Tekjur ríkissjóðs jukust milli ára

„Ljóst er að almennar launahækkanir og aukin umsvif í efnahagslífinu …
„Ljóst er að almennar launahækkanir og aukin umsvif í efnahagslífinu hafa mikil áhrif þar sem jákvæða frávikið liggur að mestu í tekjuskatti einstaklinga, tryggingagjaldi og virðisaukaskatti. Hér á eftir verður nánar fjallað um einstök frávik frá áætlun og þróun tekna milli ára,“ segir í greiðsluafkomu ríkissjóðs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu tæplega 442 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins sem er 23,3% aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu sjö mánuði ársins sem liggur nú fyrir. Bent er á að hafa beri í huga að samanburður milli ára er bjagaður vegna umfangsmikilla óreglulegra liða, stöðugleikaframlaga og arðgreiðslna, sem samanlagt námu 84 milljörðum króna.

Að frátöldum þessum veigamiklu liðum námu innheimtar tekjur ríkissjóðs 358 milljörðum króna sem er 8,7% aukning milli ára. Skatttekjur og tryggingagjöld námu 339 milljörðurm króna það sem af er ári og voru 5,4% umfram áætlun.

„Ljóst er að almennar launahækkanir og aukin umsvif í efnahagslífinu hafa mikil áhrif þar sem jákvæða frávikið liggur að mestu í tekjuskatti einstaklinga, tryggingagjaldi og virðisaukaskatti. Hér á eftir verður nánar fjallað um einstök frávik frá áætlun og þróun tekna milli ára,“ segir í greiðsluafkomu ríkissjóðs.

Handbært fé frá rekstri batnaði verulega á milli ára og var jákvætt um 19,4 milljarða króna samanborið við neikvætt handbært fé upp á 52,7 milljarða króna á sama tíma í fyrra.

Þetta skýrist að stærstum hluta með tekjum af stöðuleikaframlögum á árinu 2016 sem námu 68 milljörðum króna á tímabilinu. Handbært fé lækkar um 96,9 milljarða króna samanborið við lækkun um 85,0 milljarða króna á árinu 2015 sem skýrist að stærstum hluta af afborgunum lána sem námu 125,8 milljörðum króna á tímabilinu.

Almennar launahækkanir og meiri atvinna hefur áhrif

Skattar á tekjur og hagnað fyrstu sjö mánuði ársins námu samtals 132 milljörðum króna og jukust um 4,5% milli ára. Tekjuaukninguna má rekja til tekjuskatts einstaklinga sem nam 83 milljörðum króna og jókst um 21,5% milli ára þrátt fyrir lækkun skatthlutfalla í 1. og 2. þrepi í ársbyrjun. Aukningin skýrist fyrst og fremst af almennum launahækkunum og meiri atvinnu. Þegar litið er til fráviks frá áætlun tímabilsins þá var tekjuskattur einstaklinga 11,2% umfram áætlun sem skýrist að miklu leyti af sömu þáttum, þ.e. umtalsvert meiri launahækkunum og fleiri vinnustundum en gert var ráð fyrir í þjóðhagsspá þegar áætlun fjárlaga var gerð.

Skattar á vöru og þjónustu námu 143 milljörðum króna sem er 7,5% umfram áætlun. Þar vegur virðisaukaskattur þyngst og nam hann alls 99 milljarða króna fyrstu sjö mánuði ársins og var 10,5% yfir áætlun. Virðisaukaskattur jókst um 15,4% milli ára sem má m.a. rekja til aukins kaupmáttar heimilanna sem kemur fram í auknum kaupum á varanlegum neysluvörum. Fjölgun ferðamanna hefur einnig jákvæð áhrif á VSK, en þeim fjölgaði um 30,6% milli ára á tímabilinu.

8,3 milljarðar í áfengisgjald

Áfengis- og tóbaksgjöld námu samtals 11,7 milljörðum króna og voru 8,6% undir áætlun. Þar af nam áfengisgjald 8,3 milljörðum króna sem er 15,2% aukning frá fyrra ári. Aukningin skýrist að hluta til af 5,5% aukningu í áfengissölu það sem af er ári en þar gætir áhrifa af aukinni sölu í júnímánuði vegna Evrópumótsins í knattspyrnu. Hún skýrist þó fyrst og fremst af kerfisbreytingu á skattlagningu áfengis í byrjun árs en þá var gjaldið hækkað samhliða lækkun virðisaukaskatts.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK