Ákvað 7 ára að verða iðnaðarmaður

„Ég ætlaði að verða iðnaðarmaður frá því að ég varð sjö ára,“ segir Vignir Halldórsson, húsasmíðameistari hjá Mótx. Valið segir hann að hafi staðið á milli þess að verða bifvélavirki eða smiður. „Svo hugsaði ég með mér að smiðir gætu byggt húsið sitt þannig að ég ákvað að velja það,“ segir Vignir sem fór í smiðsnámið beint eftir grunnskóla og þegar því var lokið lærði hann til meistara.

Réttindin gera honum kleift að vera byggingarstjóri húsa og því sinnir hann hjá Mótx sem hann stofnaði í félagi við aðra fyrir rúmum áratug. Smiðsstarfið er hörkuvinna og um árabil barði Vignir steypumót og hafði gaman af, var svokallað steyputröll eins og það er kallað í faginu. Það skemmtilegasta við starfið segir Vignir vera sköpunina og að sjá hlutina verða til.

„Að búa til hús sem stendur í 50 eða hundrað ár, það er svo skemmtilegt. Þú ert ekki bara að eyða heilum vinnudegi í að grúska í pappírum og fara svo heim. Þú ert að búa eitthvað til þú ert að gera eitthvað og það held ég að heilli marga við iðnaðarmennskuna.“

Prufar hin ýmsu áhugamál

„Ég er voðalegur sveimhugi í áhugamálum, ég er svona grunnur í þeim öllum en langar að prófa allt,“ segir Vignir sem hefur gaman af því að fara í veiði eða á skíði og fer líka í golf. Nýjasta áhugamálið er þó mótorhjólamennska en í vor keypti hann sér glæsilegt BMW 800 GS-hjól sem er ætlað til langferðalaga og utanvegaaksturs. „Það var hugmyndin að þeysast um landið á þessu og þegar maður er búinn að skoða Ísland að taka jafnvel Norrænu og kíkja á Evrópu, en það er svona langtímamarkmið.“

Tilfinningin sem fylgir því að þeysast um á hjólinu segir Vignir að sé frelsi og þó að það sé skemmtilegt að finna fyrir hraðanum á hjólinu sé það ekki bara hann og adrenalínið sem heilli. „Það er gaman að fá vindinn í fangið og sérstaklega úti í náttúrunni á fáförnum slóðum.“

Fagfólkið heilsaði upp á Vigni fyrr í sumar.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK