Skiptir sköpum fyrir kvenfrumkvöðla

„Það var sagt við okkur að þessi hugmynd myndi aldrei …
„Það var sagt við okkur að þessi hugmynd myndi aldrei virka, að það væri ekki hægt að setja kjúklingana út hér á landi og að þetta yrði bara tímasóun,“ segir Margrét en Litla gula hænan fagnaði tveggja ára afmæli sínu í sumar. Hún segir Svanna hafa gagnast sér gríðarlega vel í undirbúningsferli að rekstrinum og fyrstu mánuðina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svanni - lánatryggingasjóður kvenna hefur verið starfandi síðan 2011 en meginmarkmið hans er að veita lán og lánatryggingar til fyrirtækja í eigu kvenna og þar með auka aðgengi þeirra að lánsfé.

Alls hafa borist 159 umsóknir í sjóðinn frá því að hann var endurvakinn árið 2011 en hann var fyrst starfandi frá 1998-2003. Af þeim hafa 20 umsóknir verið samþykktar. Áframhaldandi starfsemi sjóðsins var nýlega tryggð til ársloka 2018 en sjóðurinn er í eigu velferðarráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. 

Sérstaða Svanna stendur að mestu leyti í því að hann er aðeins fyrir fyrirtæki í eigu kvenna og ekki þarf að leggja fram veð til að fá lán þar sem um er að ræða lán með lánatryggingu. Sjóðurinn tekur þá helmings áhættu á móti Landsbankanum sem starfar í samstarfi við Svanna.

Ásdís Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Svanna.
Ásdís Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Svanna. Aðsend mynd

Virðist erfiðara fyrir konur að fá lánafyrirgreiðslu

Að sögn Ásdísar Guðmundsdóttur, sérfræðings hjá Svanna, er sjóðurinn aðallega að lána í verkefni sem tengjast markaðskostnaði og vöruþróun. Þá þarf hvert fyrirtæki að sýna fram á að það ráði við að endurgreiða lánið.

Lánsfjárhæðir geta ekki vera undir tveimur milljónum króna og að jafnaði skal ekki afgreiða lán yfir 10 milljónir króna en stjórn er þó heimilt að gera  undantekningar með hliðsjón af eðli og tegund umsókna.

Aðspurð hvort að það sé þörf á sjóð eins og Svanna, sem veitir aðeins lánatryggingar til fyrirtækja í eigu kvenna segir Ásdís að það virðist vera að það sé oft erfitt fyrir konur, sem eru í mörgum tilfellum litlir frumkvöðlar í byrjun, að fá lán. „Hugmyndirnar þurfa oft að vera svo stórar til að einhver taki mark á þeim. Við kjósum frekar að aðstoða minni verkefni, það er minni áhætta fyrir okkur og fyrir fyrirtækin þar sem það þarf ekki að veðsetja hús eða aðrar eignir. Við leggjum þó áherslu á að verkefnin sem sótt er um lán fyrir, séu arðbær og að í þeim sé einhverskonar nýsköpun þó að það sé ekki skilyrði,“ segir Ásdís. 

„Auðvitað væri gott að hafa svona lánamöguleika fyrir alla frumkvöðla en við erum ennþá í þeirri stöðu að konur virðast  eiga erfiðara með að fá lánafyrirgreiðslu.“

Sjóðurinn hefur til umráða í kringum 70 milljónir til ársins 2018 og segir Ásdís hann gera miklar kröfur til þeirra sem sækja um þar sem umsækjendur þurfa að vera með fullbúna viðskiptaáætlun með nákvæmum fjárhagsupplýsingum og endurgreiðsluáætlun.

Samkvæmt ákvörðun stjórnar eru tvær úthlutanir lánatrygginga á ári, að vori og að hausti en hægt er að senda inn umsóknir árið um kring á heimasíðu sjóðsins.  Næsti umsóknarfrestur er í þann 7. nóvember næstkomandi.

Takmörkuð áhætta gerir gæfumuninn

„Þessi stuðningur gagnaðist okkur alveg rosalega vel,“ segir Margrét Gunnarsdóttir, einn eigandi kjúklingabúsins Litlu gulu hænunnar sem fékk lánatryggingu hjá Svanna við upphaf rekstursins árið 2014. „Við gáfum okkur mikinn tíma í undirbúning þar sem það er margt sem maður þarf að setja sig inn í áður en maður heldur af stað í svona framleiðslu.“

Litla gula hænan stundar landbúnað þar sem velferð kjúklinganna er höfð að leiðarljósi í gegnum allt framleiðsluferlið og er fyrirtækið í eigu þriggja kvenna.  Meðal áherslna búsins er að veita kjúklingunum mikið pláss til að athafna sig og aðgang að útisvæði þegar veður leyfir.

„Það var sagt við okkur að þessi hugmynd myndi aldrei virka, að það væri ekki hægt að setja kjúklingana út hér á landi og að þetta yrði bara tímasóun,“ segir Margrét en Litla gula hænan fagnaði tveggja ára afmæli sínu í sumar. Hún segir Svanna hafa gagnast sér gríðarlega vel í undirbúningsferli að rekstrinum og fyrstu mánuðina.

Aðspurð um mikilvægi Svanna segir hún hann sér koma sér vel vegna þeirrar takmörkuðu áhættu sem fylgir. „Það eru margar konur með góðar hugmyndir en myndu kannski ekki kýla á hana því henni fylgir of mikil áhætta eða þeim vantar smá fjárhagslega hjálp til að framkvæmda hana,“ segir Margrét.

Eins og fyrr segir varð Litla gula hænan tveggja ára í sumar og segir Margrét reksturinn ganga mjög vel. „Við fengum rosalega góðar móttökur þegar við komum með þetta á markað.“

Margrét segir að nú sé í skoðun að búið stækki við sig og að það gæti vel verið að fyrirtæki leiti aftur eftir stuðningi frá Svanna.

Kjúklingarnir hjá Litlu gulu hænunni fá að fara út þegar …
Kjúklingarnir hjá Litlu gulu hænunni fá að fara út þegar veður leyfir. Af Facebooksíðu Litlu gulu hænunnar

Forsenda fyrir áframhaldandi framleiðslu

Fyrirtækið geoSilica fékk lánafyrirgreiðslu frá Svanna á síðasta ári og voru peningar nýttir í að kaupa stærri búnað og stækka við framleiðsluna. Að sögn framkvæmdastýru og stofnanda geoSilica, Fida Abu Libdeh, var það mjög hentugt fyrir fyrirtækið að geta sleppt við að taka lán gegn veði.

geoSilica hefur það markmið að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur, úr jarðhitavatni jarðvarmavirkjana á Íslandi, til að stuðla að bættri heilsu fólks. „Þessi aðstoð frá Svanna var í raun forsenda þess að við gátum haldið framleiðslunni áfram,“ segir Fida í samtali við mbl.is.

Hún segir reksturinn ganga vel og sér ekki fram á vandamál við að greiða skuldina til baka. „Þau hjá Svanna eru mjög sveigjanleg með greiðslugetu og það eru engar þungar greiðslur sem trufla starfsemina. Við bara settum upp hvernig við gætum borgað þetta og eigum mjög gott samkomulag við sjóðinn.“

Fida Abu Libdeh, framkvæmdastýra og stofnandi geoSilica.
Fida Abu Libdeh, framkvæmdastýra og stofnandi geoSilica. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK