Ekki bóla eins og árin fyrir hrun

"Svo virðist sem skortur á framboði fjölbýlis hafi leitt til meiri áhuga og eftirspurnar eftir sérbýli sem aftur hafi áhrif á verð. Þá hefur kaupmáttaraukning verið veruleg á síðustu misserum og því ekki ólíklegt að stærri hluti kaupenda en áður leiti eftir sérbýli,“ segir í Hagsjá. mbl.is/Sigurður Bogi

Mun minni munur er á hækkun fasteignaverðs og kaupmáttar nú en á árunum fyrir hrun. Þá var oft talað um bólumyndun en að mati hagfræðideildar Landsbankans er ekki hægt að segja að sama bóla sé komin í gang og árin fyrir hrun.

Í Hagsjá kemur fram að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,2% bæði í júní og júlí og hækkun undanfarna tólf mánuði nam 12,4% í lok júlí. Þar af hafði verð á fjölbýli hækkað um 13,6% og sérbýli um 9,3%. Þar segir jafnframt að frá áramótum nemi hækkunin 8,3% en hagfræðideild hafði spáð 9% hækkun íbúðaverðs milli áranna 2015 og 2016.

„Það blasir því við að hækkanir á fasteignamarkaði á árinu verði talsvert meiri en spár gerðu ráð fyrir,“ segir í Hagsjá.

Veruleg kaupmáttaraukning á síðustu misserum

Í Hagsjá segir að verð á sérbýli hafi hækkað mun minna en á fjölbýli á undanförnum misserum en sú staða virðist vera að breytast. Sé litið á hækkanir síðustu 6 mánaða sést að verð á fjölbýli og sérbýli hefur hækkað jafn mikið eða um 7,7%.

„Lengi hefur verið rætt um að framboð á íbúðarhúsnæði í fjölbýli anni ekki eftirspurn og hafi sú staða átt þátt í mikilli verðhækkun fjölbýlis. Svo virðist sem skortur á framboði fjölbýlis hafi leitt til meiri áhuga og eftirspurnar eftir sérbýli sem aftur hafi áhrif á verð. Þá hefur kaupmáttaraukning verið veruleg á síðustu misserum og því ekki ólíklegt að stærri hluti kaupenda en áður leiti eftir sérbýli,“ segir í Hagsjá.

Fylgist betur að en á árunum fyrir hrun

Er bent á að margir horfi til áranna 2004-2006 þegar rætt er um hækkun fasteignaverðs og er oft rætt um bólumyndun í því sambandi. Kaupmáttur jókst þannig um 1-2% á árunum 2004 og 2005 á meðan fasteignaverð hækkaði um 13% á árinu 2004 og 35% á árinu 2005. „Fasteignaverð hækkaði því verulega umfram kaupmátt og aðrar tengdar stærðir. Í slíku tilviki er klárlega um bólumyndun að ræða,“ segir í Hagsjá en sé litið á þróun síðustu ára er greinilegt að hækkun húsnæðisverðs og kaupmáttar hefur fylgst betur að en var á tímabilinu 2004-2006.

Á árinu 2014 hækkaði fasteignaverð um 8,5% á meðan kaupmáttur hækkaði um 3,7% og á árinu 2015 hækkaði verðið um 9,4% og kaupmátturinn um 5,5%. Sé litið til síðustu 12 mánaða hefur verðið hækkað um 12% og kaupmátturinn um 6%. Það er því mun minni munur á hækkun fasteignaverðs og kaupmáttar en var á árunum fyrir hrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK