Átök innan 365 í kjölfar brottrekstrar

Höfuðstöðvar 365 eru í Skaptahlíðinni.
Höfuðstöðvar 365 eru í Skaptahlíðinni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsmenn Fréttablaðsins ræddu möguleikann á því að leggja niður störf síðastliðinn föstudag og koma í veg fyrir að blaðið kæmi út á laugardag. Hugmynd þar um var viðruð í hópi lykilstarfsmanna vegna megnrar óánægju með þá ákvörðun Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365 miðla, að segja Pjetri Sigurðssyni, yfirmanni ljósmyndadeildar 365, upp störfum. Starfsfólki fyrirtækisins var tilkynnt um brottreksturinn undir lok liðinnar viku.

Umræddir starfsmenn tóku ákvörðun um að halda útgáfustarfinu áfram en þess í stað var boðað til fundar á mánudagskvöld. Á fundinum var samþykkt ályktun sem send var á Ingibjörgu Pálmadóttur, stjórnarformann 365, Sævar Frey Þráinsson, forstjóra félagsins, og Kristínu Þorsteinsdóttur. Þar er uppsögn Pjeturs harðlega gagnrýnd og hún sögð óverðskulduð. 

Kvartað undan einelti

Forsaga málsins er sú að fyrr á þessu ári kvartaði Pjetur undan meintu einelti aðalritstjóra í sinn garð. Fór athugun á málinu fram og komu fjármálastjóri félagsins, Elmar Hallgríms Hallgrímsson, og þáverandi mannauðsstjóri þess, Unnur María Birgisdóttir, að því. Áður en botn komst í málið tók forstjóri félagsins hins vegar málið í sínar hendur og í kjölfarið lét mannauðsstjórinn, Unnur María Birgisdóttir, af störfum hjá félaginu. Í kjölfarið fór Pjetur í leyfi frá störfum. Endi var bundinn á ráðningarsamband hans við 365 í lok síðustu viku, eins og fyrr greinir.

Í gær var tilkynnt um að Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hefði sagt upp störfum. Hún hafði gegnt starfinu frá því í ágúst í fyrra. Hún hefur ekki viljað gefa upp hvort uppsögnin tengist brottrekstri yfirmanns ljósmyndadeildar fyrirtækisins. Heimildir Morgunblaðsins herma að hún hafi haft vitneskju um, og stutt, yfirlýsinguna sem send var á yfirstjórn fyrirtækisins í gær.

Í pósti sem Ingibjörg S. Pálmadóttir, stjórnarformaður 365, sendi starfsfólki félagsins í gær, kom fram að Fanney Birna hefði sagt upp störfum í lok júní síðastliðins og að ástæður uppsagnarinnar væru af persónulegum toga. Þá sagði hún að uppsögn Pjeturs hefði komið til vegna faglegs ágreinings milli hans og Kristínar Þorsteinsdóttur. Í póstinum lagði hún áherslu á að starfsfólk fyrirtækisins stæði saman og þá sagði hún: „Þá vil ég að lokum taka fram að 365 er fjölskyldufyrirtæki. Von mín er að við stöndum saman sem ein fjölskylda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK