Þrotabúi Baugs loks lokað eftir áratug

Þrotabú Baugs Group hefur verið opið í rúman áratug.
Þrotabú Baugs Group hefur verið opið í rúman áratug. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stefnt er að því að þrotabúi Baugs Group hf. verði lokað á skiptafundi undir lok mánaðarins, rúmum tíu árum eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í mars árið 2009. Um er að ræða eitt stærsta gjaldþrot Íslands­sög­unn­ar.

Í Lögbirtingarblaðinu í dag er tilkynnt um skiptafund í þrotabúinu sem dagsettur er 29. maí. Verði andmælum ekki hreyft gegn frumvarpinu um úthlutun úr þrotabúinu má vænta að skiptum þess verði formlega lokið í kjölfarið.

Tæplega 400 milljarða króna kröfum var í heild lýst í búið. Þar af var tæp­lega 70 millj­arða krafa sem barst frá BG Hold­ing, en þá var frest­ur til slíks út­runn­inn og fékkst kraf­an því ekki samþykkt. Í heild voru kröf­urn­ar um 160, en samþykktar almennar kröfur námu 248 milljörðum króna.

Hins vegar var rétt rúmum 6,67 milljörðum króna úthlutað upp í almennar kröfur. Endurheimtuhlutfall almennra krafna nemur því aðeins um 2,7%. Allar forgangskröfur, um 40 milljónir, fengust greiddar að fullu.

Man ekki eftir stærra þrotabúi

Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs Group, segir við mbl.is að stærstum hluta fjármuna hafi verið úthlutað á árunum 2016-2017. Ekki hafi hins vegar verið hægt að loka búinu í kjölfarið því enn átti eftir að selja síðustu eign þrotabúsins í bresku fatafyrirtæki sem tókst í lok síðasta árs.

„Megnið af fjármunum sem komu inn var vegna riftunarmála, en þeim lauk 2016-2017. Þá fengum við mest út úr slitabúi Kaupþings þegar því var úthlutað. Kröfuhafar fengu því megnið af endurheimtum sínum þá, en við vorum með búið annars ófrágengið nú í nokkur ár í viðbót. Megnið kom inn á um sjö til átta árum, en nú lokum við búinu og úthlutum því síðasta,“ segir Erlendur.

Sem áður segir námu kröfur í búið um 400 milljörðum króna, en samþykktar almennar kröfur námu um 248 milljörðum. Nú er því að ljúka löngum kafla í eftirmálum hrunsins og Erlendur segir aðspurður ljóst að um sé að ræða eitt stærsta þrotabú Íslandssögunnar.

„Ef bankarnir eru teknir frá þá geri ég ráð fyrir því að fátt hafi verið umfangsmeira. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinu stærra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK