Árið einkenndist af ólgu á vinnumarkaði

Alls voru 26 mál til meðferðar hjá embættinu á þessu …
Alls voru 26 mál til meðferðar hjá embættinu á þessu ári en þegartekst að semja eru iðulega bakaðar vöfflur til að fagna lokum viðræðna. mbl.is/Eggert

Það er mikilvægt að við sem höfum það hlutverk að stuðla að lausn ágreinings á vinnumarkaði veltum fyrir okkur hvort kerfið sem við höfum búið til utan um það verkefni, sé nógu skilvirkt. Ég tel að við getum gert betur og myndi vilja að við gerðum árangursmælingar og markvissan samanburð við önnur lönd og settum okkur skýr markmið til að ná bættum árangri,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, en hún tók við embættinu um mitt ár 2015 og hefur síðan unnið að því að greina tækifæri til umbóta í starfsemi embættisins.

„Það er til dæmis alltof sjaldgæft að nýr kjarasamningur taki við af kjarasamningi, áður en samningstíminn rennur út,“ bætir hún við en hið eðlilega ástand sé að ekki komi til átaka á vinnumarkaði. Of algengt sé hér á landi að gripið sé til neyðarúrræða til að stöðva kjaradeilur, hvort sem það er vinnustöðvun eða lagasetning. „Þarna erum við komin út á neyðarbraut kerfisins og það er ekki gott að mál fari í auknum mæli þangað. Við eigum að leysa málin fyrr.“

Alls 26 mál til meðferðar

Árið 2016 einkenndist af ólgu á vinnumarkaði, ekki síður en fyrri ár, að mati Bryndísar. Málafjöldi hjá embættinu var þó ekki hinn sami og árin á undan enda fjölmargir kjarasamningar gerðir árið 2015 með gildistíma út árið 2018 og inn á árið 2019. Alls voru 26 mál til meðferðar embættisins á þessu ári en ekki tókst að ljúka níu þeirra fyrir árslok og verður unnið að þeim áfram hjá ríkissáttasemjara á næsta ári. Til samanburðar voru sáttamál 60 talsins árið 2015 og 55 árið 2014.

Auk fimm kjaradeilna félaga sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) eru þetta mál Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Samninganefndar sveitarfélaga, mál Flugfreyjufélags Íslands og SA vegna Flugfélags Íslands, deila Félags skipstjórnarmanna og Félags vélstjóra og málmtæknimanna(VM) á hvalaskoðunarbátum við SA og deila Sjómannafélags Íslands við Eimskip vegna Faroe Ship.

Þá kom til vinnustöðvana í nokkrum málum á árinu og í einu þeirra, deilu verkalýðsfélaganna í Straumsvík og Rio Tinto Alcan lagði ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu til lausnar málinu en því úrræði hafði ekki verið beitt frá árinu 2008. Einnig voru vinnustöðvanir í deilu Félags flugumferðastjóra við ríkið ásamt yfirstandandi allsherjarverkfalli sjómanna. „Sjómenn hafa tvífellt kjarasamning og staðan því snúin þar, en sama á við í deilu Flugfreyjufélags Íslands og SA vegna Flugfélags Íslands, sem er á mínu borði í dag,“ segir Bryndís. Þá hafi mikill tími embættisins farið í Salek-samstarfið um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á árinu en koma verði í ljós hvort framhald verði á því á næsta ári

Taki höndum saman

Reynt hefur mjög á þanþol kerfisins hin síðustu ár og það endurspegli ólguna á vinnumarkaði. Það sé því sameiginlegt verkefni aðila á vinnumarkaði, stjórnvalda og ríkissáttasemjara að gera það skilvirkara.

„Verkfallsprósentan og hlutfall sáttamála þar sem boðað er til vinnustöðvana er hátt og má nefna sem dæmi að boðuð voru verkföll í 72% þeirra deilumála sem komu til meðferðar sáttasemjara á árinu 2015 og til vinnustöðvana kom í um 30% þeirra,“ segir Bryndís en þá hafi málafjöldi fyrir Félagsdómi einnig verið í sögulegu hámarki árið 2015 eða yfir 20 úrlausnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK