Fá lítið til baka fyrir háa skatta

Skjöldur Pálmason (t.h.) ásamt Sigurði Viggóssyni stjórnarformanni.
Skjöldur Pálmason (t.h.) ásamt Sigurði Viggóssyni stjórnarformanni.

Eins og flest önnur fyrirtæki fékk fiskvinnslan og útgerðarfélagið Oddi hf. á Patreksfirði á sig mikinn skell í kreppunni. Á árunum 2004 til 2006 hafði félagið fjárfest töluvert í aflaheimildum og fjármagnað kaupin með lánum sem hækkuðu verulega við veikingu krónunnar. Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda, segir að stjórnendur og starfsmenn hafi gripið til allra þeirra ráðstafana sem völ var á og tókst á endanum að vinda ofan af vandanum. Á erfiðustu árum kreppunnar, rétt eins og á hverju einasta ári í hálfrar aldar sögu félagsins, hafi Oddi skilað rekstrarafgangi og staðan verið sæmileg undanfarin ár.

Fyrirtækið var stofnað árið 1967 og starfaði fyrst og fremst sem fiskvinnsla fram til ársins 1990 þegar Oddi hóf að gera út línubáta og keypti sínar fyrstu aflaheimildir. Skjöldur segir að línuveiðar hafi orðið fyrir valinu bæði vegna þess að góð línumið eru í nágrenni við Patreksfjörð, og eins vegna þess að fyrirtækið hefur lagt áherslu að þjónusta þá markaði sem vilja línuveiddan fisk. „Við höfum alltaf verið markaðsdrifið frekar en framleiðsludrifið fyrirtæki og því lagt okkur fram við að sinna þeim mörkuðum sem gera sérkröfur og geta borgað hæsta verðið fyrir fiskinn. Stjórnendur fyrirtækisins sáu að það yrði líklega farsælla að reyna að gera sem mest verðmæti úr hverju kílói sem kæmi á land, og gera gæðavöru fyrir syllumarkaði erlendis, frekar en að leggja áherslu á að veiða og vinna sem mest magn af fiski.“

Sveigjanleg framleiðsla

Skjöldur segir Odda líka hafa þá sérstöðu að vera, eitt fárra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, jafnvígt á þrjár helstu afurðaleiðir bolfisks: „Fyrst vorum við eingöngu í saltfiski, og er saltfiskvörumerki okkar þekkt sem gæðamerki. Síðan bættist ferskfiskvinnsla við fyrir um 20 árum og höfum við haldið frystingunni inni sömuleiðis. Mörg fyrirtæki sérhæfa sig aðeins í einu eða tvennu af þessu, og ekki mjög algengt að geta eftir atvikum hvort heldur saltað fiskinn, fryst hann eða selt ferskan,“ útskýrir Skjöldur. „Við lítum á þetta sem nokkurs konar sveiflujafnara og getum við hagað framleiðslunni eftir því sem gjaldmiðlar sveiflast og verð á ólíkum mörkuðum hækka eða lækka. Eftir Brexit drógum við okkur t.d. eins mikið og við gátum út úr Bretlandsmarkaði, þar sem við höfum einkum selt frosinn fisk, en jukum í staðinn viðskiptin með saltaðan fisk og ferskan á evrusvæðinu og í Bandaríkjunum. Þessi aðlögunarhæfni hefur hjálpað Odda að vera alltaf réttum megin við núllið.“

Hreyfing á starfsfólki

Oddi vinnur úr um það bil 5.000 tonnum af fiski á ári, gerir út tvo stóra línubáta og á að auki í viðskiptum við töluverðan fjölda smábáta, og þá einkum á sumrin. Ársstörfin hjá fyrirtækinu eru um 75 talsins og mikil reynsla hjá fyrirtækinu enda hafa margir starfsmenn unnið þar vel á þriðja áratug.

Síðustu misseri má greina að þrengt hefur að starfsemi Odda. Skjöldur nefnir að styrking krónunnar hafi valdið því að starfsmannavelta hefur aukist enda lækkar hlutur sjómannanna eftir því sem færri krónur fást fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum auk þess að tekjur fyrirtækisins í heild sinni hafa dregist mikið saman. „Það hefur líka verið mikil þensla í atvinnulífinu hér fyrir vestan með tilkomu fiskeldisins, og hefur það komið róti á fólkið enda mörg góð ný störf í boði.“

Þyngsta byrðin af öllum er samt þau háu gjöld sem félagið þarf að greiða ríkissjóði. Skjöldur bendir á að launatengd gjöld séu mjög íþyngjandi, sem og olíu- og kolefnisskattar, og að á þessu fiskveiði ári þurfi Oddi að greiða fjórfalt hærri veiðigjöld en árið á undan. „Nú er svo komið að veiðigjöldin eru næststærsti útgjaldaliðurinn á eftir launakostnaði og erum við að greiða sem nemur 12-15% af aflaverðmætinu beint í veiðigjöld. Það er verulegur baggi fyrir okkur að þurfa um hver mánaðamót að greiða veiðigjöld upp á 10-15 milljónir og verði ekkert að gert er hætta á að þetta 50 ára gamla fyrirtæki leggist hreinlega af,“ segir hann. „Þar sem við seljum vörur okkar á erlendum mörkuðum getum við ekki látið hækkaðan kostnað fara út í verðlagið, og fátt annað í boði en að hagræða enn frekar á öllum sviðum til að halda sjó.“

Lítið gert fyrir svæðið

Skjöldur bætir því við að það geri illt verra að hækkuðum sköttum virðist ekki mætt með opinberri uppbyggingu á svæðinu. „Allir þekkja harmsöguna um Teigsskóg og núna síðast Breiðafjarðarferjuna Baldur sem hefur verið frá í tvo mánuði. Uppbygging vegakerfisins á svæðinu hefur lengi setið á hakanum, og allt er þetta mjög bagalegt fyrir atvinnulífið og mannlífið á svæðinu. Umræðan um samdrátt opinberra starfa á svæðinu er svo allt annar kapítuli.“

Oddi er ekki eina sjávarútvegsfyrirtækið sem á erfitt uppdráttar um þessar mundir og bendir Skjöldur á að vandinn sé greinilega heimatilbúinn. „Ljóst er að ástand fiskistofnanna er ekki ástæðan, enda eru þeir stórir og heilbrigðir. Vandinn stafar ekki heldur af erlendum mörkuðum enda eru vörurnar okkar eftirsóttar um allan heim og íslenskum fiski allir vegir færir að Rússlandi undanskildu – sem vonandi verður þó aðeins tímabundið. Situr því fátt annað eftir en óeðlileg afskipti stjórnvalda sem skýrt gæti þessa háværu umræðu sem er um þessar mundir um miklar þrengingar í sjávarútveginum.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK