Merkja fyrsta hnúfubakinn eftir fjögurra ára undirbúning

Á þessari tölvubreyttu mynd má sjá hvernig tækið er fest …
Á þessari tölvubreyttu mynd má sjá hvernig tækið er fest við sporðinn. Mynd/Lífríki

Fyrirtækið Lífríki stefnir að því að festa sérútbúið tæki við sporðinn á Hnúfubaki í næstu viku eftir fjögurra ára undirbúning. Þetta verður fyrsti hvalurinn sem fyrirtækið merkir en verkefnið gæti haft margvíslegan ábata í för með sér. 

Í síðustu viku hélt teymi á vegum Lífríkis og hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar út á sjó í Eyjafirði og Skjálfanda. Þar var aflað þekkingar um aðferðafræðina og meðal annars reynt að komast að því hvernig best væri að nálgast hnúfubakinn til þess að styggja hann ekki.

Magnús Jónatansson hefur umsjón með merkingunum fyrir Lífríki. Hann segir að verkefnið, sem hefur verið í undirbúningi í fjögur ár, sé einstakt á heimsvísu.

Lífríki hefur fengið leyfi frá Matvælastofnun og Hafrannsóknarstofnun til þess að ráðast í merkingar á hvölum. Tækið er fest með nokkurs konar belti við sporðinn og sendir upplýsingar um staðsetningu, hitastig og seltustig til gervitungls í hvert skipti sem sporðurinn kemur upp á yfirborðið. Hnúfubakurinn varð fyrir vali Lífríkis vegna þess að hann er sérlega langförull. 

Dýrmætar upplýsingar

Að sögn Magnúsar er ábatinn þríþættur. Í fyrsta lagi gefa upplýsingar um staðsetningu betri mynd af hegðunarmynstri hvala. Í öðru lagi geta upplýsingar um hitastig og seltustig betrumbætt líkön um veðurfar og loftslagsbreytingar. Í þriðja lagi hefur Lífríki látið útbúa lærdómsríkan tölvuleik fyrir börn sem gerir þeim kleift að fylgjast með tilteknum hval í símanum en lagt er upp með að kennsluefni tengt tölvuleiknum verði dreift í skólum. Því er ætlað að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á úthöfin. 

Mikill áhugi úti í heimi

Magnús segir að í næstu viku verði prófað að festa tækið á einn hnúfubak en að það losni sjálfkrafa af honum eftir tvær eða þrjár vikur. Á næsta ári verður hafist handa á ný og er fyrirhugað að merkja 5-8 hvali á ári sem beri tækin í hálft eða eitt ár. Magnús segir mikinn áhuga fyrir verkefninu úti í heimi en þessa dagana er unnið að því að kynna það í Brasilíu, Mósambík, Ástralíu og Japan svo að þar megi einnig hefja merkingar á næsta ári. 

Þá hefur verið gengið úr skugga um að tækið hafi engin áhrif á velferð eða hegðun hvala, það sé þeim ekki sársaukafullt og trufli ekki sundfimi. Þetta hafi komið í ljós eftir átta mánaða undirbúning og tilraunir á háhyrningum í sædýragarðinum Loro á Tenerife. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK