Auðvitað geta allir unnið við þetta

„Við fáum að snerta á ýmsum verkefnum, eins og núna erum við í sólpallasmíði og svo höfum við verið í klæðningu. Svo fáum við að fara inn líka í gifs og svona. Þannig að þetta er mjög fjölbreytt starf,“ segir Skarphéðinn Njálsson smiður um starfið en hann starfar hjá Bygg og var að smíða sólpalla við ný fjölbýlishús sem fyrirtækið reisti í Garðabæ þegar Fagfólkið heilsaði upp á hann í sumar.

Sólpallasmíðina segir hann vera einn skemmtilegasta hlutann af starfinu, enda tengist hún gjarnan sumrinu. „Svo hef ég líka verið að parketleggja svolítið og það finnst mér líka mjög skemmtilegt.“ Skarphéðinn, sem er í námi í byggingafræði í HR með vinnu, segir það vera skemmtilegt þegar fólk kemur og skoðar það sem búið er að vera að vinna að og kemur jafnvel með jákvæðar athugasemdir. „Þá hlýtur maður að vera að gera eitthvað skapandi.“

Þrátt fyrir að smiðsstarfið sé hörkuvinna eins og Skarphéðinn orðar það segir hann að það geti hentað öllum. „Það þarf að vera gott tempó á manni og maður þarf að vera klár í vinnuna, það er ekkert hægt að vera með hálfkák,“ segir Skarphéðinn sem tók stefnuna ungur á smiðsstarfið enda úr mikilli smíðafjölskyldu. „En auðvitað geta allir unnið við þetta.“  

Útivist eftir vinnu  

„Ég geri mikið af því að kíkja aðeins út,“ segir Skarphéðinn um áhugamálið sem er útvist. Yfir sumarið reynir hann að komast í útilegur með góðu fólki og þá sé reynt að skoða áhugaverða staði í leiðinni. Skorradalurinn er í miklu uppáhaldi hjá Skarpéðni, þar séu margar skemmtilegar gönguleiðir og ekki skemmi fyrir að vera í nánd við Hvalfjörðinn sem hafi upp á svo margt að bjóða.

Skarphéðinn segist sækja mikið í útiveruna sjálfa. „Ég get setið úti heilu næturnar á sumrin, kveikt síðan bál og grillað og gert.“ Í framtíðinni segist Skarphéðinn hafa hug á að ganga meira á fjöll. „Maður er meira svona að fara að áfangastöðum og skoða þá en maður er kannski ekki nógu duglegur að labba upp.“

Fagfólkið er samstarfsverkefni SI og mbl.is  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK