Flugliðar sendir í launalaust leyfi

Ljósmynd/WOW air

Flugfreyjufélag Íslands hefur til skoðunar nokkur tilfelli þar sem flugliðar á tímabundnum samningum hjá flugfélaginu WOW air hafa verið sendir einhliða í launalaust leyfi. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að með þessum aðgerðum hafi verið hægt að gefa fleirum tækifæri til að vinna stóran hluta vetrar.

„Flugfreyjufélagið er með þessa samninga til skoðunar. Það var einhliða ákveðið að senda fólk á tímabundnum ráðningarsamningum í launalaust leyfi. Lögfræðingur félagsins hefur gert athugasemdir fyrir hönd félagsins en það hefur ekki verið brugðist við því,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. 

Málið snýr þannig, að sögn Berglindar, að gerðir eru þriggja mánaða samningar í senn þar sem gerð er krafa um launalaust leyfi. Berglind segir að ekki liggi fyrir um hversu marga sé að ræða þar sem félagið hafa einungis nokkur tilfelli til skoðunar en hún telur að heildarfjöldinn geti numið tugum. Þá segir hún að allur gangur sé á því hversu langt leyfið sé. 

„Við erum að skoða hvort þetta samrýmist lögum eða meginreglum vinnuréttar. Einhverjir eru byrjaðir að hefja töku þessara launalausu leyfa og eru réttindalausir á meðan að okkar mati.“

Kemur í stað uppsagna

Í svari Svanhvítar við fyrirspurn mbl.is kemur fram að rétt eins og hjá flestum evrópskum flugfélögum sé meira flug yfir sumarið en yfir veturinn. WOW air hafi brugðist við þessum árstíðabundnu sveiflum með því að skipta vinnu á milli flugliða yfir veturinn frekar en að segja upp stórum hópi flugliða. 

„WOW air er ekki undanskilið öðrum fyrirtækjum sem glíma við árstíðarbundinn rekstur að reyna eftir fremsta megni að hagræða þegar minna er að gera. Tekið skal fram að launalausu leyfin náðu ekki til fastráðinna flugliða, aðeins þeirra sem að höfðu verið ráðnir í sumarstarf en með þessum aðgerðum var hægt að gefa fleirum tækifæri til að vinna stóran hluta vetrar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK