Sammála um að grípa þurfi til ráðstafana

SA og ASÍ eru sammála um að grípa þurfi til …
SA og ASÍ eru sammála um að grípa þurfi til ráðstafana vegna erlendra þjónustufyrirtækja sem sendi starfsmenn hingað til bygginga- og mannvirkjagerðar. ASÍ telur hins vegar að skoða megi slíka keðjuábyrgð víðar á vinnumarkaði, en SA telja að ekki þurfi að ganga svo langt. Eggert Jóhannesson

ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru sammála um að grípa þurfi til ráðstafana vegna útsendra starfsmanna sem erlend þjónustufyrirtæki sendi hingað til lands til að vinna við bygginga- og mannvirkjagerð. Aftur á móti eru þau ekki alveg sammála um hversu langt eigi að ganga í að fyrirbyggja kjarasamningabrot almennt á markaði og hver ábyrgð yfirverktaka eigi að vera.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem hún leggur til að stofnaður verði starfshópur um keðjuábyrgð. Gengur keðjuábyrgð út á að aðalverktaki beri ábyrgð á skuldbindingum undirverktaka sem varða m.a. launagreiðslur til starfsfólks og að staðið sé við kjarasamninga. Segir í tillögunni að „starf hópsins miði að því að verkkaupar og aðalverktakar beri fjárhagslega ábyrgð á vanefndum undirverktaka á greiðslu opinberra gjalda, kjarasamningsbundinna launa og launatengdra gjalda, trygginga og annarra samningsbundinna greiðslna til launafólks og vegna þess og taki lagabreytingarnar til allra atvinnugreina.“

SA segir víðtæka ábyrgð dýra fyrir atvinnulífið

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, sem sendu inn sameiginlega umsögn, kemur fram að „svo víðtæk ábyrgð á launum starfsmanna verktaka verði mjög skaðleg fyrir atvinnulífið og gengur hún einnig þvert á þá meginreglu samningaréttar að kröfur innan samninga verði einungis byggðar á beinu samningssambandi.“. Segir að slíkt fyrirkomulag valdi því að leggja þurfi fram dýrar tryggingar, en varðandi vanefndir geti starfsmenn í dag leitað til Ábyrgðasjóðs launa.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA.
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við mbl.is að samtökin séu sammála því að gera þurfi eitthvað varðandi það vandamál sem hafi komið ítrekað upp í tengslum við erlend fyrirtæki sem aðallega starfi í bygginga- og mannvirkjagerð og sendi hingað starfsmenn sem svo sé brotið á. Aftur á móti telji samtökin tillögu Lilju ganga yfir allan vinnumarkaðinn og það telji þeir gengið allt of langt.

„Það er ástæðulaust að fara með sleggju á vinnumarkaðinn þegar það nægir að fínstilla ákveðin atriði,“ segir Ragnar og bendir á að undanfarið hafi ASÍ og Samtök atvinnulífsins unnið í þessum málum og þær hugmyndir sem liggi þar fyrir nái mun skemur en lagt sé upp með að starfshópurinn skoði.

„Markmiðið að þetta nái um alla starfsemi“

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri og deildarstjóri félagsmáladeildar ASÍ, segir í samtali við mbl.is að nú sé verið að skoða þessa aðsendu þjónustu, þ.e. erlenda starfsmenn sem komi hingað á vegum erlendra þjónustufyrirtækja, og að mikilvægast sé að breyta löggjöfinni þar. Aftur á móti muni ASÍ skila inn umsögn í dag þar sem tekið er jákvætt í tillögu Lilju og segir hann að sjálfsagt sé að skipa starfshóp til að skoða þessi mál í stærra samhengi, líka í tengslum við íslenska verktaka og íslenska starfsmenn þeirra. „Það er klárlega markmiðið að þetta nái um alla starfsemi,“ segir hann, en bætir við að fyrsta skrefið sé að ná utan um erlendu fyrirtækin þar sem mesta vandamálið sé í dag.

Halldór Grönvold hjá ASÍ.
Halldór Grönvold hjá ASÍ. Styrmir Kári

Þá segir Halldór að ASÍ hafi með Samtökum atvinnulífsins skoðað að fella slíka keðjuábyrgð inn í lög um opinber innkaup. Þetta sé þó allt vinna sem þingið þurfi að taka afstöðu til þegar málið komi til afgreiðslu þar.

Skattrannsóknarstjóri segir ásetning verktaka oft skýran

Í umsögn skattrannsóknarstjóra við tillöguna er því lýst að verktakar hafi í vaxandi mæli gert ráðstafanir til að komast hjá skattgreiðslum og velti ábyrgðinni yfir á undirverktaka sína.

„Reynsla skattrannsóknarstjóra sýnir að verktakar hafa í vaxandi mæli gert ráðstafanir til að komast hjá lögbundnum skattgreiðslum til hins opinbera með því að leitast við að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka sína. Oft er um keðju undirverktaka að ræða þar sem ábyrgð á skattgreiðslum er færð niður með keðjunni með þeim afleiðingum að skil á skattgreiðslum verða í reynd engin eða takmörkuð. Á tíðum tengjast þessari háttsemi annars konar brot, s.s. greiðsla svartra launa og útgáfa tilhæfulausra reikninga. Virðist margt benda til að þetta sé nú gert með skýrari ásetningi en áður hefur sést. Á tíðum er um verulega háar undandregnar fjárhæðir að ræða,“ segir í umsögn skattrannsóknarstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK