verkefni þarf að fjármagna. Svo varðar þetta auðvitað líka skipulag innan ferðaþjónustufyrirtækjanna sjálfra. Þeirra hagur felst auðvitað í því að hlutirnir séu í lagi.“

Svokölluðum lundabúðum hefur fjölgað ört á síðustu árum.
Svokölluðum lundabúðum hefur fjölgað ört á síðustu árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurð hvort hún hafi einhverjar áhyggjur af því að Reykjavík missi sjarmann segist Ólöf í sjálfu sér starfa við að bera hag atvinnugreinar og samfélags fyrir brjósti. Mikilvægt sé að hið opinbera og ferðaþjónustan haldi rétt á málunum. „Þetta er verkefni sem þarf að vinna og við þurfum að ráðast í það af mikilli atorku og ekki síst að tryggja fjármögnun. Við þurfum að horfa raunsætt á þá stöðu mála að ferðaþjónustan er komin til að vera og hún skipar allt annan sess núna en hún gerði kannski fyrir fimmtán árum. Það þýðir að það þarf að ráðast í ansi mikla kerfisbreytingu á því hvernig við hugsum um samfélagsmál.“

Ferðamönnum hefur fjölgað mjög hratt og yfirvöld þurfa að bregðast …
Ferðamönnum hefur fjölgað mjög hratt og yfirvöld þurfa að bregðast við því. mbl.is/Ómar Óskarsson

Að sögn Ólafar geta skipulagsyfirvöld ekki lengur bara horft til þarfa heimamanna. „Fyrir kannski tuttugu árum var miðborgarkjarni fyrst og fremst skipulagður út frá þörfum íbúanna en þegar þú ert að tala um skipulag í dag verður að taka inn í þarfir ferðaþjónustunnar og gera þér grein fyrir að um er að ræða miklu fleiri íbúagildi þegar við bætast þeir ferðamenn sem borgina heimsækja. Það kallar á svolítið nýja hugsun í mótun umhverfisins.“

Aðspurð hvort yfirvöld mættu grípa til einhverra aðgerða í borginni í dag segir Ólöf að búið sé að setja á dagskrá ýmis verðug verkefni í uppbyggingu, bæði í miðborginni og á svæðum út frá henni. „Ég vil bara sjá hvernig borgaryfirvöldum gengur með það verkefni. Mörg eru þau mjög góð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK