Verði stærsti vinnustaður landsins

Svona gæti flugvöllurinn litið út 2040.
Svona gæti flugvöllurinn litið út 2040. Úr skýrslu Isavia

Gert er ráð fyrir því að rúmlega 16.000 manns muni starfa á Keflavíkurflugvelli árið 2040 og að 20 milljónir farþega fari þar í gegn sama ár. Miðað við farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir því að störfum á flugvellinum muni fjölga um 1.700 á þessu ári og 1.100 á því næsta. Þá  gert ráð fyrir að störfum fjölgi að meðaltali um 400-500 á ári til ársins 2040 en þá er stefnt að því að flugstöðin verði stærsti vinnustaður landsins. 

Þetta kemur fram í skýrslu Isavia og ráðgjafafyrirtækisins Aton þar sem lagt er mat á það hvaða þýðingu uppbygging Keflavíkurflugvallar hefur til framtíðar. Í skýrslunni, sem ber heitið Keflavíkurflugvöllur - Stóriðja í stöðugum vexti: Hvaða þýðingu hefur uppbygging Keflavíkurflugvallar til framtíðar? og í henni eru dregnar saman upplýsingar um áætlanir og spár er varða framtíðaruppbygginu á Keflavíkurflugvelli. Einn höfundur skýrslunnar Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson kynnti hluta hennar á fundi Isavia á Nordica-hóteli í morgun. 

Huginn kynnir hluta skýrslunnar í morgunn.
Huginn kynnir hluta skýrslunnar í morgunn. Ljósmynd/Isavia

Huginn benti á að miðað við gögn frá Alþjóðasamtökum evrópskra flugvalla er Ísland önnur mesta flugþjóð Evrópu ef horft er til beinna starfa á flugvöllum sem hlutfall af fjölda íbúa.

Í skýrslunni er jafnframt bent á að í ljósi þess að núverandi atvinnuleysi er lítið, bæði á Reykjanesi og landinu öllu, er ljóst að sækja verður vinnuafl út fyrir landsteinana í stóran hluta þessara nýju starfa sem bætast við á ári hverju á Keflavíkurflugvelli en hann er í dag einn stærsti vinnustaður landsins.

16 milljarðar í framkvæmdir á þessu ári

Við kynningu skýrslunnar sagði  Elín Árnadóttir aðstoðarforstjóri Isavia að Keflavíkurflugvöllur væri stóra gáttin inn í landið og því væri mikilvægt að vandað væri til verka við þau stækkunaráform sem nauðsynleg eru til þess að flugvöllurinn geti staðið undir vaxandi farþegafjölda á komandi árum. Með gerð skýrslunnar vildi Isavia kveikja umræðu um uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og sýna ábyrgð í að draga fram bæði þá kosti og áskoranir áskoranir sem henni fylgja að sögn Elínar.

Í ár stefnir í að heildarfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll hafi vaxið um 37% á milli ára og á háönninni flugu 25 flugfélög til Keflavíkur, miðað við 11 árið 2010. Á allra næstu árum er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti, en þó ekki jafnmiklum hlutfallslega og undanfarin ár. Eftir árið 2025 er spáð um 3% vexti í farþegafjölda á ári hverju, og eru þar taldir bæði þeir sem koma inn í landið og þeir sem millilenda hér á landi á leið sinni til annarra lands.

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia.
Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia.

En til þess að þessi framtíðarsýn og spár um vöxt ferðaþjónustunnar megi rætast þarf að vera aðstaða til þess að taka á móti ferðamönnunum. Það er því ljóst að fara verður í umfangsmiklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þegar hefur töluvert verið gert og síðustu fimm ár hefur Isavia sett tæpa 37 milljarða króna í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, þar af um 16 milljarða á þessu ári.

Sagði Elín að flugstöðin væri 10.000 fermetrum stærri núna en í fyrra en ítrekaði að uppbyggingin þyrfti að vera sjálfbær og í takt við stefnu stjórnvalda.  „Það getur verið lítið mál að vaxa en að ná arðsemi til lengri tíma er allt annað mál,“ sagði Elín.

Lagði Elín áherslu á það að uppbygging flugvallarins yrði gerð í sátt við samfélagið og að skoða þyrfti áhrif vaxtarins á það. Benti hún á að með auknum fjölda farþega væri meira álag á heilbrigðiskerfið, löggæslu,  eftirlitsaðila og náttúruvernd. „Þetta þarf allt að gerast í sátt við íbúa landsins,“ sagði Elín.

Starfsfólk Isavia tók á móti fimm milljónustu farþegum ársins í …
Starfsfólk Isavia tók á móti fimm milljónustu farþegum ársins í síðasta mánuði. Ljósmynd/Isavia

Verði þróaður í samgöngumiðstöð

Sagði hún beinar flugtengingar gríðarlega mikilvægar fyrir flugvöllinn og samfélagið, bæði efnahagslega en einnig mannlega þar sem með því fleiri beini tengingum er því auðveldara fyrir Íslendinga að stunda viðskipti á erlendri grundu og afla sér þekkingar erlendis.

Ítrekaði hún mikilvægi tengiflugs og benti á að Keflavíkurflugvöllur væri fimmti stærsti flugvöllur Norðurlandanna með flestar tengingar við Norður-Ameríku en flugvöllurinn býður upp á beint flug til 19 áfangastaða í Norður-Ameríku og 56 í Evrópu vikulega.

„Lega landsins milli heimsálfa býður upp á möguleika til að þróa flugvöllinn sem samgöngumiðstöð og þar eigum við mikið inni,“ sagði Elín. „Tækifærin eru til staðar en hvernig viljum við nýta þau?“

Miklir möguleikar í tengiflugi

 Sagði hún að Isavia væri að byggja tengiflugvöll sem býr til fullt af nýjum tækifærum, ekki bara fyrir flugfélögin heldur einnig fyrir alla þjónustu á vellinum.

Benti hún á að á síðasta ári hafi 61 milljónir farþega farið frá Norður-Ameríku til Evrópu. Síðustu fimm árin hefur þessi markaður vaxið um 22% eftir þriggja ára tímabil með 15% fækkun. Ítrekaði hún að fjölgun tengifarþega skapi tækifæri fyrir nærsamfélag vallarins og þar sem þeir komi ekki inn í landið hafi þeir ekki áhrif á þá umræðu að ferðamönnum fjölgi of ört.

Í skýrslunni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að árið 2040 verði tengifarþegar 43% af öllum farþegum á Keflavíkurflugvelli. Á þessu ári er það hlutfall 33%.

Með aukinni áherslu á tengiflug næst betri nýting fjárfestinga á Keflavíkurflugvelli. Fjölgunin eykur tekjur Isavia og eiganda þess, ríkisins án þess að setja meira álag á innviði ferðaþjónustunnar. Tengifarþegar skapa þó aðeins 3% færri bein störf en sami fjöldi komu- og brottfarafarþega gera.

Með aukinni áherslu á tengiflug næst betri nýting fjárfestinga á …
Með aukinni áherslu á tengiflug næst betri nýting fjárfestinga á Keflavíkurflugvelli að mati aðstoðarforstjóra Isavia. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK