Hvað verður um Snapchat?

Bobby Murphy, yfirmaður tæknimála hjá Snapchat og Evan Spiegel, stofnandi …
Bobby Murphy, yfirmaður tæknimála hjá Snapchat og Evan Spiegel, stofnandi og forstjóri fyrirtækisins við skráningu félagsins á markað í mars. AFP

Bandaríska félagið Snap Inc., sem á samfélagsmiðilinn Snapchat tapaði 443 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ársfjórðungi og fjórfaldast tapið á milli ára. Talið er nokkuð ljóst að stærsta ógn Snapchat sé samkeppnisaðilinn Instagram sem fyrir rétt rúmu ári kynnti Instagram Stories þar sem hermt er eftir grunnhugmynd Snapchat um svokallaðar „sögur“ eða „stories“.

Þá virðist sem svokallaðir áhrifavaldar, og auglýsendur á sama tíma, séu farnir að færa sig yfir á Instagram Stories og frá Snapchat sem hefur mikil áhrif á tekjur fyrirtækisins.

Segir Instagram Stories notendavænna

María Hólmgrímsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og umboðsskrifstofunnar Eylenda sem starfar með áhrifavöldum segir marga vera farna að færa sig yfir á Instagram Stories og nota það frekar en Snapchat. Þó bætir hún við að Snapchat sé enn mjög vinsæll miðill á Íslandi.

„En núna er þetta svolítið að þróast yfir í áttina að Instagram. Fólk er að fara yfir,“ segir María í samtali við mbl.is. Hún segir Instagram Stories notendavænna fyrir áhrifavalda og fylgjendur. „Þar er t.d. hægt að merkja fyrirtæki inn í umfjöllun sem var ekki hægt hjá Snapchat þar til nýlega. Instagram er líka bara mjög skemmtilegur miðill sem hefur upp á mikið á bjóða.“

En er framtíðin í Instagram frekar en Snapchat? „Já eins og staðan er núna myndi ég segja það. En það er allt rosalega hratt að breytast í þessum samfélagsmiðlaheimi.“

Jón Bragi Gísla­son stofn­andi og fram­kvæmda­stjóri markaðsfyrirtækisins Ghostlamp sem vinnur með áhrifavöldum tekur í sama streng og segir að Instagram Stories sé jafnvel orðið vinsælla en Snapchat. „En það er mikilvægt að áhrifavaldar séu á mörgum miðlum og við reynum að styðja alla miðla. Trikkið er að vera virkur út um allt og okkar áhrifavaldar gera það. Sumir eru þó sterkari á ákveðnum miðlum og minna á öðrum.“

Að mati Jóns er Snapchat skemmtilegra en Instagram en bætir við að Instagram er í eigu Facebook sem er risastórt batterí. Hann telur að Snapchat muni að einhverju leyti breyta sýn sinni á miðilinn og jafnvel gefa sig meira út fyrir að vera myndavélafyrirtæki heldur en samfélagsmiðill. „Það er spurning hvað þau gera í framtíðinni. Ég skýt á að þau muni gera meira eins og Spectacles gleraugun sem þau settu í sölu á árinu.“

Hann segir að tapið síðustu mánuði sé þó alvarlegt fyrir félagið. „Vandamálið við flesta svona samfélagsmiðla að þeir eru ekki með nógu sterkt tekjumódel og byggðir of mikið af utanaðkomandi fjármagni frá fjárfestum.“ Hann bendir á að þegar að Facebook hafi farið á hlutabréfamarkað hröpuðu bréfin í verði en í dag er fyrirtækið sterkt á markaðinum. „Sama gæti gerst fyrir Snapchat,“ segir Jón og bætir við að hann haldi að félagið muni spjara sig á markaðinum.

Íslenskir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum hafa verið að færa sig frá …
Íslenskir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum hafa verið að færa sig frá Snapchat yfir á Instagram Stories hægt og rólega. Skjáskot af eylenda.com

Töpuðu milljörðum á fyrsta ársfjórðungi

Fimm mánuðir eru síðan að Snap Inc. fór á hlutabréfamarkað í New York en þá var félagið talið ein skærasta stjarna tækniheimsins. Við skráninguna ruku bréfin upp um 44% en hafa lækkað töluvert síðan. 

Tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi ársins voru undir markmiðum og þar að auki tapaði félagið rúmum tveimur milljörðum Bandaríkjadölum. Uppgjör fyrsta ársfjórðungsins í maí varð stórfrétt í tækniheiminum og hefur framtíð félagsins og samfélagsmiðilsins Snapchat verið í umræðunni síðan.

Blaðamenn Vestanhafs virðast sammála um það að Instagram Stories sé helsta ástæðan á bakvið auknar auglýsingatekjur Instagram og á sama tíma lækkandi verð á hlutabréfum Snap Inc. Rúm ein milljón auglýsenda nota Instagram en um 700 milljónir Instagram aðganga eru virkir í hverjum mánuði.

Miklu fleiri notendur á Instagram

Það að áhrifavaldar séu farnir að færa sig frá Snapchat yfir á Instagram Stories sem er mjög alvarlegt mál fyrir Snapchat þar sem að það þýðir að auglýsendur missa frekar áhugann á því að nota samfélagsmiðilinn í markaðssetningu.  Instagram greindi frá því fyrr í mánuðinum að samkvæmt útreikningum þeirra eru notendur undir 25 ára aldri meira en 32 mínútur á dag á Instagram að meðaltali. Þeir sem eru 25 ára og eldri eru inn á samfélagsmiðlinum í meira en 24 mínútur á dag að meðaltali. Þegar það kemur að vörumerkjum notaði rúmur helmingur þeirra fyrirtækja sem eru á Instagram Instagram Stories í síðasta mánuði.

Til samanburðar þá greindi Snap frá því í maí að notendur væru að meðaltali í 30 mínútur á dag á Snapchat á fyrsta ársfjórðungi ársins og að meira en þrír milljarðar „snappa“ færu í gegnum miðilinn á dag. Þá greindi Instagram frá því fyrr í mánuðinum að smáforritið í heild hefði meira en 250 milljónir notenda miðað við 200 milljónir notenda í apríl. Snapchat greindi frá því í gær að notendur miðilsins væru orðnir 173 milljónir talsins miðað við 166 milljónir í maí.

Snap hefur átt erfitt uppdráttar á Wall Street.
Snap hefur átt erfitt uppdráttar á Wall Street. AFP

„Geta þau ekki verið frum­leg?“

Þegar að Instagram Stories var hleypt af stokkunum 2. ágúst á síðasta ári vakti það töluverða athygli enda um augljósa eftirlíkingu af Snapchat að ræða. Miðillinn var gagnrýndur fyrir að herma ítrekað eftir Snapchat og sagði til að mynda fyrirsætan Miranda Kerr í viðtali í febrúar að henni blöskraði hvernig Instagram hafi hermt eftir Snapchat. Kerr var þá unnusta Evan Spiegel, stofnanda Snapchat, en þau eru gift í dag.  

„Geta þau ekki verið frum­leg?“ spurði Kerr í viðtali við The Sunday Times fyrr á árinu. „Þurfa þeir að stela öll­um hug­mynd­um manns­ins míns?“

Ófrumleg eða ekki þá er það frekar augljóst að Instagram Stories hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á Instagram og eiganda þess, Facebook og slæm áhrif á Snapchat.

Miranda Kerr hefur harðlega gagnrýnt Instagram fyrir að herma eftir …
Miranda Kerr hefur harðlega gagnrýnt Instagram fyrir að herma eftir hugmyndum eiginmannsins. AFP

Birta 25% meira efni á Instagram Stories

Í janúar á þessu ári, fimm mánuðum eftir að Instagram Stories kom til sögunnar hafði áhorf á Snöpp áhrifavalda minnkað um að minnsta kosti 15% samkvæmt úttekt Tech Crunch og áhorf á hverja Snapchat sögu hafa minnkað að meðaltali um 40%. Þá voru áhrifavaldar farnir að birta 25% meira efni á Instagram Stories en Snapchat.

Þetta er allt frekar kaldhæðið því að árið 2013 hafnaði Spiegel tilboði Facebook í Snapchat upp á þrjá milljarða Bandaríkjadala sem vakti mjög mikla athygli. Facebook þarf allavega ekki að hafa miklar áhyggjur af hlutabréfum sínum en þau hækkuðu um 37% á síðasta ári og þáhafa auglýsingatekjur Facebook aukist um 24% síðustu tólf mánuði. Augljóst er að Zuckerberg hafi ákveðið að herja á Snapchat og svo virðist sem hann hafi unnið stríðið, allavega í bili.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook fékk ekki að kaupa Snapchat árið …
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook fékk ekki að kaupa Snapchat árið 2013. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK