Mörgum spurningum um ríkisábyrgð ósvarað

„Ef við eigum að taka ákvörðun um þessa leið þá …
„Ef við eigum að taka ákvörðun um þessa leið þá vill maður að sjálfsögðu sjá kosti og galla hennar umfram aðrar leiðir, annars hefur maður ekkert að bera saman við,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Illmögulegt er fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar að taka upplýsta ákvörðun um frumvarp um ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair án þess að upplýsingar um aðrar færar leiðir til að létta undir með flugfélaginu liggi fyrir, að sögn Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata sem situr í fjárlaganefnd. Nefndin á að skila áliti sínu fyrir lok þingstubbar sem lýkur á föstudag.

Í upphafi umræðu um frumvarpið innan nefndarinnar óskuðu þingmenn Pírata, og fleiri stjórnarandstöðuflokka, eftir gögnum frá fjármálaráðuneytinu um það hvaða aðrir kostir hafi verið skoðaðir áður en ákvörðun um veitingu ríkisábyrgðar var tekin. Þau gögn hafa ekki enn borist. Björn Leví hefur fengið upplýsingar um að þær eigi að berast í dag en efast um að svo verði. 

„Ef við eigum að taka ákvörðun um þessa leið þá vill maður að sjálfsögðu sjá kosti og galla hennar umfram aðrar leiðir, annars hefur maður ekkert að bera saman við. [...] Við erum á þeim stað að við spyrjum um það sem okkur finnst vera augljósar mikilvægar upplýsingar til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun og fáum ekki svör,“ segir Björn Leví sem jánkar því að enn sé mörgum spurningum um ríkisábyrgðina ósvarað. 

Vantar greiningu á kostum og göllum

Hann segir að það væri „ekkert sérstaklega ábyrgt“ að taka afstöðu nema umræddar upplýsingar liggi fyrir. Í frumvarpinu er heim­ild lögð til handa ráðherra að veita Icelanda­ir Group hf. sjálf­skuld­arábyrgð frá rík­is­sjóði á lán­um vegna tekju­falls fyr­ir­tæk­is­ins í tengsl­um við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn. Heild­ar­skuld­bind­ing rík­is­sjóðs vegna þessa get­ur numið allt að 108 millj­ón­um Banda­ríkja­dala eða sem jafn­gild­ir 90% af 120 millj­óna banda­ríkja­dala lánalín­um til fé­lags­ins

Björn Leví segir að eðlilegt væri að nokkrar aðrar leiðir hefðu komið til greina þegar ákvörðun var tekin um ríkisábyrgð og mikilvægt sé fyrir þingmenn að sjá kosti og galla þeirra. Í þessu samhengi nefnir Björn Leví hlutafjárleið og alþjónustuleið.

„Þau segja að hafi verið ákveðin pólitísk ákvörðun að fara ekki hlutafjárleiðina sem eru svo sem alveg rök út af fyrir sig en það ætti alla vega að vera einhver smá greining á kostum og göllum hennar. Það væri hægt að skoða alþjónustu leið, svipað og var farið í með Íslandspósti.“

Hvers vegna fjögur ár en ekki sjö?

Björn Leví bendir á að þegar mun færri ferðamenn voru á landinu fyrir hrun hafi samt verið öruggar flugsamgöngur til og frá landinu. Nú gangi stjórnvöld út frá því að flugsamgöngur verði komnar á samt skrið og fyrir faraldur eftir fjögur ár. Björn Leví segir að þar sé líklega lögð til grundvallar greining Alþjóðasam­taka flugfélaga (IATA) en ekki greining óháðra aðila. 

„[Ráðgjafafyrirtækið] McKinsey gerir ráð fyrir 4-7 árum. Hver ástæðan er fyrir því að hérna séu það fjögur ár, ekki sjö ár, veit ég ekki. Það gætu alveg verið  góðar ástæður fyrir því, Ísland er aðlaðandi ferðamannaland og gæti tekið fyrr við sér en eitthvað annað land en við þurfum svör við þessu,“ segir Björn Leví.

Fjárlaganefnd á að skila áliti sínu áður en þingstubbi lýkur og verður frumvarpið líklega tekið fyrir í umræðu á þingi á föstudag, að sögn Björns Levís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK