Tengsl ríkjanna rædd á Kínamúrnum

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, er í opinberri heimsókn í Kína og er tilgangur ferðarinnar að styrkja tengsl ríkjanna tveggja. Þegar eru byrjaðar að berast fréttir af viðskiptasamningum en einnig af göngu hans á Kínamúrnum og dónalegri framkomu kínversks ráðherra í garð blaðamanns.

Kanada mun sækja um aðild að Innviðafjárfestingabanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank) en Ísland er eitt þeirra ríkja Evrópu sem á stofnaðild að bankanum. Bandarísk yfirvöld hafa reynt að koma í veg fyrir að bandamenn þeirra skrifi undir aðild að bankanum.

Bankinn er með höfuðstöðvar í Peking og hefur verið álitinn keppinautur Alþjóðabankans og Asian Development Bank á Filippseyjum sem var settur á laggirnar 1966.

Trudeau átti fund með forsætisráðherra Kína, Li Keqiang, fyrr í dag og er tilgangurinn að styrkja samband ríkjanna en það hefur heldur stirðnað undanfarið. Meðal annars vegna ákvörðunar kínverskra yfirvalda um að setja nýjar reglur varðandi innflutning á canola-olíu. Árlegar útflutningstekjur kanadískra fyrirtækja af sölu á olíufræjum til Kína nema tveimur milljörðum Kanadadollara.

Nýju reglurnar áttu að taka gildi á morgun en Li sagði í dag að gömlu reglurnar muni gilda eitthvað áfram, að minnsta kosti á meðan ríkin tvö ræða framhaldið.

Utanríkisráðherra Kína, Wang Yim, ávítti kanadískan blaðamann þegar hann heimsótti Kanada í júní en blaðamaðurinn spurði hann út í mannréttindabrot í Kína. Sagði Wang að spurningarnar væru fullar af fordómum og hroka og blaðamaðurinn hefði ekki heimild til þess að tala svona við hann. Mikil reiði greip um sig meðal Kanadabúa og lögðu kanadísk yfirvöld fram formlega kvörtun við stjórnvöld í Peking.

Eins hefur farið mjög í taugarnar á Kanadamönnum að kínversk yfirvöld handtóku kanadískan kaffihúsaeiganda, Kevin Garratt, fyrir njósnir árið 2014 en hann rak kristilegt kaffihús skammt frá landamærum Norður-Kóreu.  

Þegar Trudeau ræddi við blaðamenn á Kínamúrnum í dag sagðist hann hafa rætt mál Garratts við leiðtoga Kína í dag en ítrekaði að tilgangur heimsóknarinnar væri að styrkja samband ríkjanna tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK