Sterkari forsendur með hverjum deginum

Hugmyndir að útliti á lestarstöðvum sem birtist í skýrslu Fluglestarinnar …
Hugmyndir að útliti á lestarstöðvum sem birtist í skýrslu Fluglestarinnar 2014. Úr lokaverkefni Björns Reynissonar í arkitektúr við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn vorið 2014. Úr skýrslu Fluglestarinnar

Áætlað er að það taki hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur 15-18 mínútur frá flugvellinum að BSÍ en fimmtán mínútur verða á milli ferða. Hægt verður að ferja 2400 farþega á klukkustund. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Kjartans Eiríkssonar, stjórnarformanns Fluglestarinnar, um áætlanir um  hraðlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur á ráðstefnunni Flutningslandið Ísland sem haldin var í Hörpu í dag.

Verkefni er nú að færast af undirbúningsstigi yfir á skipulagsstig. Búið er að koma á fót þróunarfélagi í tengslum við framkvæmdina og þá er gerð samstarfssamninga við sveitarfélögin á Suðurnesjunum lokið. 2017-2019 er stefnt að því að leggja lokahönd á skipulag og forhönnun ásamt mati á umhverfisáhrif og fjármögnun. Eiga framkvæmdir að hefjast árið 2020.

Kjartan á ráðstefnunni í morgun ásamt Gylfa Sigufússyni, forstjóra Eimskips.
Kjartan á ráðstefnunni í morgun ásamt Gylfa Sigufússyni, forstjóra Eimskips. mbl.is/Árni Sæberg

„Er ekki of mikill snjór?“

Í erindi sínu sagði Kjartan fluglestina ekki aðeins mikilvæg fyrir ferðaþjónustna heldur einnig fyrir atvinnulíf og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu en lestin mun vera kölluð Lava Express.  Sagði hann að áætlanir félagsins byggðu á því að flugvöllurinn héldi áfram að vaxa með sama hætti næstu árin.

Nefndi hann hversu mikla þýðingu samgöngumannvirki hafa bæði fyrir mannlíf og efnahagslíf og að margar borgir hefðu þróast í kringum þau. Sagði Kjartan mikilvægt að íslendingar myndu leyfa sér að trúa á framhaldið og hugsa stórt.

Ein spurning sem Kjartan sagðist gjarnan fá í tengslum við hraðlestina er hvort að nógu veðursælt sé á svæðinu fyrir lagningu lestar. „Fólk spyr mig ‚Er þetta hægt? Er ekki of mikill vindur? Of mikill snjór?‘,“ sagði Kjartan og benti á að það Reykjanesskaginn væri mjög snjólétt og slétt svæði.

Óháð aðkomu ríkisins

Að sögn Kjartans mun lestin fara 49 kílómetra leið, þar af 14 kílómetra í göngum. Um er að ræða tvöfalda teina frá Keflavíkurflugvelli til Hafnarfjarðar og taka göngin við við Straumsvík. Þau liggja á 50-70 metra dýpi, mest í svokölluðu Reykjavíkurgrágrýti. Áfangastaðurinn er síðan væntanleg samgöngumiðstöð sem borgin hefur skipulagt á BSÍ. Meðalhraði lestarinnar er 180 km/klst en hámarkshraði 250 km/klst.

Þá er verið að skoða að hafa stoppistöð á milli flugvallarins og BSÍ, mögulega í Smárahverfi Kópavogs, við Vífilsstaða eða í Hafnarfirði.

Leiðin er 49 km löng.
Leiðin er 49 km löng.

Um er að ræða einkaframkvæmd sem er óháð aðkomu ríkisins varðandi fjárfestingu. Horft er fram á það að kostnaðurinn verði um 758 milljónir evra eða rétt í kringum 100 milljarða íslenskra króna. Að sögn Kjartans er þegar mikill áhugi fyrir verkefninu hjá fjármögnunaraðilum erlendis frá og standa viðræður við nokkra yfir.

„Menn eru mjög áhugasamir um verkefnið og horfa á það að það sé mikil aukning framundan í ferðaþjónustunni hér á landi og tækifæri til vaxtar í efnahagslífinu,“ sagði Kjartan.

4,5 milljónir seldra ferða fyrsta árið

Farþegafjöldi lestarinnar mun skiptast í nokkra hópa, þ.e. erlenda ferðamenn, Íslendinga, tengifarþega og aðra. „Við gerum ekki ráð fyrir stóru hlutfalli tengifarþega en sjáum fyrir okkur að ef þeir eru að stoppa í nokkra tíma að þeir skoði möguleikann á því að taka strauið í bæinn. Það er líklegra að það gerist ef það er lest,“ sagði Kjartan. Einnig er gert ráð fyrir lestarfarþegum sem eru ekki flugfarþegar, eins og t.d. starfsfólk á leið til og frá vinnu og námsmenn.

Það er mat Kjartans að lestin muni  virka mjög jákvætt fyrir samfélagþróun hér á landi og að samfélagsáhrifin verði gríðarlega sterk á margan hátt.

Stefnt er að því að miðaverð á stökum miða verði 26 evrur eða um 3.300 krónur og er það sambærilegt við miðaverð í flugvallalestir í löndunum í kringum okkur. Benti Kjartan á að stakur miði í Flytoget í Osló kosti 19 evrur, 30 evrur í Arlanda Express í Svíþjóð og Heathrow Express í Lundúnum og 26 evrur í Stansted express. Nefndi Kjartan að  þeir sem nýttu lestina reglulega gætu fengið ódýrari ferðir.

Gert er ráð fyrir því að á fyrsta árinu verði tæplega 4,5 milljónir seldra ferða og rekstarkostnaðurinn á fyrsta árinu 44 milljónir evra.

Aldrei komið bakslag

Ítrekaði Kjartan að rekstrarforsendurnar væru góðar. „Það hafa margir rýnt í þær og við höfum fengið staðfestingu á því að þær séu mjög raunhæfar,“ sagði hann en á fyrsta rekstarárinu er gert ráð fyrir tekjum upp á 97 milljónir evra.

„Það er klárlega þannig að þetta verkefni er raunhæft,“ sagði Kjartan. „Grundvöllurinn verður sterkari með hverju árinu.“

Bætti hann við að þeir sem stæðu á bakvið verkefnið væri mjög bjartsýnir. „Það hafa engar forsendur komið upp sem urðu eitthvað bakslag heldur þvert í móti verða forsendurnar alltaf sterkari og sterkari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK